Tag Archives: forseti íslands

Ólafur Ragnar hættir við framboð

Yfirlýsing forseta Íslands:
Í nýársávarpi mínu til íslensku þjóðarinnar 1. janúar bað ég landsmenn alla að íhuga vel lýsinguna á kjörstöðu Íslands sem var meginboðskapur ávarpsins og tilkynnti að í „ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs.“
Í kjölfar hinnar sögulegu mótmælaöldu sem reis hátt í byrjun apríl knúðu margir á um að ég breytti þessari ákvörðun og gæfi kost á mér á ný þótt ég hefði þegar gegnt embætti forseta í tuttugu ár; höfðuðu til umróts og óvissu og lítils fylgis yfirlýstra frambjóðenda.  Af skyldurækni og ábyrgð gagnvart þeim sem lengi höfðu sýnt mér mikið traust tilkynnti ég 18. apríl að ég myndi verða við þessum óskum en lýsti jafnframt yfir, að ég myndi taka því vel ef í ljós kæmi að aðrir nytu nægilegs trausts þjóðarinnar til að gegna embættinu.  Kannanir hafa síðan sýnt að fjöldi kjósenda vildi fela mér embættið á ný en það hefur líka orðið sú ánægjulega þróun að öldur mótmæla hefur lægt og þjóðmálin eru komin í hefðbundinn og friðsamlegri farveg.
 Það er nú líka orðið ljóst með atburðum síðustu daga að þjóðin á nú kost á að velja frambjóðendur sem hafa umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins; niðurstaða kosninganna gæti orðið áþekkur stuðningur við nýjan forseta og fyrri forsetar fengu við sitt fyrsta kjör.
Við þessar aðstæður er bæði lýðræðislegt og eðlilegt, eftir að hafa gegnt embættinu í 20 ár, að fylgja í ljósi alls þessa röksemdafærslu, greiningu og niðurstöðu sem ég lýsti í nýársávarpinu.  Ég hef því ákveðið að tilkynna með þessari yfirlýsingu þá ákvörðun mína að gefa ekki kost á mér til endurkjörs.  Um leið þakka ég einlæglega þann mikla stuðning sem ég hef notið og vona að allt það góða fólk sem hvatti mig til framboðs sýni þessari ákvörðun velvilja og skilning.  Þessi niðurstaða mín er studd þeirri fullvissu að þjóðin getur nú farsællega valið sér nýjan forseta og ég er, eftir langa setu hér á Bessastöðum, bæði í huga og hjarta reiðubúinn að ganga glaður til nýrra verka.

Helstu dagsetningar í aðdraganda forsetakosninganna

Helstu dagsetningar í aðdraganda forsetakosninganna 25. júní 2016 eru þessar:

30. apríl  Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má hefjast innan lands og utan.
1. – 10. maí Yfirkjörstjórnir auglýsa hvar og hvenær þær taka við meðmælendalistum til staðfestingar á kosningabærni meðmælenda, sbr.. 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands.
 20. maí Framboðsfrestur rennur út um miðnætti. Framboðum skal skilað til innanríkisráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir.
 27. maí Innanríkisráðuneytið auglýsir í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir verða í kjöri eigi síðar en þennan dag eftir að hafa afhent Hæstarétti Íslands öll fram komin framboðsgögn.
 4. júní Atkvæðagreiðsla má hefjast í sjúkrahúsum, fangelsum, á dvalarheimilum aldraðra og fatlaðs fólks og í heimahúsum fyrir kjósendur vegna sjúkdóma, fötlunar og barnsburðar. Kjörstjórar á hverjum stað auglýsa sérstaklega hvar og hvenær atkvæðagreiðsla fer fram.
4. júní Viðmiðunardagur kjörskrár. Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, 4. júní. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.
 13. júní Innanríkisráðuneytið auglýsir, eigi síðar en þennan dag, framlagningu kjörskráa í Ríkisútvarpi og dagblöðum.
 15. júní Sveitarstjórnir skulu leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis á skrifstofu sinni eða á öðrum hentugum stað eigi síðar en þennan dag. Kjörskrá skal liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags.*
 25. júní  Kjördagur**

* Kjörskrár skulu liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Sveitarstjórnir taka við athugasemdum við kjörskrár og gera má leiðréttingar á þeim fram á kjördag.

** Kjörfundur hefst á tímabilinu kl. 9 árdegis til kl. 12 á hádegi og skal slitið eigi síðar en kl. 22.

dbcc7a268be81b7c

Heimild: kosning.is

Auglýsing um framboð og kjör forseta Íslands

Kjör forseta Íslands skal fara fram laugardaginn 25. júní 2016. Kjörtímabil forseta Íslands rennur út 31. júlí 2016.

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag.

Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna, en mest 3000, er skiptist þannig eftir landsfjórðungum:

Úr Sunnlendingafjórðungi (þ.e. Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósarhreppur, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur og Borgarbyggð sunnan Hvítár) séu minnst 1.215 meðmælendur, en mest 2.430.

Úr Vestfirðingafjórðungi (þ.e. Borgarbyggð vestan Hvítár, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Húnaþing vestra vestan Hrútafjarðar) séu minnst 62 meðmælendur, en mest 124.

Úr Norðlendingafjórðungi (þ.e. Húnaþing vestra norðan Hrútafjarðar, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Akrahreppur, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing vestan Reykjaheiðar og Tjörneshreppur) séu minnst 163 meðmælendur, en mest 326.

Úr Austfirðingafjórðungi (þ.e. Norðurþing austan Reykjaheiðar, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður) séu minnst 60 meðmælendur, en mest 120.

Ellefu Íslendingar fengu fálkaorðuna

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 1. janúar 2016, sæmdi forseti Íslands ellefu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeir eru:
1. Björgólfur Jóhannsson forstjóri, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir  framlag til þróunar íslensks atvinnulífs.
2. Elísabet Ronaldsdóttir kvikmyndagerðarmaður, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar kvikmyndagerðar.
3. Geirmundur Valtýsson tónlistarmaður, Sauðárkróki, riddarakross
fyrir framlag til íslenskrar tónlistar og heimabyggðar.
4. Guðrún Ása Grímsdóttir rannsóknarprófessor, Reykjavík,
riddarakross fyrir störf á vettvangi íslenskra fræða og menningar.
5. Helga Guðrún Guðjónsdóttir fyrrverandi formaður UMFÍ,
Kópavogi, riddarakross fyrir forystu störf á vettvangi íþrótta og
æskulýðsstarfs.
6. Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra,
Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til umhverfiserndar og
náttúrufræðslu og störf í opinbera þágu.
7. Hrafnhildur Schram listfræðingur, Reykjavík, riddarakross fyrir
störf í þágu íslenskrar myndlistar.
8. Hörður Kristinsson grasafræðingur, Akureyri, riddarakross fyrir
rannsóknir og kynningu á íslenskum gróðri.
9. Ólafur Ólafsson formaður Aspar, Reykjavík, riddarakross fyrir
störf að íþróttamálum fatlaðra.
10. Steinunn Kristjánsdóttir prófessor, Reykjavík, riddarakross fyrir
rannsóknir á sviði íslenskrar sögu og fornleifa.
11. Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir
framlag til íslenskra bókmennta.
e1f390b4304decf3