22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Þrjú ný ómtæki til Landspítalans

Minningargjafasjóður Landspítala færði fósturgreiningardeild Landspítala 27 milljónir króna að gjöf sem varið hefur verið til að kaupa 3 ný ómtæki.  Þau leysa af hólmi eldri tæki sem voru orðin úr sér gengin eftir notkun í meira en áratug.  Eðlileg endurnýjun á slíkum tækjum er talin vera 5 til 7 ár.

Tilefni gjafarinnar var 100 ára afmæli Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1916. Í fyrstu var hlutverk hans að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Eftir tilkomu sjúkratrygginga hefur sjóðurinn styrkt sjúklinga sem ekki geta fengið fullnægjandi læknishjálp hérlendis og þurfa að fara til sjúkradvalar í útlöndum. Frá árinu 1966 hefur Minningargjafasjóður Landspítala styrkt tækjakaup á spítalanum. Tekjur sjóðsins myndast með minningargjöfum fólks sem sendir samúðarkort gegnum Póstinn og með ávöxtun höfuðstóls.

Heimild: landspitali.is