27/03/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Styrkir veittir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Fjórtán skólar hafa fengið styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðar, samtals að andvirði 12 milljónir króna. Styrkirnir felast í tölvubúnaði og námskeiðum fyrir kennara til að þeir séu betur í stakk búnir til að kenna nemendum sínum forritun.

Alls bárust 30 umsóknir vegna úthlutunar úr sjóðnum árið 2016, flestar frá grunnskólum. Að þessu sinni fengu eftirtaldir fjórtán skólar styrk úr sjóðnum og óskum við þeim til hamingju um leið og við hvetjum sem flesta skóla til að sækja um að ári:

Auðarskóli, Álfhólsskóli, Blönduskóli, Glerárskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskóli Vesturbyggðar, Heiðarskóli, Hvaleyrarskóli, Ingunnarskóli, Klébergsskóli, Oddeyrarskóli, Tálknafjarðarskóli, Vatnsendaskóli og Víðistaðaskóli.

Efli forritun og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum

Hlutverk sjóðsins Forritarar framtíðarinnar er að efla forritun og tæknimenntun í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Mikill uppgangur er í upplýsingatækni á Íslandi og skortur á fólki með viðeigandi menntun. Sjóðnum er ætlað að stuðla að því að börn og unglingar fá þjálfun og þekkingu á tölvutækni til að þau geti nýtt sér hana í víðum skilningi.

Landsbankinn er einn af hollvinum sjóðsins. Styrkur bankans felst annars vegar í árlegu peningaframlagi og hins vegar hefur bankinn gefið um 30 tölvur og tölvuskjái árlega. Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans, situr í stjórn stjóðsins.

Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema. Hollvinir sjóðsins eru Advania, CCP, Cyan veflausnir, Icelandair, Íslandsbanki, Landsbankinn, Samtök iðnaðarins, Síminn, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Nýherji, og Össur.