Tilkynning frá heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítalans:
Eins og flestum er eflaust kunnugt um varð alvarleg bilun í tæknilegum innviðum spítalans fimmtudaginn 20. nóvember 2014. Aðal diskastæður spítalans urðu óstarfhæfar sem olli því að flest hugbúnaðarkerfi spítalans urðu óvirk. Diskastæðurnar, sem eru tvöfaldar (ein í vélasal í Fossvogi og önnur í vélasal við Hringbraut), anna illa því álagi sem er á tölvukerfunum. Þegar vandamál kom upp í annarri þeirra þennan dag réð hin diskastæðan ekki við álagið og þær urðu óstarfhæfar. Tæknileg uppbygging er þannig að flest gögn í hugbúnaðarkerfum spítalans eru geymd á þessum diskastæðum og þegar þær verða óvirkar verða kerfin óstarfhæf. Vitað var að þessar diskastæður þyrfti að endurnýja fljótlega en ákveðnar rekstrartruflanir síðustu mánaða má rekja til þeirra. Vonast hafði verið til þess að þær myndu duga þar til fjármögnun fyrir útskiptingu þeirra væri tryggð.
Þetta er alvarlegasta tölvubilun sem spítalinn hefur lent í a.m.k. síðustu 8 ár og hafði hún mikil áhrif á alla starfsemi spítalans. Bilunin kom upp kl. 15:50 og diskastæðan var komin í gagnið aftur kl.16:58. Þá tók um 30 mínútur að koma helstu hugbúnaðarkerfum upp en nokkur kerfi komust ekki upp fyrr en allt að 2-3 tímum síðar. Viðbragðsáætlun HUT var virkjuð og það var alfarið unnið eftir henni varðandi samskipti við notendur, greiningu og viðgerð. Ný viðbragðsáætlun fyrir klínískar deildir, sem kynnt var í vor, var núna notuð í fyrsta sinn. Viðbragðsáætlunin reyndist vel eftir því sem vitað er.
Þessi bilun í tölvukerfum spítalans verður greind ítarlega og farið vel yfir áhrifin sem hún olli samhliða því að greina hvernig lágmarka megi áhættuna á að svona bilanir verði og hvað þurfi að gera til að afleiðingarnar verði sem minnstar.
Heimild: landspitali.is
Aðrar fréttir
65 ára afmælishátíð Sjálfsbjargar
Sæbraut lokað vegna kvikmyndatöku
Nýtt björgunarskip Landsbjargar komið til landsins með Brúarfossi