Eftirlit með akstri ferðamanna

Í vikunni fór Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að Skarfabakka ásamt starfsmönnum skatt- og tollstjóra en ætlunin var að hafa eftirlit með atvinnuréttindum, ökuréttindum og tilskildum starfsleyfum vegna ábendinga um brot í þeim geira.

Skemmst er frá því að segja að það sem sneri að lögreglu var í lagi og engin brot voru kærð.  Starfsmenn Ríkisskattsjóra voru með í för og könnuðu með svarta atvinnustarfsemi og mál tengdum skilum á vinnunótum.

Alls voru 64 bílstjórar stöðvaðir og athugað með réttindi þeirra. Almennt var gerður góður rómur með þessa aðgerð og samvinnu Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og Ríkisskattstjóra. Á myndinni sem fylgir með má sjá þá lögreglumenn úr Umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tóku þátt í verkefninu.

IMG_0977

 

Gefum blóð! Blóðbankinn hvetur fólk til að gefa blóð

Starfsfólk Blóðbankans vill minna blóðgjafa á þörfina fyrir blóðgjöf. Erfitt er að ná í blóðgjafa þessa dagana þar sem margir eru í sumarfríi. Virkir gjafar eru hvattir til að koma og gefa blóð til að koma í þessarri og næstu viku.

Móttaka blóðgjafa er opin:

  • Mánudaga: 11:00-19:00
  • Þriðjudaga: 08:00-15:00
  • Miðvikudaga: 08:00-15:00
  • Fimmtudaga: 08:00-19:00

Styrkir veittir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Fjórtán skólar hafa fengið styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðar, samtals að andvirði 12 milljónir króna. Styrkirnir felast í tölvubúnaði og námskeiðum fyrir kennara til að þeir séu betur í stakk búnir til að kenna nemendum sínum forritun.

Alls bárust 30 umsóknir vegna úthlutunar úr sjóðnum árið 2016, flestar frá grunnskólum. Að þessu sinni fengu eftirtaldir fjórtán skólar styrk úr sjóðnum og óskum við þeim til hamingju um leið og við hvetjum sem flesta skóla til að sækja um að ári:

Auðarskóli, Álfhólsskóli, Blönduskóli, Glerárskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskóli Vesturbyggðar, Heiðarskóli, Hvaleyrarskóli, Ingunnarskóli, Klébergsskóli, Oddeyrarskóli, Tálknafjarðarskóli, Vatnsendaskóli og Víðistaðaskóli.

Efli forritun og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum

Hlutverk sjóðsins Forritarar framtíðarinnar er að efla forritun og tæknimenntun í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Mikill uppgangur er í upplýsingatækni á Íslandi og skortur á fólki með viðeigandi menntun. Sjóðnum er ætlað að stuðla að því að börn og unglingar fá þjálfun og þekkingu á tölvutækni til að þau geti nýtt sér hana í víðum skilningi.

Landsbankinn er einn af hollvinum sjóðsins. Styrkur bankans felst annars vegar í árlegu peningaframlagi og hins vegar hefur bankinn gefið um 30 tölvur og tölvuskjái árlega. Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans, situr í stjórn stjóðsins.

Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema. Hollvinir sjóðsins eru Advania, CCP, Cyan veflausnir, Icelandair, Íslandsbanki, Landsbankinn, Samtök iðnaðarins, Síminn, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Nýherji, og Össur.

Landsbankinn hættir útgáfu og innlausn ávísana

Með tilkomu rafrænna aðferða við greiðslumiðlun hefur dregið verulega úr notkun á ávísunum, enda er rafræn greiðslumiðlun í senn einfaldari og öruggari en ávísanir. Landsbankinn hefur hætt útgáfu og sölu ávísanahefta til einstaklinga og fyrirtækja og mun hætta innlausn innlendra ávísana 15. ágúst næstkomandi.

Notkun á ávísunum hefur dregist verulega saman og sífellt færri verslanir og þjónustuaðilar taka við þeim. Landsbankinn í samvinnu við Reiknistofu bankanna vinnur nú að því að endurnýja grunnupplýsingakerfi bankans og ekki er gert ráð fyrir umsýslu með ávísanir í nýja kerfinu.

Notkun á ávísunum hefur undanfarin ár einkum verið bundin við fá fyrirtæki og stofnanir. Yfir 100.000 viðskiptavinir Landsbankans nýta sér aðrar leiðir til að greiða og millifæra.