21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Áhrif verkfalls á Landspítala 8. og 9. desember 2014

Á miðnætti aðfaranótt 8. desember 2014 hófust verkfallsaðgerðir Læknafélags Íslands og standa til miðnættis 9. desember á rannsóknarsviði, aðgerðasviði og kvenna- og barnasviði.

Almennt gildir að bráðatilvikum er sinnt venju samkvæmt á Landspítala alla verkfallsdaga en gera má ráð fyrir víðtækum áhrifum á almenna starfsemi spítalans. Vakin er athygli á því að vegna víðtækra verkfallsaðgerða á heilsugæslustöðvum má búast við auknu álagi á bráðamóttökur Landspítala.

Á rannsóknarsviði falla niður um 200 fyrirfram skipulagðar myndrannsóknir báða dagana en bráðaþjónustu er sinnt í myndgreiningu sem og annarri rannsóknarstarfsemi.

Vegna verkfalls svæfinga- og gjörgæslulækna á aðgerðasviði falla niður allar fyrirfram skipulagðar skurðaðgerðir en bráðatilvikum verður sinnt. Starfsemi á gjörgæsludeildum verður með nokkuð eðlilegum hætti enda öll starfsemi þar í eðli sínu bráð. Afgreiðsla á blóði og blóðhlutum verður með eðlilegum hætti en ekki verður hægt að sinna erindum eins og vefjaflokkunum og ýmis konar blóðrannsóknum nema erindin séu bráð.

Á kvenna- og barnasviði verður allri bráðaþjónustu sinnt og regluleg starfsemi annarra en lækna verður með hefðbundnum hætti (s.s. fósturgreiningar o.fl.). Göngudeild og dagdeild kvenlækninga verða lokaðar sem og göngudeild barna að mestu.

Heimild: Landspítali.is