22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Eldvarnir hjá leigjendum eru miklu lakari

Eldvarnir hjá leigjendum eru miklu lakari en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup.  Könnunin sýnir að 63 prósent leigjenda hafa engan eða aðeins einn reykskynjara. Hlutfallið er 26 prósent hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Capacent gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í september og október síðastliðnum. Þátttakendur voru 1.449 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfallið 58,9 prósent.

Eldvarnir eru áberandi lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði hvort sem litið er til reykskynjara, slökkvitækja eða eldvarnateppa. Nær einn af hverjum tíu leigjendum hafa engan reykskynjara en það gildir um sex prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði. Mun algengara er að fólk í eigin húsnæði hafi tvo reykskynjara eða fleiri eins og slökkviliðsmenn mæla með. Þar af segist nær helmingur vera með þrjá reykskynjara eða fleiri.

Heimild: landsbjorg.is