Nýr samningur um þjónustu Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar

Þjónusta Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar, einkum fyrir ungt fólk með geðraskanir, verður aukin til muna með nýjum þjónustusamingi milli samtakanna og Vinnumálastofnunar sem undirritaður var í vikunni.

Gerð samningsins er niðurstaða samstarfs sem efnt var til milli velferðarráðuneytisins og Hugarafls í ágúst síðastliðnum með það að markmiði að styðja við starfsemi samtakanna á þann hátt sem best myndi nýtast fólki með geðræn vandamál.

Markmiðið með samningnum er að veita þeim sem Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, heilbrigðisstofnanir eða aðrir viðurkenndir aðilar svo sem félagsþjónusta sveitarfélaga vísa til Hugarafls, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa þeim þannig færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang til dæmis að undangengnu frekara námi.

Þjónustan stendur einnig til boða þeim sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og koma af sjálfsdáðun.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafréttismálaráðherra, var viðstaddur undirritun samningsins í dag og lýsti ánægju með þá niðurstöðu sem í honum felst. „Með samningnum er traustum stoðum skotið undir hið mikilvæga starf Hugarafls í þágu ungs fólks með geðraskanir. Okkar markmið er að hjálpa sem flestum til aukinnar virkni í samfélaginu og Hugarafl tekur opnum örmum á móti viðkvæmum hópi á erfiðum tímum í lífum þeirra. Þá er sérstaklega gott að sjá hversu hratt og ötullega starfsfólk í ráðuneytinu og undirstofnunum hefur unnið að þessu máli sem nú fær farsælan endi.“ Ráðherra tilkynnti einnig við þetta tækifæri að hann hefði ákveðið að veita eina milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja starfsemi Hugarafls.

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, tók í sama streng og ráðherra: „Við í Hugarafli erum gríðarlega ánægð með stuðning velferðarráðuneytisins við að tryggja áframhaldandi öflugt starf Hugarafls. Einnig erum við ánægð með að í fyrsta skipti er opnu úrræði veittur stuðningur sem og fyrir þá sem ekki uppfylla skilyrði hjá öðrum endurhæfingarúrræðum. Sérstaklega erum við glöð að sjá áhersluna á ungt fólk í samningnum. Þá er ég afar ánægð með hröð og góð vinnubrögð ráðherra og hans fólks, þegar neyðarástand myndaðist í starfsemi Hugarafls.“

Samningurinn gildir frá september 2017 til ársloka 2019.

Fjölga atvinnuleyfum leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu

Breyting á reglugerð um leigubifreiðar tók gildi við birtingu í Stjórnartíðindum í gær og snýst hún um að fjölga atvinnuleyfum leigubifreiða um 20 á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi atvinnuleyfa á þessu svæði hefur verið óbreyttur frá 2003.

Endurskoðun hefur staðið yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu á fjölda atvinnuleyfa og hafa borist ábendingar bæði frá leigubifreiðarstjórum og leigubifreiðastöðvum. Frá árinu 2002 hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um liðlega 23% auk þess sem erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á þessum tíma.

Drög að breytingu á reglugerðinni voru kynnt í júlí og var þar gert ráð fyrir 100 leyfa fjölgun, 90 á svæði 1, sem er höfuðborgarsvæðið, og 10 á öðrum svæðum. Nokkrar umsagnir bárust bæði með og á móti svo mikilli fjölgun. Komu fram sjónarmið um að iðulega væri löng bið eftir þjónusu leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu og því væri brýnt að fjölga leyfum en aðrir töldu nægilega marga sinna leiguakstri og að fjölgun ferðamanna hefði ekki fært leigubifreiðastöðvun aukin verkefni svo nokkru næmi. Í kjölfar umsagna áttu sérfræðingar ráðuneytisins fundi með hagsmunaaðilum, m.a. fulltrúa Frama og ráðherra hitti fulltrúa leigbifreiðarstjóra frá öllum stöðvum á svæði 1.

Niðurstaða ráðuneytisins varð sú að ekki væru forsendur til að fjölga atvinnuleyfum um 90 á einu bretti en ákveðið að fjölga leyfum um 20 á höfuðborgarsvæðinu og verða þau því alls 580.

100 ár frá spænsku veikinni á næsta ári

Á næsta ári eru 100 ár liðin frá því að spænska veikin lagði mörg hundruð manns að velli í Reykjavík og nágrenni. Um var að ræða afar skæðan inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn á árunum 1918-1919. Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra að sett verði í gang hugmyndavinna um það hvernig minnast skuli tímamótanna og þeirra sem létust í þessum skæða faraldri.

Þess má geta að rithöfundurinn Gerður Kristný kom hugmyndinni á framfæri við borgarstjóra um að minnast þess að öld er liðin frá því að hin mannskæða farsótt geisaði í Reykjavík.

Hefja skal undirbúning að viðburðum, sögulegum merkingum og öðru sambærilegu til að varpa ljósi á og minnast tímamótanna. Leita skal samstarfs við aðra aðila eftir atvikum.

