21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Efnt til fimm ára allsherjarátaks í hreinsun strandlengju Íslands

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, undirritaði í dag samstarfsyfirlýsingu sem ráðuneytið, Blái Herinn, Landvernd, Ocean Missions, SEEDS, Umhverfisstofnun og Veraldarvinir hafa gert með sér um hreinsun strandlengju Íslands.

Um er að ræða fimm ára átak í hreinsun strandlengju Íslands af plasti og öðrum úrgangi. Átakið byggir á aðgerð 17 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum, Úr viðjum plastsins , og er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um plast í hafi og tryggja að hreinsuðum ströndum verði haldið við eins og kostur er.

Heildarkostnaður vegna verkefnisins er áætlaður 150 m.kr., eða um 30 m.kr. á ári.

Í verkefninu felst að meta ástand strandlengju landsins með tilliti til plastmengunar, skipuleggja, undirbúa og framkvæma strandhreinsanir, sem og að flytja þann úrgang sem safnast í hverri hreinsun til endurvinnslu.

Umhverfisstofnun mun sjá um að birta upplýsingar um stöðu og árangur átaksins með aðgengilegum hætti og kynna fyrir almenningi og félagasamtökin munu vinna fræðsluefni sem hluta af vitundarvakningu um að draga úr myndun úrgangs og uppsöfnun hans í náttúrunni. Meginhluti fjármagnsins mun renna í strandhreinsunina sjálfa á vegum félagasamtakanna.

„Sjálfboðaliðar og frjáls félagasamtök hafa gegnt lykilhlutverki í hreinsun stranda hingað til og eiga miklar þakkir skyldar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með samstarfsyfirlýsingunni í dag tryggjum við að þau geti sett enn meiri kraft í það mikilvæga starf til næstu fimm ára. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að draga úr plastmengun á ströndum og í hafi, en þar hefur plast safnast upp í miklu magni og ógnar lífríki víða. Á sama tíma þurfum við að draga úr myndun úrgangs, endurvinna meira af plasti og koma í veg fyrir að það berist út í náttúruna. Á alþjóðavettvangi þurfa íslensk stjórnvöld áfram að vinna að alþjóðasamningi gegn plastmengun, en ég hef talað fyrir slíkum samningi undanfarin ár.“