Gríðarlegt álag hefur verið á björgunarsveitum landsins það sem af er degi. Hafa þær sinnt á sjötta hundruð verkefna og hafa hátt í 500 manns tekið þátt í að leysa þau. Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.
Á höfuðborgarsvæðinu hófu aðstoðarbeiðnir að streyma inn snemma í morgun og fljótt varð ljóst að kalla varð út allt tiltækt lið. Um 160 manns hafa unnið í allan morgun á öllum tiltækum tækjum sveitanna við að leysa verkefnin. Var þeim forgangsraðað eftir alvarleika.
Um 60 manns sinntu um og yfir 50 verkefni á Suðurnesjum í dag.
Einnig var mikið að gera á Vestfjörðum þar sem 40 manns tóku þátt í aðgerðum, í Skagafirði þar sem 27 björgunarsveitamenn sinntu 17 verkefnum, á Snæfellsnesi voru 27 björgunarmenn sem leystu úr 16 verkefnum, Húnar og Blanda voru með 17 manns í 13 verkefnum, í Eyjafirði leystu sveitir frá Hrísey, Akureyri og Eyjafjarðasveit 10 verkefni og voru settir í þau 19 manns, á Dalvík leystu 11 manns 7 verkefni, í Borgarfirði og nágrenni voru Brák, Elliði og Ósk úti og sinntu 11 verkefnum, 12 björgunarmenn voru að störfum á Hellu, níu manns á Seyðisfirði og 8 á Hólmavík.
Einnig var kallað út á Vopnafirði,Reykholti, Hvolsvelli, Hólmavík og Selfossi svo eitthvað sé nefnt.
Aðrar fréttir
Nýtt björgunarskip Landsbjargar komið til landsins með Brúarfossi
Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna á Íslandi
Frábær aðsókn að nýju grunnnámi í blaðamennsku við Háskóla Íslands