22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Níu þjóðarleiðtogar hittast í Reykjavík í október

Forsætisráðaherrar Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hafa þekkst boð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um þátttöku í málþinginu Northern Future Forum í Reykjavík 28. og 29. október næstkomandi. Þetta verður í fyrsta sinn á lýðveldistímanum sem forsætisráðherra Bretlands heimsækir Ísland.

Northern Future Forum er umræðuvettvangur þjóðanna níu, þar sem þjóðarleiðtogar, fræðimenn og sérfræðingar skiptast á skoðunum um valin mál.  Málþingið er nú haldið í fimmta sinn, en áður hafa Bretar, Svíar, Lettar og Finnar boðið heim undir merkjum Northern Future Forum .  Í þetta sinn mun umræðan snúast um skapandi atvinnugreinar og nýsköpun í opinberum rekstri. Allar frekari upplýsingar má nálgast á vef málþingsins nff2015.is.

Samhliða málþinginu munu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, funda um samskipti og samstarf landanna. Heimsókn David Cameron til Íslands markar tímamót, því forsætisráðherra Bretlands hefur ekki komið í formlega heimsókn til Íslands frá stofnun lýðveldis hér á landi. Vert er þó að minnast á að Winston Churchill þáverandi forsætisráðherra Bretlands heimsótti Ísland á hernámstímanum í ágúst 1941 og átti þá fundi með fulltrúum Íslenskra stjórnvalda.