03/10/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Menningarnótt haldin í 21. skipti í sumar

Landsbankinn og Höfuðborgarstofa hafa skrifað undir nýjan samning til þriggja ára en Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi. Allur fjárstuðningur bankans, sem samsvarar þremur og hálfri milljón kr., rennur óskertur til listamanna og skapandi einstaklinga eða hópa sem koma fram á Menningarnótt.

Áhersla á að styrkja viðburði á Grandanum

Menningarnótt verður haldin í 21. skipti þann 20. ágúst næstkomandi. Landsbankinn og Höfuðborgarstofa hafa auglýst eftir umsóknum í Menningarnætupott Landsbankans á vefnum Menningarnott.is og er umsóknarfrestur til og með 31. maí.  Í ár verður áhersla lögð á að styrkja skemmtilega og frumlega viðburði sem tengjast Grandasvæðinu við gömlu höfnina, það er þó ekki skilyrði. Veittir verða styrkir á bilinu 50.000-250.000 kr. til einstaklinga og hópa

Gakktu í bæinn!

Menningarnótt hefur fest sig í sessi sem ein helsta hátíð Reykjavíkur en á síðasta ári er talið að um 120.000 gestir hafi lagt leið sína í miðborgina þennan dag. Menningarnótt fer fram á torgum og götum, í bakgörðum og söfnum, í fyrirtækjum og heimahúsum.  Yfirskrift hátíðarinnar er „gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti. Menningarnótt er þátttökuhátíð sem byggir á framlagi fjölda aðila sem standa að menningarlífi í borginni og annarra sem nota þetta tækifæri til að setja svip sinn á borgarlífið