22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Pistill frá forstjóra Landspítalans

Í vikunni var tekið mikilvægt skref til framtíðaruppbyggingar á Landspítala þegar afhent voru útboðsgögn til fullnaðarhönnunar á sjúkrahóteli á Hringbrautarlóðinni. Bygging á sjúkrahótelinu er í reynd fyrsti áfanginn í heildaruppbyggingu sem undirbúin hefur verið bæði með frumhönnun nýrra bygginga og gerð deiliskipulags fyrir lóðina.   Það er vaxandi skilningur á því í samfélaginu að ekki verði haldið áfram á þeirri braut sem spítalinn hefur verið, þjóðin geti með engu móti mætt framtíðarkröfum um öryggi og þjónustu með núverandi spítalabyggingum einvörðungu.

Þetta hefur komið fram í mörgu en að undanförnu mjög skýrt í tvennu. Annars vegar í þeim fersku vindum sem hafa blásið um nýstofnuð samtök Spítalinn okkar. Það er mikill kraftur í þeim og ég hvet fólk eindregið til að leggja þeim lið. Núna er Spítalinn okkar nýbúinn að opna heimasíðu þar sem eru allar helstu upplýsingar um samtökin og hægt að skrá sig í þau. Hins vegar og ekki síður áberandi og mikilvægt skref til stuðnings uppbyggingaráformunum við Hringbraut var samþykkt Alþingis á síðasta starfsdegi fyrir sumarleyfi þess. Þar kemur skýrt fram vilji þingsins að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi bygginga við Hringbraut og hefja framkvæmdir strax að honum loknum. Þessi samþykkt Alþingis er mikið fagnaðarefni og ég leyfi mér að trúa því og treysta að við verðum búin að sameina bráðastarfsemi spítalans í einum meðferðarkjarna við Hringbraut árið 2020.

II.

Það er vissulega erfitt að þurfa bíða til ársins 2020 eftir betra húsnæði fyrir sjúklinga og starfsmenn Landspítala en við munum glöð þrauka ef við vitum fyrir víst hvað koma skal og hvenær. Spítalinn nýtur þess að eiga góða bakhjarla sem hafa sýnt að þeir eru tilbúnir að leggja honum lið þegar á reynir. Þetta kom til dæmis skýrt í ljós í söfnun til kaupa á línuhraðli til geislameðferðar vegna krabbameina. Þar steig Þjóðkirkjan fram, Blái naglinn og fjölmörg önnur félagasamtök og einstaklingar og lögðu til fé. Núna er þetta tæki rækilega búið að sanna ágæti sitt og var formlega tekið í notkun í vikunni eftir reynslutímabil. Það er stutt síðan við tókum í notkun nýtt hjartaþræðingartæki sem líka var að miklu leyti keypt fyrir gjafafé. Núna er verið að safna fyrir aðgerðarþjarka til skurðlækninga á spítalanum, öflugu tæki sem við vonumst til að komist í gagnið á næsta ári. Þar hafa líka margir lagt sitt af mörkum nú þegar en það má segja að vatnaskil hafi orðið í þjarkasöfnuninni með 25 milljóna króna gjöf Hagkaups og Bónus á dögunum. Við þökkum af heilum hug fyrir allan þennan stuðning, hann skiptir spítalann máli og þar með þjóðina.

III.

Ríkissaksóknari hefur tilkynnt að höfða beri sakamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur starfsmanni á gjörgæsludeild Landspítala og stofnuninni sjálfri. Ákæran kemur í kjölfar atviks sem varð haustið 2012 á gjörgæsludeild og leiddi til þess að sjúklingur lést. Hugur starfsfólks Landspítala er hjá aðstandendum enda missir þeirra mikill.

Mál þetta var nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum á síðasta vetri og skapaðist í kjölfarið talsverð umræða um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustunni og meðferð þeirra. Slík umræða er tiltölulega ný af nálinni á Íslandi en á sér lengri sögu í mörgum nágrannalöndum okkar.

