Tag Archives: verkfall

Víðtæk áhrif verkfalla á Landspítala

Verkfalli Sjúkraliðafélags Íslands og Starfsmannafélags ríkissofnana,  var boðað á miðnætti aðfaranótt 15. október 2015, hefur það víðtæk áhrif á starfsemi Landspítala og þjónustu við sjúklinga.

Landspítali leggur áherslu á að tryggja bráðaþjónustu og öryggi sjúklinga eins og frekast er unnt. Heildaráhrif verkfallanna eru óljós en gert ráð fyrir að áhrifa gæti í allri starfsemi spítalans. Þannig munu falla niður allar skipulagðar skurðaðgerðir en bráðum og brýnum aðgerðum verða sinnt. Gert er ráð fyrir miklum áhrifum á dag- og göngudeildir og mun hluta þeirra verða lokað meðan á verkfalli stendur, s.s. göngudeild kvenlækninga, barna og á Grensási. Þá mun legurýmum fækka á bráðadeildum spítalans, þjónusta á öðrum skerðast (s.s. í Rjóðri) og fimm daga deild á Landakoti verður lokað. Svipað eða sama gildir um margar sambærilegar deildir, annað hvort lokun eða takmörkuð starfsemi. Stoðþjónusta spítalans raskast líka verulega komi til verkfalls, svo sem rekstur tölvukerfa og flutninga- og símþjónusta.

Líkur eru á að símkerfi spítalans verði fyrir miklu álagi vegna þess ástands sem skapast komi til verkfalls. Því er eindregið mælst til þess að hringja ekki í aðalnúmer spítalans nema brýna nauðsyn beri til. Minnt er á að neyðarnúmer landsmanna er 112.

Hjúkrunarráð Landspítala ályktar um verkfall BHM

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir verulegum áhyggjum vegna verkfalls félagsmanna BHM. Verkfallsaðgerðir hafa þegar valdið auknu álagi á heilbrigðisstarfsmenn sem getur ógnað öryggi sjúklinga. Verkfallið nær til um 500 starfsmanna spítalans og hefur mikil áhrif á starfsemi og þjónustu við skjólstæðinga eins og rannsóknir, aðgerðir og meðferð alvarlegra sjúkdóma. Biðlistar eftir þjónustu hafa nú þegar lengst töluvert síðustu mánuði og verkfallsaðgerðirnar nú munu lengja þessa biðlista enn frekar.
Hjúkrunarráð hefur ítrekað bent á mikið álag á Landspítala og skort á heilbrigðisstarfsfólki. Brýnt er að bæta kjör og starfsaðstæður háskólamenntaðs starfsfólks á Landspítala svo heilbrigðiskerfið á Íslandi verði samkeppnishæft við önnur lönd um starfskrafta fagfólks.
Stjórn hjúkrunarráðs hvetur stjórnvöld til að meta menntun og ábyrgð til launa og semja við félagsmenn BHM hið fyrsta.