21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Aukið samstarf Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands

Landspítali og Krabbameinsfélag Íslands hafa gert með sér samning sem felur í sér aukið samstarf þeirra á milli á sviði hefðbundinnar krabbameinsleitar í brjóstum og sérhæfðrar þjónustu við konur með brjóstakrabbamein. Markmiðið er að auka samhæfingu og bæta þjónustu.

Leit að krabbameinum í brjóstum kvenna er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða reglubundna hópleit þar sem einkennalausum konum er boðin þátttaka samkvæmt ákveðnum leiðbeiningum. Hins vegar er klínísk brjóstaskoðun sem fram fer hjá konum ef niðurstaða hópleitar bendir til þess að nánari skoðunar er þörf eða ef konur hafa sjálfar fundið einkenni frá brjóstum sem þarfnast nánari skoðunar og greiningar. Krabbameinsfélagið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar þjónustu, hvort sem um er að ræða hópleit eða klíníska brjóstaskoðun. Með samningnum sem undirritaður hefur verið felst hins vegar ákvörðun um þá stefnu að ábyrgð á klínískri skoðun verði færð á hendi Landspítalans. Tveir röntgenlæknar Landspítalans annast klíníska skoðun og er nýmæli að annar þeirra verður yfirlæknir leitarstarfsins. Krabbameinsfélagið leggur til annað starfsfólk, húsnæði, aðstöðu og nauðsynlegan búnað.

Krabbameinsleit, hvort sem er hópleit eða klínískar brjóstaskoðanir, munu áfram fara fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og þjónusta sjúkrahússins á Akureyri verður einnig óbreytt.

KrabbsamningurHeimild: velferdarraduneyti.is