Category Archives: 101 Reykjavík

Heimila götusölu í Austurstræti tímabundið

Borgarráð hefur samþykkt að veita tímabundið leyfi til götu- og torgsölu í Austurstræti eins og verið hefur undanfarin ár. Heimiluð er svokölluð markaðssala með einfalda söluaðstöðu. Samþykktin gildir til áramóta og á að nota tímann til að endurskoða reglur um götu- og torgsölu í miðborginni.

Með samþykktinni er söluaðilum gefið svigrúm til að aðlagast reglum um götu- og torgsölu frá 3. apríl, en þá var markaðssala heimiluð á svæði við Bernhöftstorfuna, á Ingólfstorgi og á bílastæði við Geirsgötu.

Á upplýsingasíðu um götu- og torgsölu segir að sala á markaðssvæðum sé heimiluð á tímanum 9 – 21 og gerð er krafa um að útlit söluaðstöðu fari vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað. Söluleyfi fyrir markaðssölu kostar 20 þúsund krónur á mánuði.

Viðhöfn við opnun á Hverfisgötu

Stutt dagskrá verður í miðbænum vegna opnunar á Hverfisgötunni eftir endurgerð á morgun, laugardaginn 1. mars. Borgarstjórinn, Jón Gnarr, mun opna götuna formlega og boðið verður upp á veitingar frá Austur Indíafélaginu.

Dagskrá opnunarhátíðar Hverfisgötu:

kl. 14:00  Skrúðganga frá Bíó Paradís – gengið að Frakkastíg, þaðan að Klapparstíg og endað við Bíó Paradís.

  • kl. 14:15 Hátíðarræða – sungin og leikin: Eiríkur Fjalar
  • kl. 14:25  Fjöldasöngur gesta með Lúðraveit Samma
  • kl. 14:30 Jón Gnarr : Opnunarávarp
  • kl. 14:30   Dregið úr potti Lukku-hjólsins. Dagur Eggertsson dregur úr og afhendir vegleg verðlaun
  • kl. 14:40  Óður til Hverfisgötu. Þjóðþekkt miðborgarrotta flytur frumsaminn brag
  • kl. 14:45  Lúðraveit Samma blæs til leiks
  • kl. 15:00  Fornbílaakstur gleður augu og eyru
  • kl. 15:10 Plötusnúðarnir Taj Mahal & Abdullah RAJ hræra saman indverskri Bhangra tónlist og íslenskum þjóðstefjum
  • kl. 15:30 – 19:00  Reykjavíkurmyndahátíð Bíó Paradísar: 101 Reykjavík, Rokk í Reykjavík,  Reykjavík – Rotterdam, Sódóma Reykjavík

Endurgerð Hverfisgötunnar

Hverfisgatan í miðbæ Reykjavíkur var opnuð aftur í gær á ný fyrir bílaumferð, en áfram verður unnið við lokafrágang götunnar alla næstu viku.  Markmið framkvæmdanna er að fegra götumyndina og verður útlit götunnar með svipuðu sniði og fyrir neðan Vitastíg.

Umferðartálmar voru fjarlægðir, en vinnusvæðamerkingar verða þó áfram uppi og hraðatakmörk eru 20 km/klst.

Í næsta áfanga verður Hverfisgatan frá Vitasstíg að Snorrabraut endurgerð.  Allt yfirborð götu og gangstétta verður endurnýjað, ásamt þeim lögnum sem komnar eru á tíma. Snjóbræðsla verður sett í upphækkuð gatnamót og göngu- og hjólaleiðir.

Búið er að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir í bréfi til íbúa.  Áætlað er að hefja vinnu í mars og að verklok verði í ágúst. Verktími tekur mið af reynslu framkvæmda við þann kafla sem nú er verið að ljúka við milli Klapparstígs og Vitastígs.

img_0018 img_0012 img_0001 img_0027

Texti og myndir: www.reykjavik.is