21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Skóflustunga að nýjum stúdentagörðum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, tóku nýverið fyrstu skóflustungu að nýjum stúdentagörðunum í Brautarholti.

Garðarnir eru staðsettir í Brautarholti nr 7, á milli Mjölnisholts og Ásholts. Þar munu rísa tvö hús, alls um 4.700 m2, með 102 litlum íbúðum fyrir barnlausa stúdenta. Um byggingu sér Jáverk ehf en THG arkitektar eru aðalhönnuðir.

Það er stefna Reykjavíkurborgar að auka framboð húsnæðis fyrir alla samfélagshópa í öllum hverfum borgarinnar. Það er meðal markmiða að taka þátt í byggingu 400 nemendaíbúða svo bygging stúdentagarða í Brautarholt er stórt skref að því marki.

Stefnt er að því að húsin verði tilbúin í ágúst 2016. Með framkvæmdunum er leitast við að svara eftirspurn eftir stúdentaíbúðum en 800 námsmenn voru á biðlista eftir húsnæði að úthlutun lokinni sl. haust og útlit er fyrir að þeir verði töluvert fleiri nú í haust.

Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði en það sem á vantar leggur Félagsstofnun stúdenta til.

img_2806