Um hádegið þann 20. september síðastliðinn fór fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll í fyrsta sinn yfir fimm milljóna múrinn innan sama árs. Það var parið Leanna Cheecin Lau og Gregory Josiah Lue sem voru hin heppnu en starfsfólk Isavia tók vel á móti þeim og fengu þau flug frá WOW air, gjafaöskju frá Fríhöfninni, blómvönd auk þess sem veitingastaðurinn Nord á Keflavíkurflugvelli tók á móti þeim með glæsilegum mat.
Parið var á leið til Baltimore með Wow Air og þaðan til Los Angeles þar sem þau eru búsett. Þau fara í eina utanlandsferð á ári og ákváðu þetta árið að fara til Íslands þar sem þau dvöldu í viku. Þau voru mjög ánægð með ferðina og skoðuðu meðal annars Jökulsárlón og Gullfoss og Geysi.
Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar fimmmilljónasti farþeginn fór úr landi skiptist farþegafjöldinn svona: 1.685 þúsund brottfararfarþegar, 1.710 komufarþegar og 1.605 skiptifarþegar. Árið 2015 náði farþegafjöldinn rétt yfir 4,8 milljónum en í ár er búist við að fjöldinn verði um 6,7 milljónir og því verður tvisvar fagnað á þessu ári, bæði nú þegar fimm milljóna múrnum er náð og svo má búast við að fjöldinn fari í fyrsta sinn yfir sex milljónir í nóvember. Fjölgun farþega hefur verið mjög hröð um Keflavíkurflugvöll, árið 2016 verður fjöldinn samkvæmt spám 37% meiri en árið 2015 og þá mun fjöldinn sem fer um flugvöllinn í ár vera rúmlega þrefalt meiri en árið 2010, þegar hann náði rétt yfir tveimur milljónum.

Aðrar fréttir
Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir
Opnað að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán
Tekjumörk hlutdeildarlána hækkuð