22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Björgunarsveitir björguðu vélarvana skemmtibátum

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út í gær vegna tveggja vélarvana skemmtibáta á sjónum rétt utan við Hrafnistu í Hafnarfirði. Var kallað út á fyrsta forgangi þar sem bátana rak nokkuð hratt í átt að landi.

Annar báturinn varð vélarvana og fékk hinn til að aðstoða sig en ekki vildi betur til en að sá fékk í skrúfuna. Þegar bátarnir áttu einungis um 40 m eftir upp í fjöru hrökk annar í gang og náði að sigla með hinn í togi lengra frá landi. Í þá mund kom björgunarbátur á staðinn og fylgdi hann bátunum til hafnar í Hafnarfirði.