06/12/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Íslensk erfðagreining gefur jáeindaskanna

Íslensk erfðagreining hefur skuldbundið sig til að gefa 5,5 milljónir Bandaríkjadala eða rúmar 720 milljónir íslenskra króna til að kaupa jáeindaskanna fyrir Landspítala.  Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti  Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra yfirlýsingu þess efnis 12. ágúst 2015. Ráðherra segir vonast til þess að jáeindaskanni komist í gagnið á spítalanum eftir eitt og hálft ár.

Við hönnun nýbygginga á Landspítalalóð hefur verið gert ráð fyrir að koma fyrir þessu mikilvæga myndgreiningar- og rannsóknartæki.   Nauðsynlegt er að reisa nýtt húsnæði til að koma jáeindaskannanum fyrir á spítalanum og tengdum búnaði til að búa til geislavirk efni.

Á hverju ári eru um 100 krabbameinssjúklingar sendir til útlanda í jáeindaskanna (petskanna) vegna þess að slíkt tæki er ekki til hér. Skanninn þykir nýtast einkar vel fyrir ýmsar tegundir af lungnakrabbameinum, eitlakrabbamein, leghálskrabbamein og krabbamein í koki. Jáeindaskanni gagnast líka vel við að finna uppruna krabbameins ef fólk hefur greinst með meinvarp.

Þetta kemur fram á vef Landspitala.is.

jaeindaskanni_mynd