Category Archives: Menning

Forngripir almennings greindir á Þjóðminjasafninu

Í dag, sunnudaginn 2. nóvember kl. 14-16 er almenningi boðið að koma með eigin gripi í greiningu til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Greiningin er ókeypis en fólk er beðið að hafa einungis 1-2 gripi meðferðis og að taka númer í afgreiðslu safnsins en aðeins 40 gestir komast að.

Hinir svokölluðu greiningardagar safnsins hafa verið mjög vel sóttir og margt fróðlegt komið í ljós. Greiningar á gripum í einkaeign eru ekki aðeins fróðlegir fyrir eigendur gripanna heldur gefst sérfræðingum safnsins einnig einstakt tækifæri til að sjá þá mörgu áhugaverðu og skemmtilegu gripi sem til eru á heimilum landsmanna. Eigendur taka að sjálfsögðu gripina með sér aftur að greiningu og myndatöku lokinni en greiningin snýst um aldur, efni og uppruna gripanna en ekki verðgildi þeirra.

Viðurkenningar veittar úr friðarsjóðnum LennonOno Grant For Peace

Veittar voru viðurkenningar úr friðarsjónum LennonOno Grant For Peace við hátíðlega athöfn í Hörpu í liðinni viku.

Hin heimsþekkta listakona og friðarsinni Yoko Ono afhenti verðlaunin en þau eru veitt annað hvert ár til einstaklinga eða félagasamtaka sem hafa stuðlað að friði í starfi sínu.

LennonOno-friðarsjóðurinn var settur á fót árið 2002 til þess að heiðra framlag John Lennons heitins til heimsfriðar og mannréttindabaráttu. Að þessu sinni veitti Yoko Ono fimm einstaklingum viðurkenningu, en þau hafa sýnt hugrekki og helgað sig friði, sannleika og mannréttindum.

LennonOno Grant For Peace 2014:

JANN WENNER – Stofnandi tímaritsins ROLLING STONE MAGAZINE  og stjórnarformaður Wenner Media.

JEREMY GILLEY – Stofnandi samtakanna Peace One Day.

DOREEN REMEN AND YVONNE FORCE VILLAREAL/ART PRODUCTION FUND – Verkefni sem miðar að því að auka listvitund almennings með því að færa nútímalist í opinber rými.

JÓN GNARR –  Stjórnmálamaður og fyrrverandi borgartjóri Reykjavíkur.

Hver og einn hlaut styrk úr sjóðnum sem renna á til góðgerðarmála. Jón Gnarr ánafnaði Kvennaathvarfinu sínum styrk.

img_5709

Listasmiðja fyrir börn í Borgarbókasafni

Sunnudaginn 14. september kl. 15-16 verður listasmiðja fyrir börn í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15. Smiðjan er sett upp í tengslum við afmælissýningu félagsins Íslensk grafík sem nú stendur yfir í safninu. Börn og fjölskyldur geta komið og þrykkt undir leiðsögn tveggja myndlistarmanna, þeirra Elísabetar Stefánsdóttur og Gunnhildar Þórðardóttur. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Listasmidja

Stelpumenning – ljósmyndasýning

Lauren Greenfield
STELPUMENNING
13. september 2014 – 11. janúar 2015

Stelpumenning  er ljósmyndasýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og varpar ljósi á hverfandi skil á milli raunveruleika stúlkna og gildishlaðinnar birtingarmyndar kvenna í bandarískri dægurmenningu. Sýningin stendur frá 13. september til 11. janúar 2015.

Myndaröðin er afrakstur fimm ára rannsóknar Lauren Greenfield á lífi stúlkna og kvenna víðsvegar um Bandaríkin. Portrettmyndir og viðtöl Greenfield varpa ljósi á upplifanir og athafnir kvenna innan samfélags sem krefst ákveðins útlits, hegðunar og frammistöðu. Í sýningunni mætast hversdagslegar og öfgakenndar aðstæður stelpumenningar: samkeppni og útlitsdýrkun unglingsstúlkna og barátta ungrar konu með lystarstol; barn í búningaleik og fatafella í skólastúlkubúningi.

