Foreldrar langveikra og alvarlega fatlaðra barna fá desemberuppbót

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að foreldrar barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð fái greidda desemberuppbót, að hámarki 53.123 kr. Þetta er nýmæli en uppbótin er sambærileg þeirri sem greidd er lífeyrisþegum og atvinnuleitendum.

Samkvæmt reglugerðinni á foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem hlotið hefur greiðslur í desember 2017 samkvæmt lögum þar að lútandi nr. 22/2006 rétt á desemberuppbót. Uppbótin er hlutfallsleg þannig að foreldri sem fengið hefur mánaðarlega greiðslu samkvæmt lögunum alla tólf mánuði ársins fær fulla desemberuppbót, þ.e. 53.123 kr.

Foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2017 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerðinni og verður hún greidd út eigi síðar en 18. janúar næstkomandi.

Helstu skattbreytingar 2018

Ýmsar breytingar verða á skattkerfinu 1. janúar 2018 þótt þær séu færri nú en oft áður um áramót. Hér á eftir verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna, bæði þeirra sem snerta heimili og fyrirtæki.

Tekjuskattur einstaklinga og útsvar

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga í ársbyrjun 2018 vegna verðlagsuppfærslu persónuafsláttar og þrepamarka. Persónuafslátturinn hækkar um 1,9% og þrepamörkin um 7,1%. Skattþrepin verða áfram tvö og skatthlutföllin óbreytt. Miðað við fyrirliggjandi ákvarðanir sveitarstjórna munu aðeins tvö sveitarfélög breyta útsvari sínu um áramótin og verður meðalútsvar í staðgreiðslu óbreytt, 14,44% . (1) Skattleysismörkin í staðgreiðslu hækka því um 1,9% og verða tæplega 152 þús.kr. á mánuði, þegar tekið er tillit til frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð. Þrepamörkin, þar sem hærra skattþrepið tekur við, hækka úr 834.707 kr. í 893.713 kr. á mánuði.

Tilfærsla milli tekjuskattsþrepa í þeim tilvikum þegar annað hjóna eða samskattaðra aðila hefur tekjur í efra skattþrepi en hitt ekki getur að hámarki numið 446.857 kr. á mánuði í stað 417.354 kr. árið 2017. Tekið er tillit til samsköttunar við álagningu opinberra gjalda og mun framangreind fjárhæð gilda við álagningu tekjuskatts á árinu 2019.

Meðfylgjandi tafla sýnir skatthlutföll tekjuskatts og útsvars, persónuafslátt, skattleysismörk og þrepamörk árin 2017 og 2018.

Nánari upplýsingar um breytingar á tekjuskatti, útsvari, persónuafslætti og skattleysismörkum við áramótin eru í frétt ráðuneytisins frá 22. desember sl. og í auglýsingu á vef Stjórnartíðinda frá 27. desember sl.

Barnabætur og vaxtabætur

Fjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% milli áranna 2017 og 2018 og tekjuskerðingarmörk um 7,4% milli ára. Fjárhæðir og skerðingarmörk vaxtabóta haldast óbreytt milli ára. Sé tekið dæmi af barnabótum þá munu tekjuskerðingarmörkin hækka úr 225 þús.kr. á mánuði í um 242 þús.kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 450 þús.kr. á mánuði í um 483 þús kr. hjá hjónum og sambýlisfólki, auk 8,5% hækkunar á bótafjárhæðunum eins og áður segir. Einstætt foreldri með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 242 þús.kr. á mánuði hefði án framangreindra breytinga fengið 66.434 kr. á mánuði í barnabætur á árinu 2018 en fær eftir breytinguna 73.892 kr., á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.458 kr. Hjá hjónum með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 483 þús.kr. á mánuði fer fjárhæð barnabóta úr 44.517 kr. á mánuði í 51.875 kr. á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.358 kr. Rétt er að taka fram að barnabætur eru skattfrjálsar.

