Má merkja íslenskar vörur með þjóðfánanum

Alþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Samkvæmt lögunum er nú heimilt, án sérstaks leyfis, að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum.

Tilgangur laganna er að auka möguleika framleiðenda vöru til koma íslenskum uppruna hennar á framfæri við markaðssetningu erlendis og hér á landi, þar á meðal gagnvart erlendum ferðamönnum. Þau sjónarmið búa jafnframt að baki lögunum að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um lögunum.

Eftirlit með framkvæmd laganna verður á hendi Neytendastofu.

Hagkvæmnisathugun uppbyggingu Laugardalsvallar

KSÍ gerði í vikunni samkomulag við Lagardére sports og Borgarbrag um hagkvæmnisathugun á frekari uppbyggingu Laugardalsvallar.  Samkvæmt samkomulaginu, sem kynnt var á fjölmiðlafundi í höfuðstöðvum KSÍ, er gert ráð fyrir að aðilar skili KSÍ skýrslu í lok ágúst 2016.

Síðastliðið haust vann ráðgjafafyrirtækið Borgarbragur for-hagkvæmnisathugun, sem m.a. var kynnt á ársþingi KSÍ, og í kjölfarið hefur KSÍ ákveðið að fara í formlega hagkvæmnisathugum með Borgarbrag og Lagardére Sports.

Lagardére Sports hefur víðtæka reynslu á þessu sviði og hefur fyrirtækið starfað að mörgum verkefnum af mismunandi stærðargráðum víðs vegar um heiminn.  Á meðal verkefna fyrirtækisins má nefna 7 af þeim 9 leikvöngum sem leikið verður á í úrslitakeppni EM 2016 í Frakklandi í sumar.

Staekkun-L-vallar-20-april-2016

Björgunarlykkjur settar upp á 100 stöðum í sumar

Auka má öryggi ferðafólks mikið með uppsetningu og kynningu björgunarlykkju, svokölluðu Björgvinsbelti, við áfangastaði þar sem hætta getur verið á drukknun; við sjó, vötn og ár. Því hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg, aðalstyrktaraðili þess, Sjóvá og Vegagerðin tekið höndum saman um að setja upp slíkan öryggisbúnað víða, í fyrsta áfanga á 100 stöðum í sumar.

Vinnuhópur á vegum SL, Sjóvár og Vegagerðarinnar áhættugreindi og forgangsraðaði stöðum við þjóðvegi landsins með tilliti til drukknunarhættu. Þessir 100 staðir, sem fjölsóttir eru af íbúum og erlendu sem innlendu ferðafólki, voru settir í fyrsta forgang og hafist verður handa við að setja upp björgunarlykkjur á þeim í þessum mánuði. Vegagerðin mun taka að sér uppsetninguna. Einnig er í bígerð að gefa búnað í lögreglubifreiðar og til slökkviliða.

Er það von þeirra sem að verkefninu standa að með þessum búnaði megi auka öryggi við sjó, vötn og ár.

 Helstu atriði:
 • Aukið öryggi íbúa og ferðafólks við sjó, vötn og ár
 • Samstarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sjóvár og Vegagerðarinnar
 • 100 staðir í fyrsta forgangi,
 • Fyrstu björgunarlykkjurnar komnar upp við Jökulsárlón

 

 

 

Nánari upplýsingar veitir:

 • Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í síma 897 1757.

Verulegur sparnaður í sameiginlegu útboði ríkisstofnana

Verulegur sparnaður náðist í nýafstöðnu sameiginlegu útboði stofnana ríkisins á tölvum og ljósritunarpappír. Niðurstaða fyrsta sameiginlega útboðsins á tölvum liggur nú fyrir og er veittur afsláttur um 50% miðað við listaverð seljenda og innkaupsverð 27% lægra en besta verð sem ríkinu hefur áður boðist. Ljóst er að sá ávinningur sem náðst hefur er verulegur og heildarsparnaður í tilviki sumra stofnana er enn meiri en framangreindar tölur gefa til kynna þar sem þær njóta nú magnafsláttar vegna sameiginlegra innkaupa en áttu ekki kost á slíkum afslætti áður.

