10/09/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Ríkisstjórnin kemur til móts sveitarfélög vegna flóða og óveðurs

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, að veita eftirfarandi sveitarfélögum og stofnunum fjárstyrk af óskiptum fjárheimildum ríkisins á árinu 2016 til að mæta óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum þeirra vegna brýnustu viðbragða og framkvæmda í kjölfar óveðursins og sjávarflóða í lok síðasta árs og vegna afleiðinga síðasta Skaftárhlaups:

  • Fjarðabyggð 46,3 m.kr.
  • Breiðdalshreppur 13,7 m.kr.
  • Borgarfjörður Eystri  1,5 m.kr.
  • Djúpavogshreppur 1,7 m.kr.
  • Vegagerð ríkisins 181,2 m.kr.
  • Minjastofnun Íslands/Húsafriðunarsjóður allt að 35 m.kr.
  • Landgræðsla ríkisins 40 m.kr. vegna afleiðinga síðasta Skaftárhlaups

„Ljóst er að fjárhagslegt tjón sveitarfélaga var þó nokkurt og erfitt fyrir þau að takast á við það án stuðnings. Hafnarmannvirki, grjótvarnir, veitukerfi, vegir og fleira sem tryggingar ná ekki yfir urðu fyrir skemmdum í sveitarfélögum á Austurlandi. Þá olli Skaftárhlaup miklum búsifjum og nauðsynlegt að bregðast við til að hefta sandfok og svifryksmengun,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.

Í kjölfar óveðurs og sjávarflóða á Austfjörðum í lok síðasta árs hefur samráðshópur ráðuneytisstjóra fjögurra ráðuneyta haldið stöðufundi með aðilum sem að málum hafa þurft að koma vegna afleiðinga, brýnna aðgerða og mati á samfélagslegum kostnaði heildrænt því samfara. Með hópnum störfuðu fulltrúar frá Viðlagatryggingu Íslands og fulltrúar frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Minjastofnun Íslands og Ofanflóðasjóði. Samráðshópurinn hefur einnig fjallað um þörf á viðbrögðum í kjölfar síðasta Skaftárhlaups. Upplýsingar voru fengnar frá Landgræðslu ríkisins sem og Veðurstofu Íslands vegna hættumats vegna Skaftárhlaupa um kostnað við brýnustu landgræðsluframkvæmdir.

Tjónamat á vátryggðum, tilkynntum og metnum tjónum til Viðlagatryggingar Íslands nema um 70 m.kr. vegna tjónamála hjá einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Örfá tjónamál eru enn í vinnslu, en fjárhæðir þeirra munu að líkindum hafa óveruleg áhrif á heildarkostnað.

Heimild: stjornarad.is