22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Færeyjabiskup á Íslandi

Færeyjabiskup, Jógvan Fríðriksson, var ásamt nýkjörinni stiftsstjórn og prófastsdæmisráði færeysku þjóðkirkjunnar á ferð um Suðurland Íslands dagana 13.-16. maí s.l. Í stað þess að stilla saman strengi heima í Færeyjum við áætlun og mótun kirkjustarfsins á komandi tíð, bauð biskupinn sínu fólki að fara til Íslands, sjá hér vorið lita landslagið margbreytilegt og oft hrikalegt, hitta fyrir presta og kirkjufólk, skoða kirkjur, safnaðarheimili og kirkjuskjól. Alls voru 13 manns í föruneyti (ferðalagi á færeysku) biskupsins þar á meðal sr. Uni Næs, dómprófastur Þórshafnarkirkju og Færeyja, og einnig sr. Heri Joensen, sóknarprestur Vesturkirkjunnar í Þórshöfn. Hann er guðfræðingur frá Háskóla Íslands, kvæntur íslenskri konu og þekkir vel til íslensks umhverfis og aðstæðna.

Að morgni föstudagsins 16. maí flaug svo færeyska kirkjuliðið með flugvél færeyska flugfélagsins, Atlantic Airways, af landi brott aftur til Færeyja eftir innihaldsríka ferð og dvöl hér á Íslandi. Enda þótt dagskrá ferðarinnar hafi verið þétt gafst tími á áningarstöðum á leiðinni og í rútunni líka til þess að funda og þinga um kirkjumálin í Færeyjum jafnframt því sem rifjaðar voru upp minningar og sögur af góðum og gefandi samskiptum Færeyinga og Íslendinga fyrr og síðar sem færa þjóðir þeirra þétt og hlýtt hvor að annarri og styrkja sjálfsmynd þeirra.

SAM_9064 Heimild: kirkjan.is