Lauren Greenfield hefur unnið við heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð frá 1991. Greenfield bregður birtu kynjahlutverk, líf ungmenna og neyslumenningu í myndum sínum. Meðal myndaraða Greenfield má nefna Fast Forward (1997), Girl Culture (2002) og THIN (2006) og heimildarmyndirnar Kids + Money (2008), Beauty CULTure (2011) og Queen of Versaille (2012). Heimilda- og fréttaljósmyndir Greenfield birtast reglulega í tímaritum á boð við The New York Times Magazine, National Geographic og Harper‘s Bazaar.

Heimildarmyndirnar Queen of Versaille og Kids & Money eftir Lauren Greenfield munu vera sýndar á meðan á sýningunni stendur.

Sýningin er skipulögð af Evergreen Pictures

Girl Culture

Ný samsýning opnar á Ásmundasafni

Samsýningin, A posterori: Hús, höggmynd, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni, laugardaginn 13. september kl. 16. Listamennirnir Birgir Snæbjörn Birgisson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Kathy Clark, Kristín Reynisdóttir, Stefán Jónsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir sýna þar verk sín ásamt verkum Ásmundar Sveinssonar.

Á sýningunni eru  listaverk með nýstárlegar tilvísanir í hinar ýmsu byggingar og hús. Verkin eru ýmist gerð út frá raunverulegri eða ímyndaðri byggingarlist og endurspegla oft liðna tíð. Sjálft Ásmundarsafn er hluti af sýningunni bæði sem hús og höggmynd. Ásmundur hannaði húsið með listaverkin sín í huga og nýtti sem vinnustofu og sýningarrými. Byggingarnar bjóða jafnframt upp á óhefðbundinn vettvang fyrir listsköpun annarra listamanna. Ásmundur byggði húsið á sama tíma og hann vann margar af þeim höggmyndum sem nú standa í garðinum. Á sýningunni verða sett upp minni útgáfur af þessum höggmyndum sem spila bæði saman við stærri verkin og við verk annarra listamanna á sýningunni. Sýningarstjóri er Yean Fee Quay.

Heimild: http://www.listasafnreykjavikur.is

Lína langsokkur frumsýnd í Borgarleikhúsinu

Laugardaginn 13. september kl. 14.00 frumsýnir Borgarleikhúsið Línu Langsokk í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og nafna hennar Ágústa Eva Erlendsdóttir fer með hlutverk hinar einu sönnu Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu Krúsimundu Efraimsdóttur Langsokks.  Leikmyndin er í höndum Ilmar Stefánsdóttur og María Th. Ólafsdóttir sér um búninga.

Lína langsokkur, Herra Níels api og hesturinn eru aftur mætt til leiks ásamt vinum sínum Tomma og Önnu. Leiðindaskarfurinn frú Prússólín er staðráðin í að koma Línu fyrir á vandræðaheimili þannig að Lína þarf að hafa sig alla við vilji hún búa áfram á Sjónarhóli. Lína langsokkur er hjartahlýr og réttsýnn prakkari sem allar kynslóðir barna verða að kynnast. Ágústa Eva fer á kostum sem Lína í þessu bráðfyndna og skemmtilega leikriti sem sýnir okkur að við eigum alltaf að vera við sjálf og ekkert annað.

Astrid Lindgren höfundur Línu langsokks er einn ástsælasti barnabókahöfundur allra tíma. Hún fæddist 14. Nóvember 1907 í Smálöndum í Svíþjóð og lést í Stokkhólmi 28. janúar 2002, 94 ára að aldri. Hún skrifaði samtals 40 barnabækur og fjölda myndabóka.

lina

Silfur Íslands á Þjóðminjasafninu

Sunnudaginn 14. september kl. 14 verður ókeypis leiðsögn um sýninguna Silfur Íslands á Þjóðminjasafninu. Á sýningunni eru yfir 2000 silfurgripir en leitast var við að beina sjónum að hinum mismunandi aðferðum við silfursmíð en um leið setja búningasilfur, borðbúnað ,silfurskildi og kaleika fram á nýstárlegan hátt. Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir.

