10/09/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Háskólinn fær Loftskeytastöðina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður undirrituðu í vikunni samning um að Þjóðminjasafn Íslands afhendi Háskóla Íslands gömlu Loftskeytastöðina við Brynjólfsgötu 5 til afnota.

Með gjafasamningi og afsali gaf Landssími Íslands ríkissjóði Loftskeytastöðina. Húsið var síðan afhent Þjóðminjasafni Íslands 1. mars 2005 til umráða og umsýslu og skyldi safnið frá þeim tíma sjá um rekstur og ráðstöfun þess samkvæmt nánara samkomulagi við Háskóla Íslands. Árið 2013 varð Þjóðminjasafnið háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og um þessar mundir er stefnt að undirritun samstarfssamnings milli Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins.

Við undirritun samningsins tekur Háskóli Íslands við ábyrgð hússins, viðhaldi og viðgerðum auk þess að velja húsinu viðeigandi hlutverk sem hæfir sögu þess og byggingarsögulegu gildi, s.s. á sviði skipulags-, umhverfis- og menningarfræða og tæknigreina.

Loftskeytastöðin var byggð árið 1915 og er með árinu 2015 friðuð á grundvelli laga um menningarminjar. Samkvæmt samningnum mun Háskóli Íslands sjá til þess að saga hússins á sviði fjarskipta verði þar sýnileg.

Þetta kemur fram á vef Forsætisráðuneytis.

loftskeytastodin