21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Hverfakosningar hefjast í næstu viku

Rafrænar hverfakosningar um ný framkvæmdaverkefni í hverfum Reykjavíkur hefjast á miðnætti þriðjudaginn 11. mars. næstkomandi. Opið verður fyrir atkvæðagreiðslu til miðnættis þriðjudaginn 18. mars.

Þetta er í þriðja sinn sem íbúum í Reykjavík gefst kostur á að kjósa um verkefni í hverfunum sínum í rafrænum kosningum með dulkóðuðum auðkennum. Kosningarnar eru með sama sniði og síðustu tvö ár. Farið er á vefslóðina http://www.kjosa.betrireykjavik.is.

Kosningarétt hafa allir sem voru orðnir 16 ára um síðustu áramót og eru niðurstöðurnar bindandi. Á síðustu tveimur árum hafa íbúar í Reykjavík kosið yfir 200 verkefni til framkvæmda í hverfum borgarinnar, sem Reykjavíkurborg hefur framkvæmt eða eru á undirbúningsstigi.

Í ár verður 300 milljónum varið til nýrra verkefna í hverfunum sem íbúar forgangsraða í kosningunum. Auglýst var eftir hugmyndum frá íbúum í nóvember á síðasta ári og bárust yfir 400 hugmyndir sem hverfisráð og fagteymi á vegum borgarinnar fóru yfir.