Listrýnir Morgunblaðsins skrifaði m.a. um sýninguna:

…höfða til ímyndunarafls sýningargesta og gera þeim kleift að  mynda tengsl við fortíðina og hina gömlu gripi á lifandi, aðgengilegan og myndrænan hátt…Með uppsetningunni  er  listrænt gildi gripanna undirstrikað og fegurðarþráin sem að baki býr.

Í Listaukanum á Rás1 var m.a. sagt:

Skyldusýning fyrir alla Íslendinga…sýning sem færir munasýningar upp á annað stig…nýstárleg nálgun…maður sér gripi í öðru ljósi.

Jazzhátíð í Reykjavík

Jazzhátíð Reykjavíkur hófst 14. ágúst og stendur til 20. ágúst. Hún er nú haldin í 25. sinn og er með veglegra móti í ár til að fagna tímamótunum. Fjölmargir íslenskir og erlendir tónlistamenn taka þátt í hátíðinni í ár. Allir viðburðir fara fram í Hörpu. Jazzhátíð hófst með skrúðgöngu niður Laugaveginn að Hörpu þar sem setningarathöfnin fór formlega fram.

Alla dagskránna má sjá hér.

331x157_upplysingaskjar1

Gleðigangan kl. 14 í dag

​Í gleðigöngu Hinsegin daga staðfestir hinsegin fólk tilveru sína, sýnileika og gleði. Þar sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, transfólk og intersex fólk í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum. Gleðigangan er hápunktur og stolt hátíðarinnar sem er nú haldin í  sextánda sinn en hún hófst 5. ágúst s.l. og lýkur 10. ágúst.

Gengið er frá Vatnsmýrarvegi að Arnarhóli í dag, laugardaginn 9. ágúst 2014 kl. 14:00. Regnbogaútihátíð verður haldin á Arnarhóli eftir göngu. Pride ball verður svo haldið í Rúbín í Öskjuhlíð í kvöld.

ad719b_efc1a305b29d4604aa223cb9f3720ebb

Skólahljómsveit frá Ósló í Húsdýragarðinum

Voksen skoles musikkorps er skólahljómsveit frá Ósló. Þau munu halda tónleika m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sunnudaginn 22. júní kl. 14:00.

Hljómsveitin samanstendur af 40 blásara- og slagverksnemendum á grunn- og framhaldsskólastigi á aldursbilinu 13 til 19 ára.
Á þjóðhátíðardegi Norðmanna þann 17. maí ár hvert fara allar skólalúðrasveitir Noregs í skipulagðar skrúðgöngur og færa tónlist sína inn á götur og stræti allra bæja og borga. Reykvíkingum gefst kostur á að kynnast þessari hefð sunnudaginn 22. júní en þá mun hljómsveitin vera með skrúðgöngu á undan tónleikunum í Fjölskyldugarðinum klukkan 14 og síðan aftur á Laugaveginum klukkan 17.
Einnig verða þau með tónleika á Þingvöllum þann 23. júní.

Menningar kvöldgöngur

Borgarbókasafn, Borgarsögusafn og Listasafn Reykjavíkur bjóða upp á kvöldgöngur með leiðsögn alla fimmtudaga kl. 20 frá og með 19. júní. Lagt er upp frá Grófinni, milli Tryggvagötu 15 og 17, nema annað sé tekið fram.
Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis.

19. JÚNÍ – KVENNASÖGUSLÓÐIR Í KVOSINNI 
Í boði allra safnanna
Gengið á slóðir kvenna í tilefni af kvennadeginum 19. júní. Farið verður eftir bókinni Kvennasöguslóðir í Kvosinni sem verður endurútgefin í tilefni dagsins. Lagt er upp frá nýjum höggmyndagarði til minningar um formæður íslenskrar höggmyndlistar í suðvesturhorni Hljómskálagarðsins.