Spænska veikin er mannskæðasti inflúensufaraldur sögunnar og létust um 25 milljónir manna að minnsta kosti í heiminum öllum. Veikin er talin hafa borist hingað til lands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt.

Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn verulega á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur og fimm dögum síðar voru tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar rúmfastir. Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 9. nóvember. Borginni var skipt í þrettán hverfi og gengið var í hús. Aðkoman var víða hroðaleg.

Samkvæmt opinberum tölum létust alls 484 Íslendingar úr spænsku veikinni. Veikin kom þyngst niður á Reykvíkingum, þar sem 258 létust, en með ströngum sóttvörnum og einangrun manna og hluta sem grunaðir voru um að geta borið smit tókst að verja algerlega Norður- og Austurland. Framangreindar upplýsingar eru sóttar af Vísindavef Háskóla Íslands og úr bókinni Ísland í aldanna rás.

Öll tiltæk lyf sem hjálpað gátu við lungnabólgu og hitasótt, sem voru fylgifiskar veikinnar, kláruðust umsvifalaust. Læknar unnu myrkranna á milli og læknanemar fengu bráðabirgðaskírteini til að sinna smituðum. Allt athafnalíf í Reykjavík lamaðist. Flestar verslanir lokuðust og 6. nóvember hættu blöð að koma út vegna veikinda starfsmanna. Samband við útlönd féll niður því allir starfsmenn Landsímahússins utan einn veiktust. Messufall varð og sorphirða og hreinsun útisalerna féll niður. Erfitt var að anna líkflutningum og koma varð upp bráðabirgða líkhúsum. Brugðið var á það ráð að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum 20. nóvember í Hólavallagarði við Suðurgötu og hvíla sumir enn í ómerktum gröfum.

Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar árið 2017

Verkís og Orkuveita Reykjavíkur hljóta Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2017 og ræður vistvænn ferðamáti starfsmanna og fordæmi fyrirtækjanna í vistvænum rekstri þar mestu um val dómnefndar.

Verkís býður starfsfólki góða aðstöðu fyrir hjól, hleðsla er fyrir rafbíla, bílastæðum var fækkaði hjá fyrirtækinu og starfsfólk fær samgöngustyrk. Orkuveitan greiðir samgöngustyrk til sinna starfsmanna og fylgst er með því hvernig fólk kemur til vinnu og hvað hindri það í að velja vistvænar samgöngur. Orkuveitan er með 65 vistvænar bifreiðar sem nýtast starfsfólki.

Auglýst var eftir umsóknum eða tilnefningum frá fyrirtækjum, félagsamtökum, stofnunum og einstaklingum. Dómnefndin byggir val sitt á árangri að aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að t.d. einfalda starfsfólki að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn, draga úr umferð á sínum vegum og/eða stuðla að notkun vistvænna orkugjafa.

Sjö fyrirtæki komu fyrir valnefnd á þessu ári og voru það auk Verkís og Orkuveitunnar, Advania, Alta, Arionbanki, Háskólinn í Reykjavík og Seðlabanki  Íslands.

Deilibílaþjónusta í Reykjavík

Zipcar deilibílaþjónusta var kynnt í Háskólanum í Reykjavík í gær. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri prufukeyrði einn af tveimur Zipcar bílum sem verða staðsettir við háskólann og nýtist hverjum þeim sem eru meðlimir í kerfinu.

Reykjavík er fyrsta borgin á Norðurlöndum þar sem boðið er upp á þjónustu Zipcar.  Deilibílaþjónusta er nýjung í ferðamáta innan höfuðborgarsvæðisins þar sem notendur deila bílum í stað þess að eiga sjálfir bíl, eða til að bæta við akstursþörfina án þess að bæta við bíl númer tvö.

Hug­mynd­in geng­ur út á að not­end­ur geti nálg­ast bíla til að nýta í stutt­ar ferðir og geta meðlim­ir Zipcar bókað bíl eft­ir þörf­um með appi all­an sól­ar­hring­inn. Bíll­inn er bókaður með Zipcar-app­inu og skilað aft­ur á sama stæðið þegar notk­un lýk­ur.

Borgarfulltrúum fjölgar á næsta kjörtímabili

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að fjöldi borgarfulltrúa frá og með næsta kjörtímabili yrði 23, eða sá lágmarksfjöldi fulltrúa sem mælt er fyrir um í sveitarstjórnarlögum.

Afgreiðslu tillögu um fjölda borgarfulltrúa, sem var frestað á fundi borgarstjórnar í sumar, þar sem ráðherra sveitarstjórnarmála hafði boðað frumvarp sem fól í sér breytingu á lágmarksfjölda borgarfulltrúa úr 23 í 15, sem er núverandi fjöldi borgarfulltrúa.

Málið var tekið á dagskrá borgarstjórnar í dag í ljósi atburða síðustu daga, þar sem ríkisstjórnin hefur beðist lausnar, starfsstjórn er við völd og dagskrá og verkefni Alþingis næstu vikur í uppnámi. Jafnframt kom fram í fréttum í síðustu viku að ekki var full samstaða um málið í þingflokkum þáverandi stjórnarflokka á Alþingi.

Tillagan var samþykkt með 11 atkvæðum gegn 4.