Stuttu fyrir síðustu aldamót kom út skýrsla Institute of Medicine í Bandaríkjunum To Err is Human og segja má að hún hafi víða markað straumhvörf þar sem hún dró fram þá staðreynd, sem fæstir vildu vita af, að spítalar geta verið hættulegir. Það markast auðvitað af því hversu flókin og alvarleg veikindi sjúklinga eru og þeirri gríðarlega flóknu meðferð sem veitt er á sjúkrahúsum í dag. Þar kom fram að mistök í heilbrigðisþjónustu voru algengari en áður hafði verið talið. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á slíkum mistökum ber allar að sama brunni: Nær alltaf þegar alvarlegir atburðir verða í flókinni heilbrigðisþjónustu verður það ekki vegna einstaks tilviks heldur vegna þess að nokkur mismunandi frávik raðast saman. Að auki geta mistök í heilbrigðisþjónustu haft alvarlegri afleiðingar en í flestum öðrum greinum enda hafa þau áhrif á líf og heilsu fólks.

Landspítali hefur undanfarin ár tilkynnt að jafnaði á milli 6 og 10 alvarleg atvik árlega til Landlæknis og lögreglu enda ber okkur skylda til þess samkvæmt lögum um dánarvottorð og krufningar 61/1998reglugerð 248/2001 og dreifibréfi Landlæknis 3/2005.  Sú tilkynningaskylda er nokkuð rík og gengur lengra en nágrannar okkar í Noregi gera svo dæmi séu tekin (http://www.helsetilsynet.no/upload/regelverk/rundskriv/2008/rundskriv_ik_2_2008.pdf  / http://www.helsetilsynet.no/upload/Publikasjoner/tilsynsmelding/2004/helsetilsynets_samarbeid_politi_p%C3%A5talemyndighet.pdf).
Mikilvægt er að til sé farvegur til að rannsaka alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu bæði innan stofnunar og ekki síður hjá óháðum ytri aðilum. Heilbrigðisstarfsmenn eiga ekki að vera undanþegnir lögum frekar en aðrir. Hins vegar verða slíkar rannsóknir að taka mið af því flókna umhverfi sem er til staðar á heilbrigðisstofnunum.  Í sumum nágrannalöndum okkar hefur verið brugðist við þessum veruleika með því að koma á nánara samstarfi heilbrigðisyfirvalda og lögreglu með það að markmiði að auka þekkingu og skilning á þeim flóknu aðstæðum og verkefnum sem unnin eru innan heilbrigðiskerfisins. Landspítali hefur kallað eftir því að slíkt verði skoðað hér á landi og hafa heilbrigðisyfirvöld tekið vel í þá málaleitan.

„Öruggur spítali“ er eitt gilda Landspítala og hefur undanfarin ár verið unnið markvisst að því að auka öryggi sjúklinga með opinni öryggismenningu þar sem opin umræða, markviss skráning atvika og úrvinnsla þeirra er einn lykilþátta. Á slíkri skráningu byggir möguleiki okkar til að fyrirbyggja að sambærileg atvik geti átt sér stað í framtíðinni. Það að segja frá sínum eigin mistökum eða annarra á að leiða til umbóta til handa sjúklingum en ekki til þess að hafin sé leit að sökudólgum. Í opinni öryggismenningu eiga heilbrigðisstarfsmenn að vera óhræddir við að skrá og upplýsa það sem aflaga fer og allt sem dregur úr vilja þeirra eða getu til þess er afturför. Í því ljósi er ofangreind ákæra bæði vonbrigði og vegferðinni að öruggum spítala talsvert áfall. Enda skapar hún mikla óvissu varðandi starf og starfsumhverfi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna.

Þrátt fyrir þennan breytta veruleika og miklu óvissu eigum við sem íslenskir heilbrigðisstarfsmenn ekki annarra kosta völ en að sinna okkar verkefnum áfram af þeirri fagmennsku og umhyggju sem við höfum tamið okkur enda er líf og heilsa skjólstæðinga okkar í húfi. Jafnframt er mikilvægt að við kvikum ekki frá því að halda áfram innleiðingu öryggismenningar og stöðugum umbótum á starfseminni með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Það er sú leið sem þróuð heilbrigðiskerfi hafa valið og við munum ekki bregða af henni.

Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!

Páll Matthíasson

pall_matthiasson_300913_4