26. JÚNÍ – FÆÐUHRINGURINN
Borgarsögusafn Reykjavíkur
Matarsaga Reykjavíkur er atvinnusaga borgarinnar og saga byggðaþróunar. Gengið verður um gamla matjurtagarða, stakkstæði, blóðvelli, veitingastaði og verslanir liðins tíma. Gönguna leiða Laufey Stein- grímsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir og Sólveig Ólafsdóttir. Lagt er upp frá Bæjarfógetagarði.

3. JÚLÍ – REYKJAVÍK SAFARÍ
Í boði allra safnanna
Fjölmenningarleg ganga þar sem menningarlífið í miðborginni er kynnt á íslensku (fyrir byrjendur), ensku, pólsku, víetnömsku, arabísku og frönsku.  Hvar eru söfnin og aðrir skemmtilegir staðir? Hvað er fyrir börn, fjölskyldur og fullorðna? Göngunni lýkur í Hafnarhúsinu með skemmtun og hressingu.

10. JÚLÍ – LÍFIÐ GENGUR SINN GANG
Borgarbókasafn Reykjavíkur
Ljóðaganga um slóðir hversdagsleikans í miðborginni. Farið verður eftir Ljóðakorti Reykjavíkur sem unnið er af Borgarbókasafni. Einar Björn Magnússon og Björn Unnar Valsson leiða gönguna.

17. JÚLÍ – NÆSTA STOPPISTÖÐ: HLEMMUR  
Borgarsögusafn Reykjavíkur
Gamla gasstöðin, halastjarna Halleys, fallegar síðfúnkisbyggingar, félagslegt athvarf, Norðurpóllinn, bílasölur og klyfjahesturinn eru meðal þess sem Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi rifjar upp í fjölbreyttri sögu Hlemmsvæðisins. Hann ræðir einnig um þá uppbyggingu sem stendur fyrir dyrum. Lagt er upp austan við skiptistöð Strætós.

24. JÚLÍ – MEISTARAHENDUR
Listasafn Reykjavíkur
Gengið um höggmyndagarð Ásmundarsafns, en hann prýða nær þrjátíu höggmyndir Ásmundar Sveinssonar. Kvöldopnun á safninu á meðan gangan fer fram. Lagt er upp frá Ásmundarsafni við Sigtún.

31. JÚLÍ – ÚR ÓÐNI Í ÖRFIRISEY 
Borgarsögusafn Reykjavíkur
Gengið um Vesturhöfnina í Reykjavík og saga hennar rakin. Gangan hefst við Sjóminjasafnið í varðskipinu Óðni og fer síðan framhjá verbúða-bryggjunni, að Þúfunni og Norðurgarði.

7. ÁGÚST – MARARÞARABORG 
Borgarbókasafn Reykjavíkur
Höfnin og hafið koma víða við í íslenskum bókmenntum og gefst gestum færi á að smakka á hinum ýmsu afurðum sjávarins í meðförum rithöfunda. Úlfhildur Dagsdóttir og Einar Ólafsson leiða göngu um Reykjavíkurhöfn.

14. ÁGÚST – VERKAMANNABÚSTAÐIR VIÐ HRINGBRAUT
Borgarsögusafn Reykjavíkur
Kíkt í heimsókn í Verkamannabústaðina við Hringbraut og saga þeirra rakin í máli og myndum undir leiðsögn sérfræðinga.

21. ÁGÚST – NÝ ÚTILISTAVERK
Listasafn Reykjavíkur
Gengið um miðborgina þar sem skoðuð verða
nýlega uppsett útilistaverk og athugað hvernig þau passa inn í borgarmyndina. Heiðar Kári Rannversson listfræðingur leiðir gönguna.

Sýningin Meistarahendur opnar í Ásmundarsafni

Sýningin Meistarahendur verður opnuð í Ásmundarsafni laugardaginn 10. maí kl. 16. Þar gefur að líta verk sem spanna feril Ásmundar Sveinssonar og sýna vel þróunina sem varð á sýn hans í gegnum tíðina.

