Landmælingar Íslands 60 ára

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í gær 60 ára afmælisráðstefnu Landmælinga Íslands, sem haldin var á Akranesi. Yfirskrift ráðstefnunnar var Kortin vísa veginn.

Umfjöllunarefnið á ráðstefnunni var mikilvægi góðra korta og landupplýsinga í samfélaginu m.a. í tengslum við örnefni, leit og björgun, náttúruvá og ferðaþjónustu.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra m.a. að mikilvægi Landmælinga Íslands væri af tvennum toga. „Annars vegar búum við í þessu landi, sem alltaf er að breytast, það  teygist, lækkar og hækkar. Hér eru tíð eldgos sem breyta landi og við verðum vitni að aðstæðum eins og í Höfn í Hornafirði þar sem land er að lyftast. Hins vegar upplifum við nú gífurlegan fjölda ferðamanna sem vill sækja landið heim. Af þessum sökum þurfum við að kortleggja landið vandlega og undirbúa okkur betur fyrir það hvernig við miðlum upplýsingum um það.“

Þá afhenti ráðherra Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Landmælinga, viðurkenningu fyrir að stofnunin hefur lokið fimm grænum skrefum í ríkisrekstri, en þau votta innleiðingu vistvænna starfshátta hjá stofnunum ríkisins.  Eru Landmælingar þriðja ríkisstofnunin sem lýkur öllum fimm skrefunum.

Heimild: umhverfisraduneyti.is

Forsetaframbjóðendur skiluðu inn meðmælalistum

Yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæma norður og suður tóku við meðmælendalistum frambjóðenda til embættis forseta Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær.

Frambjóðendurnir sem skiluðu inn meðmælendalistum eru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.

Nú tekur við innsláttur og yfirferð á listunum sem skilað var inn. Meðmælendur þurfa að vera kosningabærir og ennfremur verður gengið úr skugga um að um raunverulegar undirritanir sé að ræða. Mæli einstaklingur með fleiri en einum frambjóðanda verður nafn hans fjarlægt af báðum/öllum listum.
Komi í ljós að meðmælendur falli út í þessu ferli er frambjóðanda gefinn kostur á að bæta úr því í næstu viku eða allt þar til yfirkjörstjórnir gefa út vottorð föstudaginn 20. maí nk.
Allar upplýsingar um kosningarnar má nálgast á kosningavef innanríkisráðuneytisins www.kosning.is en þar má einnig finna upplýsingar um framkvæmd kosninganna.

Hraðakstur í Grafarholti

Lögreglan myndaði 77  brot ökumanna á Reynisvatnsvegi í Reykjavík þann 6. maí síðastliðinn. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Reynisvatnsveg í austurátt, að Jónsgeisla.  Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 293 ökutæki þessa akstursleið og því ók rúmlega fjórðungur ökumanna, eða 26%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 63 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 77.

Vöktun lögreglunnar á Reynisvatnsvegi er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu.

Lars hættir eftir EM

Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, mun láta af störfum eftir EM í Frakklandi en Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, tilkynnti þetta á fjölmiðlafundi í dag.

Það hefur verið rætt um mögulegt framhald á störfum Lars með Heimi en það er nú ljóst að Lars ætlar að draga sig í hlé eftir EM.

Lars tók við íslenska landsliðinu árið 2011 og undir hans stjórn, og Heimis Hallgrímssonar, hefur landsliðið komist í umspil um sæti á HM og tryggt sér sæti í lokakeppni EM í Frakklandi.

_D3_5607

EM hópur Íslands

Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfarar, tilkynntu í dag lokahóp leikmanna sem munu leika á EM í Frakklandi.

Þjálfararnir völdu 23 leikmenn í hópinn en 6 aðrir leikmenn eru tilbúnir að koma til móts við liðið verði skakkaföll á hópnum. Þetta eru Gunnleifur Gunnleifsson, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúrik Gíslason, Viðar Örn Kjartansson og Ólafur Ingi Skúlason.

Íslenska liðið hefur leik í Saint-Etienne gegn Portúgal þann 14. júní. Næsti leikur er gegn Ungverjum í Marseille þann 18. júní en lokaleikur riðilsins er gegn Austurríki í París þann 22. júní þar sem leikið verður á Stade de France.

