06/12/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Mælt fyrir nýjum sóttvarnalögum á Alþingi

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga á Alþingi. Meginbreytingar frá gildandi löggjöf sem lagðar eru til í frumvarpinu varða stjórnsýslu sóttvarnaráðstafana og opinberar sóttvarnaráðstafanir. Verði frumvarpið að lögum mun það breyta umtalsvert þeirri aðferðafræði sem kveðið er á um í gildandi sóttvarnalögum að því er varðar ákvarðanir um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Vegur þar þyngst tilkoma nýrrar farsóttanefndar sem tekur við hlutverki sóttvarnalæknis að hluta við að koma fram með tillögur að opinberum sóttvarnaráðstöfunum til ráðherra. Þannig mun frumvarpið hafa töluverð áhrif á stjórnsýslu sóttvarna.

Frumvarpið er samið af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði 18. júní 2021. Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sóttvarnalækni, embætti landlæknis, sóttvarnaráði, Landspítala og ríkislögreglustjóra. Hópurinn átti einnig fundi með sóttvarnalækni og landlækni. Drög að frumvarpinu voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og í kjölfarið voru gerðar á þeim lítilsháttar breytingar með hliðsjón af umsögnum sem bárust.

Gildandi sóttvarnalög eru frá árinu 1997 en hafa tekið nokkrum breytingum frá þeim tíma. Við heildarendurskoðun þeirra var einkum talið nauðsynlegt að fjalla um þau ákvæði sem fjalla um stjórnsýslu og opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna þeirrar reynslu sem fengist hefur hér á landi vegna heimsfaraldurs Covid-19. Aldrei áður í gildistíð laganna hefur opinberum sóttvarnaráðstöfunum verið beitt gagnvart almenningi með jafn umfangsmiklum hætti og í faraldrinum. Til grundvallar endurskoðuninni lá einnig álitsgerð sem dr. Páll Hreinsson vann að beiðni forsætisráðuneytisins um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum.

Helstu nýmæli samkvæmt frumvarpinu:

 

  • Lagt er til markmiðsákvæði, sambærilegt og er í nýlegum dönskum lögum, komi inn í sóttvarnalög.
  • Lagt er til að sett verði í lögin skýrt gildissviðsákvæði sem og sérstakt ákvæði um þá sjúkdóma sem lögin taka til. Í því ákvæði er lögð til tiltekin stigskipting sjúkdóma í samræmi við þær heimildir sem koma til greina þegar glímt er við hvern og einn sjúkdóm.
  • Lagðar eru til nýjar orðskýringar, svo sem skýring á samfélagslega hættulegum sjúkdómi.
  • Lagðar eru til breytingar á stjórnsýslu sóttvarna. Þannig er lagt til að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra, líkt og landlæknir og aðrir forstöðumenn stofnana, samhliða því að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórn ráðherra en ekki landlækni. Enn fremur að nýtt fjölskipað stjórnvald, farsóttanefnd, verði sett á laggirnar sem skilar inn tillögum til ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma.
  • Samhliða stofnun farsóttanefndar verður sóttvarnaráð í núverandi mynd lagt niður í nýjum heildarlögum um sóttvarnir. Þó er lagt til í frumvarpinu að sóttvarnalæknir hafi heimild til að kveða sér til ráðgjafar sérfræðinga vegna þeirra verkefna sem falla undir hlutverk sóttvarnalæknis.
  • Lagt er til að kaflinn um opinberar sóttvarnaráðstafanir og einstaka ákvæði hans verði brotin upp og framsetning einfölduð frá gildandi sóttvarnalögum. Jafnframt eru settar tilteknar skorður við tímalengd opinberra sóttvarnaráðstafana.
  • Lagt er til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt.
    Lagt er að viðurlagaákvæði laganna verði uppfært í samræmi við löggjafarþróun síðari ára.

Frumvarpið og ferill málsins á vef Alþingis