Samsýningin, A posterori: Hús, höggmynd, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni, laugardaginn 13. september kl. 16. Listamennirnir Birgir Snæbjörn Birgisson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Kathy Clark, Kristín Reynisdóttir, Stefán Jónsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir sýna þar verk sín ásamt verkum Ásmundar Sveinssonar.
Á sýningunni eru listaverk með nýstárlegar tilvísanir í hinar ýmsu byggingar og hús. Verkin eru ýmist gerð út frá raunverulegri eða ímyndaðri byggingarlist og endurspegla oft liðna tíð. Sjálft Ásmundarsafn er hluti af sýningunni bæði sem hús og höggmynd. Ásmundur hannaði húsið með listaverkin sín í huga og nýtti sem vinnustofu og sýningarrými. Byggingarnar bjóða jafnframt upp á óhefðbundinn vettvang fyrir listsköpun annarra listamanna. Ásmundur byggði húsið á sama tíma og hann vann margar af þeim höggmyndum sem nú standa í garðinum. Á sýningunni verða sett upp minni útgáfur af þessum höggmyndum sem spila bæði saman við stærri verkin og við verk annarra listamanna á sýningunni. Sýningarstjóri er Yean Fee Quay.
Heimild: http://www.listasafnreykjavikur.is
Aðrar fréttir
Listasafn Reykjavíkur hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2024
Veitir 40 milljónir í styrki til atvinnumála kvenna
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar