Breyting á mörkum skólahverfa

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni breytingar á mörkum tveggja skólahverfa í borginni frá og með næsta skólaári 2017-2018.

Skólahverfamörkum Langholtsskóla og Vogaskóla verður breytt þannig að Álfheimar 31 – 35, Glaðheimar, Sólheimar 25, Hlunnavogur og Sigluvogur flytjast úr skólahverfi Langholtsskóla yfir í skólahverfi Vogaskóla. Breytingin mun ekki hafa áhrif á þá nemendur sem sækja nú þegar þessa tvo skóla.

Skólahverfamörk Grandaskóla og Melaskóla verða færð þannig að Meistaravellir tilheyri Grandaskóla í stað Melaskóla áður. Breytingin nær ekki til nemenda sem sækja nú þegar þessa tvo skóla.

Í báðum tilvikum eigi foreldrar sem eiga lögheimili í götum sem færast á milli skólahverfa val um í hvorn skólann börn þeirra fara og forgang í báða skólana út skólaárið 2017 – 2018.

Breytingar á skólamörkum voru gerðar að tillögu starfshóps og að undangengnu umsagnarferli hjá skólaráðum og foreldrafélagum,  svo og opnum íbúafundum þar sem þær voru kynntar.

Fyrirtæki í Reykjavík flokka og skila

Reykvískum heimilum hefur verið gert að flokka ákveðna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og skila í endurvinnslu og aðra móttöku. Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að fyrirtækjum sé einnig skylt að flokka og skila til endurvinnslu og endurnýtingar eins og heimili gera.

Þetta kemur til framkvæmda frá og með mánudaginum 13. febrúar. Þessar breytingar voru innleiddar í gegnum endurskoðaða Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti í desember.

Greiningar SORPU benda til að hlutfall pappírs í blönduðum úrgangi sé meira frá fyrirtækjum en heimilum. En 110 þúsund tonn voru urðuð í Álfsnesi árið 2016. Þarf af voru 60% frá fyrirtækjum eða 66 þúsund tonn.

Þó hefur hlutur pappírs í gráu tunnunni undir blandaðan úrgang aukist lítið eitt frá því það var lægst árið 2014 eða 8% en er nú 13%. Eftir að íbúum var gert skylt að flokka pappír frá öðrum úrgangi jókst endurvinnsla pappírs stórlega eða úr 32% í gráu tunninni í einungis 8% á skömmum tíma. Vonir standa til að það sama gerist hjá fyrirtækjum.

Mörg fyrirtæki standa sig nú þegar afar vel og eru með umhverfisstefnu og skila nær engu til urðunar og endurvinna nánast allt sem til fellur.

Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfull markmið um flokkun og skil til endurvinnslu í aðgerðaáætlun um meðhöndlun úrgangs og í Aðalskipulagi.  Svo þetta geti orðið að veruleika þurfa allir að taka þátt, bæði íbúar og fyrirtæki.

Hagnaður Landsbankans 16,6 milljarðar árið 2016

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015. Hreinar vaxtatekjur voru 34,7 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljarði króna. Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna.

Útlán jukust um 5% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn minnkaði innan við 1%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti, sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 2,3 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum, en á sama tíma eykst kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta.

Þá dragast aðrar rekstrartekjur saman um tæpa 9 milljarða króna sem einkum skýrist af þróun á mörkuðum á árinu.

Samstarfssamningur um viðhald gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins

Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær hafa undirritað samstarfssamning um undirbúning nauðsynlegs átaks í viðhaldi og endurbótum gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar undirrituðu samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Samstarfið felur meðal annars í sér :

Sameiginlegt mat á ástandi, viðhaldsþörf og endurbótaþörf
Unnið verði sameiginlegt mat á þörf við viðgerðir, viðhald og endurbætur á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurborgar og Garðabæjar sérstaklega eftir erfiða vetur og sparnað síðustu ára. Jafnframt verði lagt mat á hlut slits vegna aukningar umferðar, vaxandi ferðaþjónustu (bílaleigubílar og rútur), notkunar nagladekkja, veðurfars og annarra atriða.

Áætlun um viðhald og endurbætur
Lagt verði mat á kostnað við átakið og nauðsynlegar framkvæmdir.
Unnin verði sameiginleg viðhalds- og endurbótaáætlun fyrir vega- og gatnakerfi Reykjavíkurborgar og Garðabæjar  með það að markmiði að tryggja viðundandi þjónustustig.

Fjármögnun
Vegagerðin mun miða við að fjárheimildir til viðhalds á þeim hluta gatnakerfisins, sem hún ber ábyrgð á, verði í samræmi við niðurstöður matsins en endanlegt umfang á hverju ári mun ráðast af heildar fjárveitingum stofnunarinnar til viðhalds vega á hverjum tíma. Reykjavíkurborg og Garðabær munu með sama hætti nýta fjármuni til viðgerða, viðhalds og endurbóta og gera tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar  til verkefnisins til næstu ára.

Rannsóknir
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær dragi svo saman þær rannsóknir sem fyrir liggja um gatnagerð, malbikslagnir og væntan endingartíma. Sérstaklega verði hugað að umhverfissjónarmiðum og mögulegri endurnýtingu malbiks. Greindar verði ástæður versnandi ástands, skemmda og holumyndunar í gatnakerfinu og gerðar tillögur að frekari rannsóknum þar sem þekkingu skortir.

112 dagurinn

112 og viðbragðsaðilar bjóða almenningi að skoða græjurnar og hitta 112-fólkið á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar þar sem Forseta Íslands bjargað úr Reykjavíkurhöfn upp í þyrlu.

Laugardaginn 11. febrúar verður tækjasýning á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn kl. 13-16. Viðbragðsaðilar sýna margvíslegan búnað á Hörputorgi og almenningi er boðið að skoða varðskipið Þór og Sæbjörg, slysavarnaskóla sjómanna, við Faxagarð.

Björgum forsetanum laugardag kl. 14.30!
Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsla Íslands bjarga forseta Íslands úr Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar kl. 14.30. Fulltrúar 112 og viðbragðsaðila taka á móti forseta við Hörpu kl. 13.30. Hann kynnir sér tækjasýninguna en fer síðan með björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar út á Reykjavíkurhöfn þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar kemur honum til bjargar kl. 14.30.

Dagskrá í Flóa í Hörpu laugardag kl. 15.00
• Ávarp: Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
• Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2016 afhent
• Eva Björk Eyþórsdóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir, starfsmenn bráðamóttöku LSH, syngja við undirleik Viðbragðssveitarinnar
• Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur