Reykjavíkurborg styrkir björgunarsveitir í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík hafa undirritað styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Samningurinn er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 10 milljónir árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrk fjárhæðin 30 milljónum króna og er hún greidd óskipt til styrkþega og skulu þeir sjá um að skipta styrknum á milli sín skv. sérstöku samkomulagi þar um.

Björgunarsveitirnar hafa sér þjálfaðan mannskap í rústabjörgun, fjallabjörgun, köfun og fyrstu hjálp. Um er að ræða sjálfboðaliða sem eru þaulvanir að takast á við hvern þann vanda sem upp kann að koma

37 sóttu um embætti dómara við Landsrétt

Umsóknarfrestur um embætti dómara við Landsrétt rann út 28. febrúar síðastliðinn og bárust 37 umsóknir um embættin. Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018 á grundvelli laga um dómstóla nr. 50/2016. Auglýst voru embætti 15 dómara þann 10. febrúar síðastliðinn.

Eftirtaldir sóttu um embætti:

 1. Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
 2. Arnfríður Einarsdóttir, héraðsdómari
 3. Ásmundur Helgason, héraðsdómari
 4. Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður
 5. Baldvin Hafsteinsson, hæstaréttarlögmaður
 6. Björn Þorvaldsson, sviðsstjóri ákærusviðs efnahagsbrota hjá embætti héraðssaksóknara
 7. Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari
 8. Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu
 9. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 10. Davor Purusic, lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands
 11. Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 12. Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari
 13. Guðrún Sesselja Arnardóttir, hæstaréttarlögmaður
 14. Helgi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
 15. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
 16. Hildur Briem, dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands
 17. Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi alþingismaður
 18. Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstaréttardómari
 19. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
 20. Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
 21. Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari
 22. Jón Höskuldsson, héraðsdómari
 23. Jónas Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
 24. Karl Óttar Pétursson, hæstaréttarlögmaður
 25. Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
 26. Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar   umhverfis- og auðlindamála
 27. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 28. Ólafur Ólafsson, dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra
 29. Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
 30. Ragnheiður Bragadóttir, héraðsdómari
 31. Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
 32. Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari
 33. Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
 34. Soffía Jónsdóttir, hæstaréttarlögmaður
 35. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
 36. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness
 37. Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Varað við snjóhengjum og grýlukertum

Lögreglan beinir þeim tilmælum til fólks á höfuðborgarsvæðinu að huga að grýlukertum og snjóhengjum er lafa fram af húsþökum en af þeim getur stafað mikil hætta. Tilmælunum er ekki síst beint til verslunar- og/eða húseigenda á stöðum þar sem mikið er um gangandi vegfarendur. Þetta á m.a. við um Laugaveg og nærliggjandi götur í miðborginni. Mælst er til þess að fólk kanni með hús sín og grípi til viðeigandi ráðstafana áður en slys hlýst af.

Grænlenskur karlmaður áfram í gæsluvarðhaldi

Grænlenskur karlmaður á þrítugsaldri var í byrjun mars í héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til fjögurra vikna á grundvelli almannahagsmuna í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dauða Birnu Brjánsdóttur. Maðurinn var handtekinn um borð í fiskiskipinu Polar Nanoq 18. janúar og úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald daginn eftir, sem nú hefur verið framlengt þriðja sinni.

Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Starfsemin mun verða rekin á dagvinnutíma frá 9:00 til 17:00 og í húsnæði Reykjavíkurborgar í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.

Verkefnið er að hluta til byggt á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að brotaþolar fái, á einum stað, þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Starfshópurinn sem stóð að stofnun miðstöðvarinnar og borgarstjóri, ráðherrar og lögreglustjóri fengu öll bjarkarhríslu að gjöf frá Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur verkefnastjóra Bjarkarhlíðar í tilefni opnunarinnar. Ragna Björg sagði að stofnun miðstöðvarinnar hefði tekist með góðri samvinnu allra aðila og nú væri hægt að fara að vinna af fullum krafti að því mikilvæga starfi sem miðstöðin á að sinna.

Starfsemin í Bjarkarhlíð, mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Veitt verður fræðsla og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk námskeiða um birtingamyndir ofbeldis og afleiðingar þess, þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.

Bjarkarhlíð hóf að kynna starfsemi sína í febrúar sl. fyrir samstarfsaðilum og öðrum stofnunum sem vinna með afleiðingar ofbeldis. Nú þegar hafa 9 mál komið á borð Bjarkarhlíðar og segir verkefnastjórinn Ragna Björg Guðbrandsdóttir að það sýni og sanni að þörf er á slíkri þjónustu. Það sem einkennir helst þau mál sem komið hafa er að ekki er um eitt afmarkað atvik að ræða heldur langvarandi og oft endurtekin saga um ofbeldi.

Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti en Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins, 10 m.kr. á árinu 2016 og 20 m.kr. á hvoru ári árin 2017 og 2018. Vinnuframlag og viðvera verður frá Stígamótum, Drekaslóð, Kvennaathvarfi, Kvennaráðgjöf og Mannréttindaskrifstofu Íslands Auk þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir upplýsingar um meðferð mála í réttarvörslukerfinu og kemur að mati á öryggi þolenda.

Gert er ráð fyrir að fleiri samstarfsaðilar verði hluti af starfseminni með tímanum.