Fjármagnstekjuskattur

Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts hækkar úr 20% í 22% um áramótin. Skatthlutfallið 22% gildir því við staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum og arði frá og með 1. janúar 2018 og við álagningu fjármagnstekjuskatts sumarið 2019 á þær fjármagnstekjur ársins 2018 sem ekki eru staðgreiðsluskyldar. Frítekjumark vaxtatekna einstaklinga hækkar jafnframt úr 125 þús.kr. í 150 þús.kr. sem þýðir að langflestir greiðendur fjármagnstekjuskatts munu ekki greiða hærri skatt þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. Hér eftir sem hingað til er þó ekki tekið tillit til frítekjumarksins í staðgreiðslukerfinu heldur eftir á, við álagninguna. Hækkun frítekjumarksins er hins vegar afturvirk og mun gilda þegar álagning á vaxtatekjur ársins 2017 fer fram sumarið 2018. Skatthlutfall aðila með takmarkaða skattskyldu og tiltekinna lögaðila, eins og sameignar- og samlagsfélaga, sem tekur mið af bæði tekjuskatti lögaðila og fjármagnstekjuskatti einstaklinga, hækkar tilsvarandi úr 36% í 37,6% 1. janúar 2018.

Krónutölugjöld

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. hækka almennt um 2% um áramótin. Hið sama gildir um „nefskattana“ tvo, þ.e. útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hækkunin miðast við að gjöldin haldi verðgildi sínu miðað við almennt verðlag. Kolefnisgjald hækkar þó meira eða um 50% í samræmi við þá stefnu að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Krónutölugjöld eru sýnd í meðfylgjandi töflu.

Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar

Frá árinu 2012 hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða. Heimildin átti að renna sitt skeið um næstu áramót en verður nú framlengd þangað til bílum hefur fjölgað í 10.000 í hverjum þessara þriggja flokka fyrir sig, en þó ekki lengur en til ársloka 2020.

Vörugjöld á bifreiðar ökutækjaleiga

Ökutækjaleigur (bílaleigur) hafa um árabil notið skattastyrks í formi afsláttar af vörugjaldi sem lagt er á við innflutning bifreiða. Fast hámark sem sett er á afsláttinn á hverja bifreið lækkar úr 500 þús.kr. í 250 þús.kr. 1. janúar 2018. Þessi ívilnun fellur úr gildi í árslok 2018.

Heimild: stjornarradid.is

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka

Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið hækkað sem nemur 20.000 kr. á mánuði. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir þetta fyrsta skrefið í áformum stjórnvalda um aukinn stuðning við barnafjölskyldur með hækkun orlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Fyrir dyrum standi að endurskoða fæðingarorlofskerfið með þetta að markmiði, líkt og fjallað sé um í stjórnarsáttmálanum: „Í þessu felst ekki einungis fjárhagslegur stuðningur, heldur einnig félagslegur þar sem markmiðið er að börn fái notið samvista með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífs síns. Eins er það mikilvægt jafnréttismál að feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs en á því hefur verið alvarlegur misbrestur síðustu ár, eða frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslurnar í kjölfar efnahagshrunsins“ segir Ásmundur Einar.

Breytingar á fjárhæðum samkvæmt reglugerðinni öðlast gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Hámarksgreiðsla hækkar úr 500.000 kr. í 520.000 kr.

  • Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 118.335 kr. í 123.897 kr.
  • Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.
  • Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 71.563 kr. í 74.926 kr.
  • Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.

Eldri fjárhæðir (greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 2017) gilda áfram vegna barna sem:

  • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 – 31. desember 2017
  • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 15. október 2016

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna

Öll börn með skráðan heimilistannlækni eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum samkvæmt samningi þar að lútandi. Gjaldfrjálsar tannlækningar barna hafa verið innleiddar í áföngum og lauk inneiðingunni 1. janúar sl. þegar börn yngri en þriggja ára öðluðust rétt samkvæmt samningnum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013. Til að byrja með tók hann til 15, 16 og 17 ára barna og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt skilgreindri áætlun þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þessa þjónustu, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum og nauðsynlegum tannlækningum hjá hlutaðeigandi börnum.

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar efldur

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita um 16,5 m. kr. framlag af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu í aukið stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar sem var stofnaður árið 2013.

Gunnar Gunnarsson skáld og eiginkona hans Franzisca gáfu íslenska ríkinu jörðina Skriðuklaustur í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu, ásamt húsakosti með gjafabréfi árið 1948 með þeim skilmálum að jarðeignin skyldi vera ævarandi eign íslenska ríkisins og skyldi hún hagnýtt þannig að til menningarauka horfði. Auk þess hafa erfingjar skáldsins framselt handhöfn höfundarréttar af verkum Gunnars til Gunnarsstofnunar sem fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir.

