Heilsan að hausti í Sólheimabókasafni

Fimmtudaginn 27. október kl. 17:30 mun Sigrún Ása Þórðardóttir, sálfræðingur, fjalla um núvitund og kenna einfaldar æfingar til að auka hana. Núvitund nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir en í henni er áherslan lögð á líðandi stund, skynjunina hér og nú. Niðurstöður rannsókna sýna fram á að núvitundarþjálfun getur dregið úr streitu, kvíða og depurð.

Staður:

Menningarhús Sólheimum, fimmtudaginn 27. október kl. 17.30.

47 einstaklingar ættleiddir á Íslandi árið 2015

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 47 einstaklingar ættleiddir á Íslandi árið 2015. Þetta eru nokkuð fleiri en árið 2014, en þá voru ættleiðingar 37. Árið 2015 voru stjúpættleiðingar 28 en frumættleiðingar 19. Með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni (eða kjörbarni) maka umsækjanda. Með hugtakinu frumættleiðing er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.

Frumættleiðingar frá útlöndum
Frumættleiðingar frá útlöndum voru 17 árið 2015, og hélt þeim áfram að fjölga frá því að þær fóru í einungis tíu árið 2013. Frumættleiðingar frá útlöndum höfðu ekki verið svo fáar á einu ári frá árinu 1997. Undanfarin ár hafa flest ættleidd börn verið frá Kína og árið 2015 voru einnig flestar ættleiðingar þaðan, eða átta, en einnig voru ættleidd fimm börn frá Tékklandi.

Ættleiðingar innanlands
Stjúpættleiðingar árið 2015 voru 28. Það er fjölgun frá árinu 2014, en þá voru þær óvenjulega fáar eða 19. Í flestum tilvikum var stjúpfaðir kjörforeldri, en það hefur jafnan verið algengast. Frumættleiðingar innanlands voru tvær árið 2015, og hafa þær einungis einu sinni verið færri á einu ári frá 1990, það var árið 2012 þegar engin frumættleiðing átti sér stað innanlands.

aettleidingar
Mynd og heimilid: hagstofa.is

Ríkið eignast Geysissvæðið

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Landeigendafélags Geysis ehf., undirrituðu í dag samning um kaup ríkisins á öllum eignarhluta landeigendafélagsins innan girðingar á Geysissvæðinu.  Samkvæmt samningnum verður kaupverð eignarhlutans lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna.

Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við sameigendur sína innan girðingar á Geysissvæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra.

Svæðið innan girðingar á Geysi er u.þ.b. 19,9 hektarar að stærð.  Innan þess svæðis á ríkið sem séreign u.þ.b.2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola.  Það sem eftir stendur eða u.þ.b.17,6 ha. er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins.

Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með er ríkið orðið eigandi alls þess svæðis, en ríkið á þegar stóran hlut aðliggjandi landssvæða utan girðingar.

Samningurinn markar tímamót því hann auðveldar heildstæða uppbyggingu á svæðinu í samræmi við niðurstöðu í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið sem haldin var fyrir nokkrum misserum.

bjarniben-geysir