Meðal verka á sýningunni er sveinstykki Ásmundar, útskorinn stóll frá námsárum hans 1915-1919 hjá Ríkarði Jónssyni og höggmyndir sem hann gerði sem nemandi við sænska ríkisakademíið. Síðar komu stórbrotin meistaraverk sem lofsyngja íslenska alþýðu, sagnir og náttúru og loks er á sýningunni fjöldi abstraktverka sem listamaðurinn vann á síðustu áratugum ævi sinnar.

Ásmundur Sveinsson var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og sótti innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru, bókmenntir og til þjóðarinnar. Efnismikil, kröftug og stundum ógnandi verk hans eru lík þeim kynjamyndum sem oft má lesa úr íslenskri náttúru.  En þó myndefni Ásmundar hafi fyrst og fremst verið af þjóðlegum toga, tileinkaði hann sér engu að síður meginstrauma alþjóðlegrar listsköpunar eins og ekkert stæði honum nær og gaf henni um leið íslenskt yfirbragð – íslenskt inntak.

as-410-stor_1

Heimild: Reykjavik.is

 

Barnamenningarhátíð

Börn á öllu Íslandi eru boðin velkomin á Barnamenningarhátíð í Reykjavík dagana 29. apríl til 4. maí. Frítt er á alla viðburði Barnamenningarhátíðar og barnafjölskyldur um allt land hvattar til að koma og njóta viðburðanna.

Barnamenningarhátíð verður nú haldin í fjórða sinn og viðburðir verða víðsvegar um Reykjavík. Markmið hátíðarinnar er að efla menningarstarf barna og ungmenna í borginni. Gæði, fjölbreytni, jafnræði og gott aðgengi eru höfð að leiðarljósi við skipulagningu hátíðarinnar sem rúmar allar listgreinar og er byggð upp á fjölbreyttum viðburðum sem börn og fullorðnir í fylgd með börnum, geta sótt sér að kostnaðarlausu.

Barnamenningarhátíð í Reykjavík kveikir gleði, stuðlar að samveru og skapar góðar minningar. Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.barnamenningarhatid.is

Félagsmiðstöðvar úr Reykjavík sterkar á Samfési

SamFestingurinn er ball og söngvakeppni sem Samfés heldur árlega fyrir unglinga en sú keppni var haldin um síðustu helgi í Laugardalshöll.  Um 4,500 unglingar úr félagsmiðstöðvum alls staðar af landinu voru mættir til að skemmta sér. Á föstudagskvöldið var stórt ball þar sem var mikið dansað, spjallað og hlustað á flotta tónlist þar sem Páll Óskar endaði kvöldið með stæl.

Alls tóku 30 atriði þátt í Söngkeppninni Samfés úr félagsmiðstöðvum víðs vegar af landinu. Þar stóðu unglingar úr Reykjavík sig vel og voru í þremur  efstu sætunum.

Þjóðbúningadagur á Þjóðminjasafni Íslands

Gestir eru hvattir til að mæta á þjóðbúningi á Þjóðminjasafn Íslands til að sýna sig og sjá aðra en gestir í þjóðbúningi fá ókeypis aðgang þann 9. mars næstkomandi.  Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem eiga búning að nota hann og jafnframt fyrir alla sem eru áhugasamir um íslenska þjóðbúninga að koma og sjá fjölbreytni þeirra. Mögulegt verður að fá aðstoð við uppsetningu höfuðbúnaðs á safninu.

Að þjóðbúningadeginum standa Þjóðminjasafn Íslands, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Þjóðbúningaráð og Þjóðdansafélagið.

Thjodbuningadagur

Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina

Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina í ár. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðarstofnunnar. Það var Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, sem afhenti verðlaunin að vanda í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði.

Einnig voru Skrímslasetrið á Bíldudal og Gamla verksmiðjan á Hjalteyri tilnefnd til Eyrarrósarinnar.