Átta stofnanir tóku þátt í örútboðinu. Þessar stofnanir eru Ríkisskattstjóri, Fjársýsla ríkisins, Tollstjóri, Rekstrarfélag stjórnarráðsins, f.h. ráðuneyta, Seðlabanki Íslands, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Ríkiskaup.

Sameiginlegt útboð á ljósritunarpappír fyrir 14 stofnanir fór einnig fram fyrir skömmu. Niðurstaða þess útboðs var 55% afsláttur miðað við listaverð seljenda.

Aukin hagkvæmni í opinberum innkaupum hefur verið eitt af forgangsmálum fjármála-  og efnahagsráðuneytisins. Umfang innkaupa ríkisins er um 140 milljarðar króna á ári en þar af kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Með hagkvæmum innkaupum er ætlað að spara megi allt að 2-4 milljarða króna á ári.

Vinnu við að greina og gera tillögur um bætt vinnubrögð í innkaupum ríkisaðila lauk á síðasta ári og í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn sem var falið að koma á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana með það að markmiði að nýta stærðarhagkvæmni ríkisins sem kaupanda. Í framhaldi af því var ákveðið að öll innkaup stofnana ríkisins á tölvum á árinu 2016 verði gerð í sameiginlegum útboðum innan gildandi rammasamnings.

Verkefnisstjórnin um sameiginleg innkaup vinnur áfram að framkvæmd nýrra sameiginlegra útboða fyrir stofnanir ríkisins. Annað sameiginlegt útboð á tölvum fyrir stofnanir ríkisins er á lokastigi og verður auglýst nú í apríl. Þá er einnig unnið að fleiri sambærilegum verkefnum t.d. útboði á raforku, hugbúnaðarleyfum, tölvuskjám og flugmiðum.

Heimild: .fjarmalaraduneyti.is.

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2016

Aðalfundur Landsbankans vegna rekstrarársins 2015 fór fram í Hörpu 14. apríl síðastliðinn. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf.

Fundurinn samþykkti tillögu bankaráðs um að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2015 sem nemur 1,2 krónum á hlut eða um 28,5 milljarðar króna. Arðurinn skal greiddur í tveimur jöfnum greiðslum og skal gjalddagi fyrri greiðslu vera 20. apríl 2016 og gjalddagi síðari greiðslu vera 21. september 2016. Arðgreiðslan samsvarar um 80% af hagnaði bankans árið 2015.

Aðalfundurinn samþykkti heimild þess efnis að Landsbankinn hf. eignist eigin hluti, allt að 10% af nafnverði hlutafjár. Lægsta og hæsta fjárhæð sem bankinn má reiða fram sem endurgjald fyrir hvern hlut skal vera bókfært virði hvers hlutar, þ.e. samsvara hlutfalli á milli eigin fjár sem tilheyrir hluthöfum bankans og hlutafjár, samkvæmt síðasta birta ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri áður en kaup á eigin hlutum fara fram. Ráðstöfun Landsbankans á eigin hlutum sem keyptir verða á grundvelli þessarar heimildar er háð samþykki hluthafafundar. Samsvarandi heimild var samþykkt á aðalfundi 2015.

Starfskjarastefna og þóknun til bankaráðsmanna breytast ekki frá fyrra ári.

Þá fól fundurinn bankaráði að setja í starfsreglur sínar ákvæði um samkeppnislegt sjálfstæði Landsbankans hf. gagnvart öðrum viðskiptabönkum í eigu ríkisins.

Allar nánari upplýsingar um niðurstöður aðalfundar bankans má nálgast á www.landsbankinn.is/adalfundur. Þar má finna skýrslu bankaráðs, kynningu bankastjóra og önnur gögn sem fram voru lögð á fundinum. Þá verður fundargerð einnig gerð aðgengileg á vef bankans.

