Í byrjun júlí hófst hálendisvakt björgunarsveita. Samhliða því ætla tæplega 100 sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að standa vaktina á mörgum viðkomustöðum ferðamanna víða um land. Má nefna auk Reykjavíkur, Selfoss, Borgarnes, Ísafjörð, Varmahlíð, Akureyri, Egilsstaði og Höfn.
Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur nú sinnt slysavörnum ferðafólks í 10 ár en þá var hálendisvakt björgunarsveita sett í gang í fyrsta sinn. Síðan þá hefur verkefnið þróast og stækkað frá ári til árs. Innan þess er vefsíðan Safetravel, upplýsingaskjáir með öryggisleiðbeiningum á fjölförnum ferðamannastöðum og í ár er félagið með aðstöðu og starfsmann í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík til að fræða og leiðbeina ferðafólki.
Spjallað verður við ökumenn og ferðalanga, þeim afhent fræðsluefni frá Neyðarlínu, Sjóvá og Safetravel og börnum boðið að fá sér sæti á fjórhjólum til að láta mömmu eða pabba smella af sér mynd. Aðalatriðið er þó að vekja athygli á nauðsyn öruggrar ferðahegðunar og sérstökum aðstæðum á hálendinu þessar vikurnar.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að aðstæður á hálendi og til fjalla eru um margt óvenjulegar og jafnvel hættulegar. Þekking á aðstæðum, reynsla og góð ferðahegðun er því enn mikilvægari þetta sumarið en oft áður.
Aðrar fréttir
Varnir Íslands æfðar á Norður-Víkingi 2024
Hækkun húsnæðisbóta samþykkt á Alþingi
Ríkisstjórnin styrkir Rauða kross Íslands í tilefni aldarafmælis