Áhöfnin á Húna er samstarfsverkefni tónlistarmanna og Hollvina Húna II.  Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli í sumar þegar Húni II sigldi hringinn í kringum landið. Haldnir voru 16 tónleikar í sjávarbyggðum landsins.

Edduverðlaunin 2014 afhent

Edduverðlaunahátíðin fór fram í Silfurbergi í Hörpu í kvöld, laugardaginn 22. febrúar 2014. Allar tilnefningar má lesa hér.

Sigurvegarar kvöldsins voru:

 • Heimildarmynd ársins: Hvellur
 • Stuttmynd ársins: Hvalfjörður
 • Handrit ársins: Benedikt Erlingsson fyrir Hross í oss
 • Menningar – og lífsstílsþáttur ársins: Djöflaeyjan
 • Skemmtiþáttur ársins: Orðbragð
 • Besti leikari í aukahlutverki: Ingvar E. Sigurðsson fyrir Málmhaus
 • Besta leikkona í aukahlutverki: Halldóra Geirharðsdóttir fyrir Málmhaus
 • Barnaefni ársins: Stundin okkar
 • Frétta- eða viðtalsþáttur ársins: Kastljós
 • Sjónvarpsmaður ársins: Bogi Ágústsson
 • Leikari ársins í aukahlutverki: Ingvar E. Sigurðsson fyrir Hross í oss
 • Leikkona ársins í aukahlutverki: Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir fyrir Málmhaus
 • Gervi ársins: Steinunn Þórðardóttir fyrir Málmhaus
 • Búningar ársins: Helga Rós Hannam fyrir Málmhaus
 • Leikmynd ársins: Gunnar Pálsson fyrir Fólkið í blokkinni
 • Heiðursverðlaun: Sigríður Margrét Vigfúsdóttir
 • Tónlist ársins: Pétur Ben fyrir Málmhaus
 • Hljóð ársins: Huldar Freyr Arnarson fyrir Málmhaus
 • Besti kvikmyndafrasi Íslandssögunnar: Inn, út, inn, inn, út úr Með allt á hreinu
 • Leikstjóri ársins: Benedikt Erlingsson fyrir Hross í oss
 • Brellur ársins: Jörundur Rafn Arnarson fyrir Hross í oss
 • Klipping ársins: Valdís Óskarsdóttir fyrir Málmhaus
 • Kvikmyndataka ársins: Bergsteinn Björgúlfsson fyrir Hross í oss
 • Leikið sjónvarpsefni ársins: Ástríður 2
 • Kvikmynd ársins: Hross í oss

2 fyrir 1 á Þjóðminjasafninu á sunnudag

Sunnudaginn 16. febrúar er  tveir fyrir einn tilboð á aðgangseyri inn á Þjóðminjasafn Íslands. Að venju er ókeypis fyrir börn yngri en 18 ára. Opið er á frá þriðjudögum til sunnudaga frá kl. 11-17.  Þriðjudaginn 18. febrúar kl. 12 mun Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður og listrænn stjórnandi sýningarinnar Silfur Íslands halda fyrirlestur í Þjóðminjasafninu.

Auk grunnsýningar safnsins standa sérsýningarnar Silfur Íslands í Bogasal, Silfursmiður í hjáverkum í Horni, Betur sjá augu-Ljósmyndun íslenskra kvenna 1872-2013 í Myndasal og Viður við og við á Torgi.

Þá er hægt að kaupa árskort að Þjóðminjasafnsins á  kr. 4500 og veitir aðgang að safninu og öllum viðburðum þess í tólf mánuði.

Þjóðminjasafnið varð 150 ára þann 24. febrúar 2013.

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent af forseta Íslands á heimili hans, fimmtudaginn 30. janúar síðastliðinn.

Í fyrsta skipti voru veitt verðlaun í flokki barna- og unglingabókmennta, til auka við hina reglubundnu flokka fagurbókmennta og fræðibóka og bóka almenns efnis.

Sjón fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Mánasteinn: drengurinn sem var aldrei til.

