Samstarf hins opinbera í kjaramálum eflist til muna með stofnun kjaramálaráðs, en samkomulag um koma því á laggirnar var undirritað í vikunni á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenska sveitarfélaga, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, undirrituðu samkomulagið. Undanfarin ár hafa ríki og sveitarfélög átt ákveðið samstarf í kjaramálum en með samkomulaginu er markmiðið að auka það enn frekar.
Helstu verkefni kjaramálaráðs eru:
- Greina almennar efnahagsforsendur og gera tillögu um sameiginlega stefnu varðandi svigrúm til launahækkana.
- Vera vettvangur upplýsingagjafar og samráðs varðandi almenn samskipti aðila á vinnumarkaði og mál sem varða réttindi opinberra starfsmanna, s.s. lífeyrismál.
- Fjalla um meginþætti kjarastefnu aðila og gera tillögu um sameiginlegar áherslur og markmið við kjarasamningsgerðina.
- Fylgjast með gangi samningaviðræðna á grundvelli samráðsfunda með formönnum samninganefnda og reglulegrar upplýsingagjafar frá þeim.
- Rýna kjarasamninga áður en þeir koma til endanlegrar samþykktar aðila, meta um hvort þeir rúmist innan markaðrar stefnu aðila og veita umsagnir ef tilefni er til.
Aðrar fréttir
Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir
Opnað að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán
Tekjumörk hlutdeildarlána hækkuð