07/02/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Rauði krossinn sendi 11 tonn til Hvíta-Rússlands

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent af stað fatagám til Hvíta-Rússlands sem inniheldur rúmlega 11 tonn af fatnaði. Áfangastaðurinn er Grodno í vesturhluta landsins. Mikil fátækt ríkir í dreifbýlum svæðum Hvíta-Rússlands og er Grodno þar engin undantekning. Sérstaklega berskjaldaðir hópar eru til að mynda einstæðar mæður og eldri borgarar. Rauði krossinn á Íslandi hefur átt náið samstarf við hvítrússneska Rauða krossinn og hefur sent sérvalinn fatnað allt frá árinu 2012 en þá létust tugir Hvítrússa í kjölfar mikillar kuldatíðar.

Í fatagámnum eru sérútbúnir fatapakkar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land hafa útbúið í verkefninu Föt sem framlag. Þar má finna notaðan fatnað jafnt sem nýprjónaða sokka og vettlinga, hlý teppi, úlpur, peysur, skó, barnasamfestinga og margt fleira. Er þetta fjórði fatagámurinn sem er sendur til Hvíta-Rússlands á þessu ári en þörfin hefur aukist gríðarlega á undanförnum mánuðum vegna mikils fjölda flóttamanna sem streymir til landsins frá stríðshrjáðri Úkraínu.