22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Heimila götusölu í Austurstræti tímabundið

Borgarráð hefur samþykkt að veita tímabundið leyfi til götu- og torgsölu í Austurstræti eins og verið hefur undanfarin ár. Heimiluð er svokölluð markaðssala með einfalda söluaðstöðu. Samþykktin gildir til áramóta og á að nota tímann til að endurskoða reglur um götu- og torgsölu í miðborginni.

Með samþykktinni er söluaðilum gefið svigrúm til að aðlagast reglum um götu- og torgsölu frá 3. apríl, en þá var markaðssala heimiluð á svæði við Bernhöftstorfuna, á Ingólfstorgi og á bílastæði við Geirsgötu.

Á upplýsingasíðu um götu- og torgsölu segir að sala á markaðssvæðum sé heimiluð á tímanum 9 – 21 og gerð er krafa um að útlit söluaðstöðu fari vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað. Söluleyfi fyrir markaðssölu kostar 20 þúsund krónur á mánuði.