Ríkisstjórnin ákvað, með vísan til hinnar einstöku gjafar Gunnars Gunnarssonar og ættingja hans, að auka stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar um u.þ.b. 16,5 m. kr.

Aðgerðir stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega fjallað um að bregðast beri við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Alþingi hefur samþykkt tillögur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að í fjáraukalögum 2017 verði varið 665 milljónum króna til að koma til móts við sauðfjárbændur.

Í fyrsta lagi munu bændur eiga kost á greiðslum sem miðist við fjölda kinda á vetrarfóðrum samkvæmt haustskráningu Matvælastofnunar. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi bóndi búi á lögbýli og hafi fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Til þessa verkefnis verði varið 400 m.kr.

Í öðru lagi er 150 m.kr. aukalega varið í svæðisbundinn stuðning við bændur sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan bús vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Þessi fjárhæð kemur til viðbótar þeim 150 m.kr. sem varið er til þessara mála samkvæmt gildandi búvörusamningi.

Þá verði ráðist í úttekt á afurðastöðvakerfinu sem verði grundvöllur viðræðna stjórnvalda, sláturleyfishafa og bænda um breytingar til hagsbóta fyrir neytendur og bændur. Til þessa verkefnis verður varið allt að 65 m.kr.

Verkefni er lúta að kolefnisjöfnun eru styrkt sérstaklega enda er mikilvægt að nýta krafta bænda til að vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Þá er lögð áhersla á að efla nýsköpun og vöruþróun til að mæta kröfum ólíkra markaða og að styrkja útflutning. Til að undirbyggja framangreind verkefni og tengja þau við  endurskoðun búvörusamninga verði heimilt að verja þeim 50 m. kr. sem eftir standa.

Þá verði málefni ungra sauðfjárbænda tekin til sérstakrar skoðunar af Byggðastofnun í ljósi umræðu um skuldavanda þeirra og kostir eins og endurfjármögnun og/eða lenging lána kannaðir sérstaklega.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Við erum að bregðast við fordæmalausum vanda sem felst í því að afurðaverð til bænda hefur fallið um þriðjung vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ég vona að um málið geti myndast pólitísk sátt enda erum við að styrkja tekjugrundvöll greinarinnar og jafnframt að styðja þá bændur sem byggja tekjur sínar nær alfarið á búrekstrinum. Þetta á ekki hvað síst við um bændur sem búa hvað lengst frá þéttbýli.

Oddný Steina Valsdóttir formaður Landssambands sauðfjárbænda: „Landssamtök sauðfjárbænda fagna því að komnar eru fram aðgerðir gagnvart greininni. Það er mikilvægt að brugðist sé strax við þeim rekstrarvanda sem bændur standa frammi fyrir. Þá telja samtökin einnig jákvætt að farið verði í úttekt á afurðageiranum enda greining sem er nauðsynlegur liður fyrir framtíðarlausnir. Í framhaldinu er nauðsynlegt að fara í frekari vinnu til framtíðarlausna. Það er mikilvægt að fyrir liggi ákveðið ferli og ekki þurfi að treysta á sértækar aðgerðir þegar fall verður á mörkuðum vegna utanaðkomandi aðstæðna.“

Heimild: stjornarradid.is

Fjárlög samþykkt á Alþingi

Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi 30. desember 2017.  Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi koma fram áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ýmis lykilverkefni sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum.  Þar má einkum nefna fjármögnun heilbrigðiskerfisins, eflingu menntakerfisins og máltækniverkefni, útgjöld til samgöngumála og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis.

Fjárlög voru samþykkt með tæpum 33 ma.kr. afgangi, eða um 1,2% af landsframleiðslu. 55,3 ma.kr. aukin fjárframlög voru samþykkt ef miðað er við fjárlög fyrra árs, en um er að ræða 19 ma.kr. aukningu frá því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Fjárlögin endurspegla sterka stöðu efnahagsmála með áformum um skuldalækkun ríkissjóðs á sama tíma og brugðist er við ákalli um auknar fjárveitingar í mikilvæga samfélagslega innviði.

Með samþykkt fjárlaga eru stigin fyrstu skrefin í langtímastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er megináhersla á að varðveita efnahagslegan stöðugleika, styrkja innviði s.s. samgöngur og heilbrigðiskerfið, renna stoðum undir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og auka stuðning við menntun og nýsköpun.