Lokahópurinn

Landsliðshópur Íslands á EM 2016

Nr Markmenn Fæddur Tímabil L M Félag
1 Hannes Þór Halldórsson 1984 2011-2016 32 Bodö/Glimt
12 Ögmundur Kristinsson 1989 2014-2016 10 Hammarby
13 Ingvar Jónsson 1989 2014-2016 4 Sandefjord
Varnarmenn
2 Birkir Már Sævarsson 1984 2007-2016 56 Hammarby
6 Ragnar Sigurðsson 1986 2007-2016 54 1 FK Krasnodar
14 Kári Árnason 1982 2005-2016 47 2 Malmö FF
23 Ari Freyr Skúlason 1987 2009-2016 37 OB
3 Haukur Heiðar Hauksson 1991 2015-2016 6 AIK
5 Sverrir Ingi Ingason 1993 2014-2016 4 1 KSC Lokeren
19 Hörður Björgvin Magnússon 1993 2014-2016 3 AS Cesena
4 Hjörtur Hermannsson 1995 2016 2 IFK Gautaborg
Miðjumenn
17 Aron Einar Gunnarsson 1989 2008-2016 57 2 Cardiff City FC
20 Emil Hallfreðsson 1984 2005-2016 52 1 Udinese Calcio
8 Birkir Bjarnason 1988 2010-2016 46 6 FC Basel
7 Jóhann Berg Guðmundsson 1990 2008-2016 45 5 Charlton Athletic FC
10 Gylfi Þór Sigurðsson 1989 2010-2016 37 12 Swansea City FC
18 Theódór Elmar Bjarnason 1987 2007-2016 25 AGF
16 Rúnar Már Sigurjónsson 1990 2012-2016 9 1 GIF Sundsvall
21 Arnór Ingvi Traustason 1993 2015-2016 6 3 IFK Norrköping
Sóknarmenn
22 Eiður Smári Guðjohnsen 1978 1996-2016 84 25 Molde
9 Kolbeinn Sigþórsson 1990 2010-2016 38 19 FC Nantes
11 Alfreð Finnbogason 1989 2010-2016 31 7 FC Augsburg
15 Jón Daði Böðvarsson 1992 2012-2016 20 1 1.FC  Kaiserslautern

 

Ólafur Ragnar hættir við framboð

Yfirlýsing forseta Íslands:
Í nýársávarpi mínu til íslensku þjóðarinnar 1. janúar bað ég landsmenn alla að íhuga vel lýsinguna á kjörstöðu Íslands sem var meginboðskapur ávarpsins og tilkynnti að í „ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs.“
Í kjölfar hinnar sögulegu mótmælaöldu sem reis hátt í byrjun apríl knúðu margir á um að ég breytti þessari ákvörðun og gæfi kost á mér á ný þótt ég hefði þegar gegnt embætti forseta í tuttugu ár; höfðuðu til umróts og óvissu og lítils fylgis yfirlýstra frambjóðenda.  Af skyldurækni og ábyrgð gagnvart þeim sem lengi höfðu sýnt mér mikið traust tilkynnti ég 18. apríl að ég myndi verða við þessum óskum en lýsti jafnframt yfir, að ég myndi taka því vel ef í ljós kæmi að aðrir nytu nægilegs trausts þjóðarinnar til að gegna embættinu.  Kannanir hafa síðan sýnt að fjöldi kjósenda vildi fela mér embættið á ný en það hefur líka orðið sú ánægjulega þróun að öldur mótmæla hefur lægt og þjóðmálin eru komin í hefðbundinn og friðsamlegri farveg.
 Það er nú líka orðið ljóst með atburðum síðustu daga að þjóðin á nú kost á að velja frambjóðendur sem hafa umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins; niðurstaða kosninganna gæti orðið áþekkur stuðningur við nýjan forseta og fyrri forsetar fengu við sitt fyrsta kjör.
Við þessar aðstæður er bæði lýðræðislegt og eðlilegt, eftir að hafa gegnt embættinu í 20 ár, að fylgja í ljósi alls þessa röksemdafærslu, greiningu og niðurstöðu sem ég lýsti í nýársávarpinu.  Ég hef því ákveðið að tilkynna með þessari yfirlýsingu þá ákvörðun mína að gefa ekki kost á mér til endurkjörs.  Um leið þakka ég einlæglega þann mikla stuðning sem ég hef notið og vona að allt það góða fólk sem hvatti mig til framboðs sýni þessari ákvörðun velvilja og skilning.  Þessi niðurstaða mín er studd þeirri fullvissu að þjóðin getur nú farsællega valið sér nýjan forseta og ég er, eftir langa setu hér á Bessastöðum, bæði í huga og hjarta reiðubúinn að ganga glaður til nýrra verka.

Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála stofnað

Íslenska ríkið og Samtök ferðaþjónustunnar hafa stofnað formlega sérstakt sameignarfélag utan um rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Nafn þess er Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála og er það í 50% eigu ríkissjóðs og 50% eigu Samtaka ferðaþjónustunnar.

Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur, skipaður af forsætisráðherra í kjölfar þess að samkomulag var undirritað þann 6. október sl. milli ríkisstjórnar Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2020. Stjórnstöð ferðamála tekur þó ekki með neinum hætti yfir ábyrgð og skyldur stjórnvalda eða hagsmunasamtaka greinarinnar.

Tilgangur hins nýstofnaða félags er að halda utan um starfsmannamál og almennan rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Starfsmenn félagsins skulu sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin af Stjórnstöð ferðamála í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Samtök ferðaþjónustunnar gáfu út í október 2015.

Stjórnstöð ferðamála er ætlað að starfa til ársins 2020 og var Hörður Þórhallsson ráðinn framkvæmdastjóri tímabundið til sex mánaða til að koma verkefninu af stað. Hann mun hverfa til annarra starfa og starf framkvæmdastjóra verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.

Þrjú ný ómtæki til Landspítalans

Minningargjafasjóður Landspítala færði fósturgreiningardeild Landspítala 27 milljónir króna að gjöf sem varið hefur verið til að kaupa 3 ný ómtæki.  Þau leysa af hólmi eldri tæki sem voru orðin úr sér gengin eftir notkun í meira en áratug.  Eðlileg endurnýjun á slíkum tækjum er talin vera 5 til 7 ár.

Tilefni gjafarinnar var 100 ára afmæli Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1916. Í fyrstu var hlutverk hans að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Eftir tilkomu sjúkratrygginga hefur sjóðurinn styrkt sjúklinga sem ekki geta fengið fullnægjandi læknishjálp hérlendis og þurfa að fara til sjúkradvalar í útlöndum. Frá árinu 1966 hefur Minningargjafasjóður Landspítala styrkt tækjakaup á spítalanum. Tekjur sjóðsins myndast með minningargjöfum fólks sem sendir samúðarkort gegnum Póstinn og með ávöxtun höfuðstóls.

Heimild: landspitali.is

Kiwanismenn gáfu hjartahnoðtæki í björgunarþyrlurnar

Styrktarsjóður Kiwanisumdæmisins Ísland / Færeyjar og Kiwanisklúbbarnir Elliði, Eldey, Esja, Hekla og Dyngja hafa fært bráðamóttökunni á Landspítala Fossvogi að gjöf sjálfvirkt Lucas hjartahnoðtæki, ásamt fylgihlutum, til notkunar í þyrlum Landhelgisgæslunnar.  Slík tæki hafa ekki verið í þyrlunum en Gæslan stundum fengið þau lánuð hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Hjartahnoðtækið var formlega afhent við TF-Líf á þyrlupallinum í Fossvogi þann 4. maí síðastliðinn.  Bergur Stefánsson, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, tók við tækinu fyrir hönd Landspítala, af  Birni Ágústi Sigurjónssyni, formanni stjórnar Styrktarsjóðs Kiwanisumdæmisins og Gunnsteini Björnssyni, umdæmisstjóra Kiwanishreyfingarinnar.  Með fleiri viðstaddra voru Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sem tók síðan við tækinu af spítalanum til að hafa í björgunarþyrlunum.

IMG_3432
Heimild: Landspitali.is

Menningarnótt haldin í 21. skipti í sumar

Landsbankinn og Höfuðborgarstofa hafa skrifað undir nýjan samning til þriggja ára en Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi. Allur fjárstuðningur bankans, sem samsvarar þremur og hálfri milljón kr., rennur óskertur til listamanna og skapandi einstaklinga eða hópa sem koma fram á Menningarnótt.

Áhersla á að styrkja viðburði á Grandanum

Menningarnótt verður haldin í 21. skipti þann 20. ágúst næstkomandi. Landsbankinn og Höfuðborgarstofa hafa auglýst eftir umsóknum í Menningarnætupott Landsbankans á vefnum Menningarnott.is og er umsóknarfrestur til og með 31. maí.  Í ár verður áhersla lögð á að styrkja skemmtilega og frumlega viðburði sem tengjast Grandasvæðinu við gömlu höfnina, það er þó ekki skilyrði. Veittir verða styrkir á bilinu 50.000-250.000 kr. til einstaklinga og hópa

Gakktu í bæinn!

Menningarnótt hefur fest sig í sessi sem ein helsta hátíð Reykjavíkur en á síðasta ári er talið að um 120.000 gestir hafi lagt leið sína í miðborgina þennan dag. Menningarnótt fer fram á torgum og götum, í bakgörðum og söfnum, í fyrirtækjum og heimahúsum.  Yfirskrift hátíðarinnar er „gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti. Menningarnótt er þátttökuhátíð sem byggir á framlagi fjölda aðila sem standa að menningarlífi í borginni og annarra sem nota þetta tækifæri til að setja svip sinn á borgarlífið