Heimild: Landsbankinn.is

Höfuðstöðvar Íslandsbanka flytjast í Kópavog

Á stefnufundi starfsmanna Íslandsbanka sem fram fór fyrr í dag var tilkynnt að höfuðstöðvar Íslandsbanka munu á haustmánuðum flytjast í Norðurturninn í Kópavogi frá Kirkjusandi þar sem höfuðstöðvar bankans hafa verið undanfarin 20 ár. Með þessari breytingu verður starfsemi höfuðstöðva, sem í dag fer fram á fjórum stöðum, sameinuð undir einu þaki þar sem 650 starfsmenn munu starfa. Mikil hagkvæmni fylgir sameiningunni en samanlagður fermetrafjöldi höfuðstöðvastarfsemi fer úr 13.900 í 8.600 fermetra í Norðurturninum.

Nýtt útibú bankans mun jafnframt opna á 1. hæð Norðurturnsins í nóvember en sú vinna hefur staðið yfir undanfarna mánuði.

Eins og komið hefur fram áður hafa fundist rakaskemmdir í höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi. Viðamiklar rannsóknir hafa staðið yfir á húsnæðinu ásamt því að það hefur verið hreinsað með það að markmiði að lágmarka áhrif á starfsfólk. Fylgst er vel með loftgæðum í húsinu sem koma vel út en ljóst er að fara þarf í töluverðar endurbætur á húsnæðinu.

Heimild: islandsbanki.is

 

Ríkisstjórnin kemur til móts sveitarfélög vegna flóða og óveðurs

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, að veita eftirfarandi sveitarfélögum og stofnunum fjárstyrk af óskiptum fjárheimildum ríkisins á árinu 2016 til að mæta óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum þeirra vegna brýnustu viðbragða og framkvæmda í kjölfar óveðursins og sjávarflóða í lok síðasta árs og vegna afleiðinga síðasta Skaftárhlaups:

 • Fjarðabyggð 46,3 m.kr.
 • Breiðdalshreppur 13,7 m.kr.
 • Borgarfjörður Eystri  1,5 m.kr.
 • Djúpavogshreppur 1,7 m.kr.
 • Vegagerð ríkisins 181,2 m.kr.
 • Minjastofnun Íslands/Húsafriðunarsjóður allt að 35 m.kr.
 • Landgræðsla ríkisins 40 m.kr. vegna afleiðinga síðasta Skaftárhlaups

„Ljóst er að fjárhagslegt tjón sveitarfélaga var þó nokkurt og erfitt fyrir þau að takast á við það án stuðnings. Hafnarmannvirki, grjótvarnir, veitukerfi, vegir og fleira sem tryggingar ná ekki yfir urðu fyrir skemmdum í sveitarfélögum á Austurlandi. Þá olli Skaftárhlaup miklum búsifjum og nauðsynlegt að bregðast við til að hefta sandfok og svifryksmengun,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.

Í kjölfar óveðurs og sjávarflóða á Austfjörðum í lok síðasta árs hefur samráðshópur ráðuneytisstjóra fjögurra ráðuneyta haldið stöðufundi með aðilum sem að málum hafa þurft að koma vegna afleiðinga, brýnna aðgerða og mati á samfélagslegum kostnaði heildrænt því samfara. Með hópnum störfuðu fulltrúar frá Viðlagatryggingu Íslands og fulltrúar frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Minjastofnun Íslands og Ofanflóðasjóði. Samráðshópurinn hefur einnig fjallað um þörf á viðbrögðum í kjölfar síðasta Skaftárhlaups. Upplýsingar voru fengnar frá Landgræðslu ríkisins sem og Veðurstofu Íslands vegna hættumats vegna Skaftárhlaupa um kostnað við brýnustu landgræðsluframkvæmdir.

Tjónamat á vátryggðum, tilkynntum og metnum tjónum til Viðlagatryggingar Íslands nema um 70 m.kr. vegna tjónamála hjá einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Örfá tjónamál eru enn í vinnslu, en fjárhæðir þeirra munu að líkindum hafa óveruleg áhrif á heildarkostnað.