Guðbjörg Kristjánsdóttir fékk verðlaunin í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis fyrir Íslensku teiknibókina.

Og Andri Snær Magnason fékk verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka fyrir Tímakistuna.

Aftur hægt að sigla til Viðeyjar

Viðey opnar á ný eftir fram­kvæmdir á bryggj­unni í janúar. Það er gaman að fara með fjöl­skyldu og vinum og ganga eftir skemmti­legum stígum í Viðey, virða fyrir sér nátt­úr­una, hafið, list­ina, fjalla­sýn­ina og njóta kyrrð­ar­innar í eyj­unni. Viðey er úti­vista­svæði í eigu Reykvíkinga og allir eru vel­komnir út í eyju.

Í Viðeyjarstofu er rekið kaffi­hús en þangað inn er dásam­legt að setj­ast eftir góðan göngu­túr. Vöfflur og kakó í Stofunni er tíma­laus klassík.

Siglt er allar helgar, laug­ar­daga og sunnu­daga, frá Skarfabakka kl. 13:15, 14:15 og 15:15 og frá Viðey að Skarfabakka kl. 13:30, 14:30, 15:30 og 16:30.

Einnig er í boði sérstakar Friðarsúluferðir út í Viðey.

 • kl. 20:00 frá 9. októ­ber til 8. des­em­ber (á hverju kvöldi).
 • kl. 18:00 dag­ana 21., 22., 27., 28. og 30. des­em­ber.
 • kl. 16:00 gaml­árs­dag 31. des­em­ber.
 • kl. 20:00 18. febrúar.
 • kl. 21:00 dag­ana 20. til 26. mars (á hverju kvöldi).

Brottfarir frá Gömlu höfn­inni í Reykjavík.

Meira á vefinum, www.videy.com

Dagskrá Ljósmyndasafns Reykjavíkur á safnanótt

Ljósmyndasafn Reykjavíkur verður með sérstaka dagskrá á safnanótt, föstudaginn, 7. febrúar og er eftirfarin dagskrá dagana í kring á hinum ýmsu stöðum:

Fimmtudagur 6. febrúar
Kl. 17:00 The Coming of Age: Cindy Sherman, Feminism and Art History. Fyrirlestur Abigail Solomon-Godeau list- og ljósmyndafræðingsins í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Kl. 18:30 Nordic Now bókakynning og ljósmyndasýningu í Máli og Menningu, Laugavegi 18. Finnska sendiráðið býður gestum upp á léttar veitingar.
Föstudagur 7. febrúar (Safnanótt)

Kl. 9:00-16:00 Portfolio Review í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15. Skráning á photomuseum@reykjavik.is

Kl. 18:00 Opnun Innra myrkurs í SÍM-húsinu, Hafnarstræti 16. Samsýning ljósmyndaranna Bjargey Ólafsdóttir, Friðgeir Helgason, Inga Sólveig Friðjónsdóttir, Sigurður Mar Halldórsson, Valdís Thor, Jóna Þorvaldsdóttir, Þórdís Erla Ágústsdóttir.

Kl. 18:30 Opnun ljósmyndasýningarinnar Var eftir Kristínu Hauksdóttir í Artóteki Borgarbókasafns Tryggvagötu 15.

Kl. 20:30 Betur sjá augu, Ljósmyndun Íslenskra kvenna 1872-2013, leiðsögn með Katrínu Elvarsdóttir um sýninguna í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Grófarhúsi Tryggvagötu 15.
Laugardagur 8. febrúar

Kl. 9-13:45 Portfolio Review í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15. Skráning á photomuseum@reykjavik.is

Kl. 19:30 Opnun sýningar Einars Fals Ingólfssonar Reykjanesbrautin hjá Gallerí Listamönnum, Skúlagötu 32.

Kl. 20:00 Dagskrá á Kex Hostel í Gym og Tonic salnum. Nordic Now sýning á verkum norræna ljósmyndara og verkum eftir meðlimi í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara. Kex Hostel, Skúlagötu 28.