06/12/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Faraómaur í húsi á Landspítala

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sóttvarnalækni hefur verið tilkynnt að vart hafi orðið við faraómaur í Landspítalahúsi 13 við Hringbraut. Skordýrið hefur að líkindum borist með varningi á Landspítala. Maursins hefur orðið vart á nokkrum stöðum í byggingunni. Aðgerðir til að ráða niðurlögum hans eru þegar hafnar í samráði við meindýraeyði Reykjavíkurborgar og verður meðal annars notað sérpantað eitur til verksins.

Meðal deilda í húsi 13 eru framleiðslueldhús Landspítala, trésmíðaverkstæði og heilbrigðistæknideild. Talsverðir flutningar eru því úr húsi 13 til annarra deilda og húsa Landspítala og hefur stjórnendum því verið gert viðvart um málið og þeir beðnir um að vera á varðbergi gagnvart þessu. Mikilvægt er að ráða niðurlögum maursins þar sem hann getur verið smitberi og valdið skaða á meðferðartækjum.

Faraómaur er þekktur á Íslandi og var fyrsta staðfesta tilviksins vart 1980. Hans hefur þó ekki orðið vart á Landspítala áður. Maurinn þrífst vel í hita og raka og er aðstæðum á Landspítala þannig háttað að gera má ráð fyrir  að hann geti orðið erfiður viðureignar.

Þetta kemur fram á vef Landspítala.