Íslensku safnaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn þann 18. maí sem er Alþjóðadagur safna. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt.
Að verðlaununum standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félags íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS).
Listasafn Reykjavíkur hlaut verðlaunin í ár fyrir framsækið miðlunarstarf.
Í umsöfn valnefndar segir meðal annars:
„Grunnstef í miðlun Listasafns Reykjavíkur er að allir geti tengst myndlist í fortíð og samtíma á eigin forsendum. Gestir safnsins á öllum aldri, af ólíku þjóðerni og mismunandi áhuga eða getu eru hvattir til að skoða og uppgötva og ekki síst til þátttöku í miðlunarstarfi safnsins. Safnið leitast við að sníða sýningar og aðra miðlun með það að markmiði að skapa borgarbúum og öðrum gestum innihaldsríkar og ánægjulegar myndlistarstundir.
Í miðlunarstarfi sínu sýnir Listasafn Reykjavíkur mikinn metnað og nýsköpun til að ná til ólíkra markhópa safnsins á framúrskarandi hátt.“
Önnur söfn sem hlutu einnig tilnefningar voru Gerðarsafn fyrir tengingu milli innra og ytra safnastarfs, Listasafn Íslands fyrir Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi, Sauðfjársetur á Ströndum fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi og Þjóðminjasafn Íslands fyrir Með verkum handanna.
Starfsfólk og safnstjóri tóku við verðlaunum ásamt sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs.
Aðrar fréttir
Veitir 40 milljónir í styrki til atvinnumála kvenna
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Hátíðardagskrá í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 2019