Fimm milljónasti farþeginn á Íslandi

Um hádegið þann 20. september síðastliðinn fór fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll í fyrsta sinn yfir fimm milljóna múrinn innan sama árs. Það var parið Leanna Cheecin Lau og Gregory Josiah Lue sem voru hin heppnu en starfsfólk Isavia tók vel á móti þeim og fengu þau flug frá WOW air, gjafaöskju frá Fríhöfninni, blómvönd auk þess sem veitingastaðurinn Nord á Keflavíkurflugvelli tók á móti þeim með glæsilegum mat.

Parið var á leið til Baltimore með Wow Air og þaðan til Los Angeles þar sem þau eru búsett. Þau fara í eina utanlandsferð á ári og ákváðu þetta árið að fara til Íslands þar sem þau dvöldu í viku. Þau voru mjög ánægð með ferðina og skoðuðu meðal annars Jökulsárlón og Gullfoss og Geysi.

Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar fimmmilljónasti farþeginn fór úr landi skiptist farþegafjöldinn svona: 1.685 þúsund brottfararfarþegar, 1.710 komufarþegar og 1.605 skiptifarþegar. Árið 2015 náði farþegafjöldinn rétt yfir 4,8 milljónum en í ár er búist við að fjöldinn verði um 6,7 milljónir og því verður tvisvar fagnað á þessu ári, bæði nú þegar fimm milljóna múrnum er náð og svo má búast við að fjöldinn fari í fyrsta sinn yfir sex milljónir í nóvember. Fjölgun farþega hefur verið mjög hröð um Keflavíkurflugvöll, árið 2016 verður fjöldinn samkvæmt spám 37% meiri en árið 2015 og þá mun fjöldinn sem fer um flugvöllinn í ár vera rúmlega þrefalt meiri en árið 2010, þegar hann náði rétt yfir tveimur milljónum.

keflavikurflug
Heimild og mynd: isavia.is

Flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli

 Flugslysaæfing verður haldin á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 1. október á milli kl. 11-15. Æfingin er mjög umfangsmikil og munu um 450 manns taka þátt í henni. Kveiktir verða eldar, sjúkrabílar aka í neyðarakstri, björgunarsveitarbílar verða áberandi og svo framvegis. Fólk sem er á ferli um höfuðborgina mun eflaust verða vart við æfinguna.
Æfingin verður sem fyrr segir mjög umfangsmikil og margar starfseiningar koma að henni svo sem starfsmenn flugvallarins, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningsaðilar, starfsmenn sjúkrahúsa, almannavarnir, björgunarsveitir, Rauði krossinn, prestar, rannsóknaraðilar auk fjölda annarra. Flugslysaæfingar sem þessar eru haldnar á um fjögurra ára fresti á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem starfrækt er áætlunarflug.
flugslysaaefing-rvk-6-okt-026-1

Vegna yfirlýsingar um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum

Ríkisstjórn Íslands hefur eftir samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands ákveðið að ekki sé tilefni til þess að hafa í gildi yfirlýsingu um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum.

Yfirlýsing um að ríkið ábyrgðist allar innstæður var gefin eftir fjármálaáfallið haustið 2008. Innlendar innlánsstofnanir standa í dag traustum fótum, hvað snertir eigið fé, fjármögnun, lausafé eða jafnvægi í rekstri. Þá hafa ýmsar viðamiklar breytingar orðið á lagaumhverfi fjármálamarkaða á síðustu árum frá setningu neyðarlaganna árið 2008. Þar má nefna breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2010 og breytingar á lagaumhverfi fjármálamarkaða, m.a. með stofnun fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar. Þá hafa nýjar reglur tekið gildi um eigið fé bankanna þar sem gerðar eru verulega auknar kröfur um eigið fé og gæði þess.

Einnig hafa orðið breytingar á lögum um innstæðutryggingar þar sem sú vernd sem innstæðutryggingakerfið veitir er afmörkuð skýrar með áherslu á að vernda innstæður almennings.

Áfram er unnið að því að styrkja nauðsynlegt öryggisnet um fjármálamarkaði og fjölga úrræðum opinberra eftirlitsaðila og stjórnvalda til þess að grípa tímanlega inn þegar þörf krefur. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu nýs Evrópuregluverks um skilameðferð fjármálafyrirtækja sem gefur stjórnvöldum heimildir til inngripa í rekstur slíkra fyrirtækja og auðveldar þeim að koma innstæðum almennings í skjól ef aðstæður krefjast. Einnig er unnið að innleiðingu nýrra Evrópureglna um innstæðutryggingar sem munu styðja við regluverk um skilameðferð

Saman gegn sóun í Perlunni

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði sýninguna „Saman gegn sóun“ í Perlunni á föstudaginn. Á sýningunni kynntu fyrirtæki og opinberir aðilar nýjar leiðir í umhverfismálum á fjölbreyttan hátt.

