21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Hjúkrunarráð Landspítala ályktar um verkfall BHM

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir verulegum áhyggjum vegna verkfalls félagsmanna BHM. Verkfallsaðgerðir hafa þegar valdið auknu álagi á heilbrigðisstarfsmenn sem getur ógnað öryggi sjúklinga. Verkfallið nær til um 500 starfsmanna spítalans og hefur mikil áhrif á starfsemi og þjónustu við skjólstæðinga eins og rannsóknir, aðgerðir og meðferð alvarlegra sjúkdóma. Biðlistar eftir þjónustu hafa nú þegar lengst töluvert síðustu mánuði og verkfallsaðgerðirnar nú munu lengja þessa biðlista enn frekar.
Hjúkrunarráð hefur ítrekað bent á mikið álag á Landspítala og skort á heilbrigðisstarfsfólki. Brýnt er að bæta kjör og starfsaðstæður háskólamenntaðs starfsfólks á Landspítala svo heilbrigðiskerfið á Íslandi verði samkeppnishæft við önnur lönd um starfskrafta fagfólks.
Stjórn hjúkrunarráðs hvetur stjórnvöld til að meta menntun og ábyrgð til launa og semja við félagsmenn BHM hið fyrsta.