07/02/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Starfshópur vegna samþættingar stofnana á sviði náttúruverndar

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp til að skoða leiðir til að samþætta eða sameina stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu, með það að markmiði að efla stofnanakerfi ráðuneytisins á sviði verndunar og sjálfbærrar nýtingar náttúru landsins.

Mikilvægt er að stofnanaumgjörð ríkisins endurspegli breyttar þarfir og hafi afl til að takast á við nýjar áskoranir. Ljóst er að með auknu álagi á náttúru landsins vegna ferðamennsku mun verða vaxandi þörf á að efla getu á þessu sviði. Þar má sérstaklega nefna þær áskoranir sem tengjast mikilli þörf á verndaraðgerðum og uppbyggingu vegna hennar, á náttúruverndarsvæðum og almennt í íslenskri náttúru.

Starfshópnum er falið að kanna ávinning af því að sameina verkefni á þessu sviði og skulu eftirfarandi leiðir kannaðar í því sambandi:

  • Sameining þess hluta starfs Umhverfisstofnunar sem snýr að ofangreindum verkefnum og Landgræðslu ríkisins með staðsetningu í Gunnarsholti.
  • Sameining Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins, en þá með innri aðskilnaði tilgreindra verkefna og stjórnsýslu. Áhersla verði á skilgreiningu kjarnaverkefna landsbyggðarstarfstöðva.

Starfshópinn skipa:

  • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, formaður,
  • Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður,
  • Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Stefán Guðmundsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og
  • Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri hjá Landgræðslu ríkisins.

Með hópnum starfar Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi auk ritara.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir 1. nóvember 2015 og skal hann hafa samráð við helstu hagaðila.