18/04/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Sigurður Guðjónsson skipaður forstjóri

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað Sigurð Guðjónsson forstjóra Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafastofnunar hafs og vatna frá og með 1. apríl 2016. Um er að ræða nýja stofnun sem tekur til starfa þann 1. júlí 2016 við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Til að leggja mat á hæfni þeirra sem sóttu um starfið skipaði ráðherra þriggja manna nefnd sér til ráðgjafar. Í nefndinni áttu sæti Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri, Gunnar Stefánsson, prófessor og Kristján Andri Stefánsson, sendiherra. Nefndin mat tvo umsækjendur mjög vel hæfa og var Sigurður annar þeirra.

Sigurður lauk BSc. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og MSc. prófi frá Dalhousie háskólanum í Halifax árið 1983. Þá lauk hann doktorsprófi í fiskifræði frá Oregon State University. Hann hefur verið aðalhöfundur og meðhöfundur að yfir 20 ritrýndum vísindagreinum sem birst hafa í viðurkenndum erlendum tímaritum. Sigurður hefur mikla reynslu af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og hefur haldið fjölmarga fyrirlestra á ráðstefnum hér heima og erlendis. Sigurður hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri sem forstöðumaður Veiðimálastofnunar frá árinu 1997.

forstjoriHeimild: hafro.is