Tag Archives: ríkið

Ríkið eignast Geysissvæðið

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Landeigendafélags Geysis ehf., undirrituðu í dag samning um kaup ríkisins á öllum eignarhluta landeigendafélagsins innan girðingar á Geysissvæðinu.  Samkvæmt samningnum verður kaupverð eignarhlutans lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna.

Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við sameigendur sína innan girðingar á Geysissvæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra.

Svæðið innan girðingar á Geysi er u.þ.b. 19,9 hektarar að stærð.  Innan þess svæðis á ríkið sem séreign u.þ.b.2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola.  Það sem eftir stendur eða u.þ.b.17,6 ha. er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins.

Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með er ríkið orðið eigandi alls þess svæðis, en ríkið á þegar stóran hlut aðliggjandi landssvæða utan girðingar.

Samningurinn markar tímamót því hann auðveldar heildstæða uppbyggingu á svæðinu í samræmi við niðurstöðu í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið sem haldin var fyrir nokkrum misserum.

bjarniben-geysir

Ríkið eykur greiðsluþátttöku sína í heyrnartækjum

Heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerðir sem fela í sér hækkun á greiðsluþátttöku ríkisins í heyrnartækjum úr 30.800 krónum í 50.000 krónur. Áætlað er að kostnaður ríkisins vegna þessa aukist um tæpar 58 milljónir króna á ári miðað við óbreyttan fjölda tækja.

Þeir sem eru sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að ríkið taki þátt í kostnaði við kaup á hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands útvegar, samkvæmt reglugerð nr. 1118 frá árinu 2006. Þegar sú reglugerð var sett kostuðu ódýrustu fáanleg heyrnartæki tæpar 30.000 krónur. Nú kosta ódýrustu heyrnartæki sem völ er á um 55.000 krónur þannig að kostnaður fólks vegna heyrnartækjakaupa hefur aukist verulega. Hækkunin sem heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið tekur að fullu mið af vísitölubreytingum frá því að fyrri reglugerð var sett árið 2006.

Auk þessa hefur ráðherra undirritað reglugerð um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöðinni. Þar er kveðið  á um sömu hækkun, þ.e. úr 30.800 krónum í 50.000 krónur.

Í reglugerðunum er kveðið á um skilyrði fyrir greiðsluþátttöku ríkisins í kaupum á heyrnartækjum þar sem fram koma ákveðin viðmið um heyrn viðkomandi og um hve langt þarf að líða á milli endurnýjunar tækja.

Nýju reglugerðirnar sem settar eru með heimild í í lögum um Heyrnar- og talmeinastöð nr. 42/2007 verða birtar í Stjórnartíðindum innan skamms og öðlast þá gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1118/2006 og reglugerð nr. 146/2007.

Billinn-til-thjonustu-reidubuinn

Samstarf í kjaramálum

Samstarf hins opinbera í kjaramálum eflist til muna með stofnun kjaramálaráðs, en samkomulag um koma því á laggirnar var undirritað í vikunni á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenska sveitarfélaga, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, undirrituðu samkomulagið.  Undanfarin ár hafa ríki og sveitarfélög átt ákveðið samstarf í kjaramálum en með samkomulaginu er markmiðið að auka það enn frekar.

Helstu verkefni kjaramálaráðs eru:

  • Greina almennar efnahagsforsendur og gera tillögu um sameiginlega stefnu varðandi svigrúm til launahækkana.
  • Vera vettvangur upplýsingagjafar og samráðs varðandi almenn samskipti aðila á vinnumarkaði og mál sem varða réttindi opinberra starfsmanna, s.s. lífeyrismál.
  • Fjalla um meginþætti kjarastefnu aðila og gera tillögu um sameiginlegar áherslur og markmið við kjarasamningsgerðina.
  • Fylgjast með gangi samningaviðræðna á grundvelli samráðsfunda með formönnum samninganefnda og reglulegrar upplýsingagjafar frá þeim.
  • Rýna kjarasamninga áður en þeir koma til endanlegrar samþykktar aðila, meta um hvort þeir rúmist innan markaðrar stefnu aðila og veita umsagnir ef tilefni er til.