03/10/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll árið 2015

Árið 2015 fóru 4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll, einni milljón fleiri en árið 2014. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 25,5% aukningu frá fyrra ári. Skiptingin var þannig að 1.693.858 komu til landsins um flugvöllinn, 1.696.769 fóru frá landinu og 1.464.878 millilentu. Júlí var stærsti mánuður ársins með 662.750 farþega. Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 6,25 milljón farþegar fari um flugvöllinn árið 2016.

Öflug markaðssetning hefur skilað góðum árangri

Með öflugu markaðsstarfi hefur Isavia tekist að fjölga mjög ferðum og áfangastöðum erlendra flugfélaga og efla þannig samkeppni og auka ferðamöguleika Íslendinga. Þessi flugfélög hafa að mestu leyti komið inn utan háannatíma sólarhringsins og því hefur nýting flugvallarins aukist mjög með markaðsstarfi. Enn er þó mikill vannýttur tími utan háannatíma og vinnur félagið að því að dreifa enn betur álagi innan sólarhringsins.

16 þúsund fermetrar í byggingu

Nú er unnið að mestu stækkunum flugstöðvarinnar frá því hún var byggð árið 1987 auk þess sem leitað er allra leiða til að bæta nýtingu núverandi mannvirkja. Um þessar mundir eru 16 þúsund fermetrar í byggingu, þar af komast níu þúsund í gagnið á árinu 2016 og sjö þúsund til viðbótar árið 2017. Í þróunaráætlun flugvallarins er þá gert ráð fyrir að flugstöðin verði 140 þúsund fermetrar árið 2032, sem er ríflega tvöföldun á núverandi mannvirki.

Gæti tekið við 10 milljónum farþega með betri dreifingu innan dagsins

Mestu álagstímar sólarhringsins eru þeir tímar sem íslensku félögin Icelandair og WOW nota til þess að tengja Evrópu og Norður-Ameríku, en eins og áður sagði eru tímarnir á milli þessara álagspunkta vannýttir. Með betri nýtingu flugvallarins og aukningu á milli aðalálagstíma sólarhringsins gæti flugvöllurinn tekið við hátt í 10 milljónum farþega á ári hverju þegar framkvæmdunum sem nú standa yfir er lokið. Það liggja því mikil tækifæri fyrir Isavia, flugfélögin og Ísland í betri nýtingu núverandi mannvirkja á meðan unnið er að stækkunarframkvæmdum. Með betri dreifingu yfir daginn væri hægt að nýta flugvöllinn mun betur þangað til framkvæmdir hafa náð farþegaaukningunni.

Heimild: isavia.is