Það eru Umhverfisstofnun og Fagráð um endurnýtingu og úrgang (FENÚR) sem standa fyrir sýningunni þar sem m.a. er hægt að taka þátt í ratleik, læra allt um flokkun, gramsa í gefins bókum, skoða trjátætara, ruslabíla svo fátt eitt sé nefnt.

Ráðherra sagði m.a. að ákveðna hugarfarsbreytingu þyrfti til að sporna við sóun. „Þar geta allir lagt sitt af mörkum því það er okkar allra að gera breytingar.  Með því að draga úr sóun í okkar neyslu förum við betur með auðlindir jarðar sem er lykilatriði þegar kemur að loftslagsmálum sem og öðrum umhverfismálum. Slíkt er nauðsynlegt, eins og endurspeglast í  Parísarsamkomulaginu sem Alþingi hefur núna til umfjöllunar og stefnt er að því að fullgilda á næstu dögum.“

ihw84xj4

 

Rjúpnaveiði hefst 28. október

Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir hefur ákveðið að fyrirkomulag rjúpnaveiða í ár verði með sama sniði og verið hefur undanfarin þrjú ár. Munu því veiðidagar rjúpu í ár verða tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 28. október til 20. nóvember 2016.

Leyfileg heildarveiði á rjúpum er 40.000 rjúpur og miðað við fjölda veiðimanna síðasta ár, gera það 5-6 fugla á hvern veiðimann. Áfram verður sölubann á rjúpum og er Umhverfisstofnun falið að fylgja því eftir. Að óbreyttum forsendum er lagt til að þetta fyrirkomulag haldist a.m.k. næstu þrjú ár.

Rjúpnastofninn er ekki stór um þessar mundir og mælist nokkuð minni í ár en í fyrra. Samkvæmt talningum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru því lagt til að veiddir verði um 20% færri fuglar en árið 2015. Því leggur ráðherra til óbreytt veiðifyrirkomulag í ár.

Stjórnvöld hafa það sem meginstefnu að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra lifandi auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin nota. Til að vinna að því eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og síðan rekið stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Tillaga ráðherra varðandi rjúpnaveiðar 2016 er eftirfarandi:

  • 1.     Leyfileg heildarveiði árið 2016 eru 40.000 rjúpur sbr. mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins.
  • 2.     Sölubann verður á rjúpum. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því eftir.
  • 3.     Hófsemi skuli vera í fyrirrúmi: Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og miða veiðar við 5-6 fugla pr. veiðimann. Jafnframt eru veiðimenn sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun verður falið að  hvetja til hófsemi í veiðum.
  • 4.     Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi, líkt og undanfarin ár.
  • 5.     Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:
  • Föstudaginn 28. október til sunnudags 30. október. 3 dagar.
  • Föstudaginn 4. nóvember til sunnudags 6. nóvember. 3 dagar.
  • Föstudaginn 11. nóvember til sunnudags 13. nóvember. 3 dagar.
  • Föstudaginn 18. nóvember til sunnudags 20. nóvember. 3 dagar.
  • 6.     Fyrirsjáanleiki. Lagt er til að þetta fyrirkomulag gildi áfram, þ.e. komi ekki eitthvað óvænt uppá í árlegri mælingu og rannsóknum á rjúpnastofninum eða umbætur í stjórnkerfi veiðanna, er gert ráð fyrir að fyrirkomulag veiðanna verði með þessum hætti amk. næstu þrjú ár.

130 björgunarsveitarmenn kallaðir út vegna neyðarkalls frá farþegaþotu

Mikill viðbúnaður var hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu  vegna farþegaþotu sem sendi frá sér neyðarkall laust upp úr klukkan 1100 í gærmorgun þar sem  lítið afl var í öðrum hreyfli vélarinnar. Alls tóku um 130 björgunarsveitamenn þátt í aðgerðunum sem lauk eftir að flugmenn vélarinnar lentu henni farsællega á Keflavíkurflugvelli kl 14:40.

Um borð í vélinni, sem er af gerðinni Boeing 767, voru 258 manns. Hún var á leið frá London til Edmonton í Kanada.