Skýr langtímasýn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar mun síðan birtast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í vor.

Heildaraukning til heilbrigðismála frá síðustu fjárlögum er 22 ma.kr. sem skiptist m.a. þannig að til heilsugæslunnar rennur 2,3 ma.kr., í sjúkrahúsþjónustu 8,8 ma.kr., í lyf: 5,4 ma.kr. og í tannlækningar: 500 m.kr.

Aukning frá síðasta fjárlagafrumvarpi í heilbrigðismálum eru 8 ma.kr. og skiptist þannig að til sjúkrahúsþjónustu er veitt 3 ma.kr., í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (þ.m.t. heilsugæsla) 1,3 ma.kr., í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu 360 m.kr., í lyf og lækningavörur 3 ma.kr. og í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála fara 270 m.kr.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% og tekjuviðmiðunarmörk um 7,4%. Þannig munu greiðslur til einstæðs tveggja barna foreldris á lágmarkslaunum hækka um rúmlega 12% á ári. Frítekjumark fyrir aldraða verður þegar hækkað úr 25 þúsund kr. í 100 þúsund kr. um áramótin.

Aukning í menntamálum frá síðustu fjárlögum nemur 4,1 ma.kr. Af þeim fer 2,9 ma.kr. til háskólastigsins og 1,0 ma.kr. til framhaldsskólastigsins.

Til úrbóta í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis renna samtals 376 m.kr. til nokkurra málefnasviða, m.a. innan löggæslu, heilbrigðiskerfisins og réttarkerfisins.

Í eflingu Alþingis er veitt 22,5 m.kr. framlag til þess að styrkja löggjafar, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk þingsins. Aukið framlag til þingflokka nemur 20 m.kr.

Varðandi eflingu löggæslu er tímabundið 400 m.kr. framlag, sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, gert varanlegt. Þá er veitt 298 m.kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlagið skiptist í 178 m.kr. framlag til að styrkja innviði lögreglu á sviði rannsóknar kynferðisbrotamála og í öllum þáttum málsmeðferðar, 80 m.kr. framlag til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið og 40 m.kr. tímabundið framlag til uppfærslu rannsóknarhugbúnaðar, upplýsinga og gæðastaðla lögreglu.

Framlag til héraðssaksóknara er aukið um 38 m.kr. sem ein fjölmargra aðgerða til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlaginu er ætlað að styrkja innviði embættisins til að bæta ákærumeðferð kynferðisbrota í samræmi við áherslur sem fram koma í aðgerðaáætluninni.

Framlag til aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins er aukið um 20 m.kr. til að styrkja framkvæmd aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og vinnu við fullgildingu Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Í samgöngumálum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hraða uppbyggingu í vegamálum þannig að á árinu 2018 verði 2,3 ma.kr. varið til viðbótar í framkvæmdir á vegum, þ.e. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Um er að ræða níu framkvæmdir sem snúa fyrst og fremst að umferðaröryggismálum en einnig aðgerðum til að greiða úr umferð og minnka tafir. Framlag til hafnaframkvæmda (hafnabótasjóðs) hækkar um 500 m.kr. frá gildandi fjárlögum.

Fjárheimild á sviði sjávarútvegsmála hækkar um 90 m.kr. vegna framlags til vöktunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum.

Aukið fjárframlag til umhverfismála, frá frumvarpinu sem lagt var fram í september sl., nemur 334 milljónum kr. Til náttúruverndar verður varið 296 m.kr. 260 m.kr. verður veitt í landsáætlun um uppbyggingu innviða og 36 m.kr. til friðlýsinga. Einnig var 150 m.kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsmiðstöðar á Hellissandi framlengt. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 380 m.kr. og ófjármagnað af því eru um 180 m.kr.

Til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fara 18 m.kr. og 20 m.kr. í stofnun nýs loftslagsráðs.

Til mennta- og menningarmála verða veittar 290 m.kr. vegna sýningarhalds Náttúruminjasafns Íslands. Þá verða 250 m.kr. veittar vegna efniskostnaðar framhaldsskóla og 450 m.kr. til máltækniverkefnis til þess að stuðla að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu 2018. Í því fellst að þær reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. desember 2017 náðist ekki samkomulag m.a. um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Á fundinum bauð Ísland fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk  fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Heimild: stjornarradid.is