Árið 2020 var risastórt í íbúðauppbyggingu í Reykjavík en þá hófst bygging 1.174 íbúða í borginni samkvæmt tölum byggingarfulltrúa. Í samanburði hófst bygging 1.417 íbúða á árinu 2018 sem var metár í sögu íbúðauppbyggingar í borginni.
Í fyrra hófst byggin fjölmargra íbúða víða í borginni, m.a. á Kirkjusandi, Vogabyggð, Gufunesi, Leirtjörn í Úlfarsárdal, Suður-Mjódd og Bryggjuhverfi. Talsverður hluti af því sem verið er að byggja er á vegum Bjargs íbúðafélags sem byggir leiguíbúðir fyrir fólk með lægri tekjur og byggingarfélagið Búseta. Dreifing íbúðanna sýnir að verið er að byggja íbúðir víðs vegar í borginni en ekki eingöngu á svokölluðum þéttingarreitum. Hluta þeirrar íbúðauppbyggingar sem fyrirhuguð er í Miðborginni er lokið þótt enn eigi eftir að klára uppbyggingu við Skúlagötu og á reit við Vatnstíg á milli Laugavegs og Hverfisgötu. Á síðustu árum hafa t.a.m. risið um 500 íbúðir á reitum við Hverfisgötu.
Í ár er þegar hafin uppbygging á tveimur stórum reitum í Vesturbæ Reykjavíkur, m.a. á svokölluðum Byko-reit sem afmarkast af Hringbraut, Ánanaustum og Sólvallagötu og Héðinsreit sem afmarkast af Ánanaustum, Vesturgötu og Mýrargötu. Á Bykoreitnum munu rísa 84 íbúðir og á Héðinsreit 330 íbúðir.
Íbúðauppbygging mun hefjast mun víðar í borginni á þessu ári en samþykkt deiliskipulag fyrir 4.898 íbúðir liggur þegar fyrir.
Aðrar fréttir
65 ára afmælishátíð Sjálfsbjargar
Sæbraut lokað vegna kvikmyndatöku
Nýtt björgunarskip Landsbjargar komið til landsins með Brúarfossi