Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, tók í dag fyrstu skóflustunguna að stækkun hjúkrunarheimilisins við Sóltún í Reykjavík. Með henni voru Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns og þær Aníta Eir Vilmarsdóttir og Jóný Helgadóttir, dætur starfsmanna á Sóltúni. Um er að ræða enn eitt skrefið í áætlun ríkisstjórnarinnar um stóraukna uppbyggingu hjúkrunarheimila til að mæta brýnni þörf.
Stækkunin gerir ráð fyrir 67 nýjum hjúkrunarrýmum og eru verklok áætluð árið 2027. Hjúkrunarrými í Sóltúni verða þá alls orðin 159.
„Þið eruð svo sannarlega að leggja ykkar af mörkum til að við getum komið okkar fólki í skjól,“ sagði Inga Sæland við tilefnið. „Við ætlum að eyða biðlistum og við sjáum að uppbygging hjúkrunarrýma mun líka losa um flöskuhálsinn á Landspítala og víðar og gjörbreyta þannig stöðunni fyrir sjúkrahúsin okkar. Þetta er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar, uppbygging á hjúkrunarrýmum.“
„Þetta er stórt og mikilvægt skref sem gerir okkur kleift að veita fleira eldra fólki þá umhyggju, virðingu og öryggi sem það á skilið. Við erum þakklát fyrir traustið sem ríkið sýnir okkur með því að fá að taka þátt í uppbyggingu á þjónustu sem brýn þörf er á,“ segir Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns.
Aðrar fréttir
Samþykkt að reisa nýtt sýninga- og æfingarými við Þjóðleikhúsið
Þriggja milljarða viðbótarframlag í viðhald vega
Willum er nýr forseti ÍSÍ