Reykjavíkurborg óskar eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að taka almenningssvæði í borginni í fóstur og gæða þau meira lífi. Þetta er hluti af verkefninu Torg í biðstöðu sem snýst um að endurskilgreina svæði í borginni sem ekki eru fastmótuð til framtíðar.
Í ár er einkum leitað eftir verkefnum sem lífga svæði við með auknu mannlífi, en það gætu verið markaðir, leikir eða annað sem dregur fleiri borgarbúa út undir bert loft. Hóparnir sem taka að sér verkefni finna tímabundnar og skemmtilegar lausnir á sínu svæði og kanna möguleika þeirra með tilraunum.
Biðsvæðunum er úthlutað til hópa og einstaklinga. Verkefnin eiga að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin til framtíðar. Þau standa að jafnaði yfir frá maí til september ár hvert og er þeim ætlað að skapa skemmtilegri torg í lifandi borg.
Eftirfarandi eru dæmi um svæði sem hægt er að sækja um, en einnig er frjálst að sækja um önnur svæði:
- Bernhöftstorfa.
- Fógetagarður.
- Óðinstorg.
- Vitatorg.
- Rými við og/eða á göngugötum í miðborginni.
Umsækjendur eru einnig hvattir til þess að sækja um önnur svæði sem ekki eru á listanum eða minni tímabundin verkefni. Í sumum tilvikum verður hópum falið að vinna með önnur torg en þeir sóttu um.
Hægt er að sækja um til 7. apríl 2016 og valið verður úr umsækjendum fyrir 18. apríl. Gert er ráð fyrir því að verkefnin verði tilbúin fyrir miðjan maí. Umsóknir skal merkja „umsókn um biðsvæði“ og senda á Hildi Gunnlaugsdóttur, netfang hildurg@reykjavik.is.
Nánari upplýsingar um verkefnið Torg í biðstöðu má finna á vefsíðunni reykjavik.is/bidsvaedi.
Aðrar fréttir
65 ára afmælishátíð Sjálfsbjargar
Sæbraut lokað vegna kvikmyndatöku
Nýtt björgunarskip Landsbjargar komið til landsins með Brúarfossi