Heimild: stjornarad.is

Framhaldsskólanám með áherslu á hljóðfæraleik og söng

Ríkisstjórnin hefur að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra samþykkt að settur verði á laggirnar framhaldsskóli sem býður upp á sérhæfingu í tónlist.

Skólanum er ætlað að bjóða upp á framhaldsskólanám með áherslu á  hljóðfæraleik og söng samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla, þannig að nemendur ljúki  stúdentsprófi af tónlistarbraut.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú í samstarfi við Ríkiskaup  að undirbúningi auglýsingar eftir aðilum til að setja á fót og reka slíkan skóla, en fyrirhugað er að gera samning  um kennslu allt að 200 nemenda sem þreyta inntökupróf. Inngöngu í skólann geta fengið nemendur annarra framhaldsskóla standist þeir inntökuprófið.

 Samkomulag um stuðning ríkisins við tónlistarnám á vegum sveitarfélaga

Áfram er gert ráð fyrir samkomulagi til þriggja ára milli ríkis og sveitarfélaga um aðkomu ríkisins að tónlistarnámi á vegum sveitarfélaga fyrir aðra nemendur á framhaldsstigi í tónlist en með því að hluti nemendahópsins færist til listframhaldsskólans verður Jöfnunarsjóði gert kleift að hækka framlag fyrir hverja kennslueiningu og færa nær raunkostnaði tónlistarskólanna.

Miðað er við að skólastarf hefjist á skólaárinu 2016-2017 með innritun nemenda af landinu öllu, óháð lögheimili.

Gert er ráð fyrir að skólinn verði rekinn á forsendum laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, þ.e. á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneyti.  Lagagrundvöllur fyrir rekstur listframhaldsskóla á sviði tónlistar byggist á 12. gr. sömu laga og að námið verði viðurkennt skv. 23. gr., þar sem lokamarkmið námsins eru skilgreind á 2. – 4. hæfniþrepi, sem felur m.a. í sér tónlistarnámsbraut til stúdentsprófs

Ný Ríkisstjórn

Á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í dag féllst forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á tillögu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að veita ráðuneyti hans lausn frá störfum.

Á öðrum fundi ríkisráðs féllst forseti Íslands á tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar um skipun fyrsta ráðuneytis hans og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra.

Í nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar eru 10 ráðherrar.

Ráðherrar nýju ríkisstjórnarinnar eru:

 • Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra
 • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
 • Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
 • Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra
 • Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 • Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
 • Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 • Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
 • Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra
 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra

Sumarstörf á Laugardalsvelli

Laugardalsvöllur leitar eftir sumarstarfsfólki fyrir sumarið 2016. Starfið er krefjandi og fjölbreytt og snýr að vallarsvæði Laugardalsvallar, almennri umhirðu þess og viðhaldi. Frábært væri að umsækjendur gætu byrjað snemma í maí og unnið fram í október. Annars er hægt að semja um vinnutímabil ef þess þarf.

Æskilegt er að umsækjendur séu á aldrinum 20-30 ára og vera tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu yfir sumarmánuðina og fram á haust. Tilvalið starf með skóla.

Starfið byggist á dagvinnu og mikilli yfirvinnu á kvöldin og um helgar í kringum frjálsíþróttamót,  knattspyrnuleiki og aðra viðburði á vellinum.

Umsókninni skal fylgja ferilskrá, hvenær viðkomandi getur hafið störf og almennar upplýsingar um viðkomandi.

Áhugsamir um þetta starf og frekari upplýsingar er hægt að finna með að senda póst á kristinn@ksi.is

Umsóknarfrestur er til hádegis 15. apríl 2016.

Wizz Air bætir við áfangastöðum frá Íslandi

Ungverska flugfélagið Wizz Air hefur hafið flug á milli Keflavíkurflugvallar og Budapest í Ungverjalandi. Budapest er annar áfangastaður Wizz Air frá Íslandi en félagið flýgur einnig til Gdansk í Póllandi. Í maí á þessu ári bætir félagið þriðja áfangastaðnum við, Varsjá í Póllandi. Flogið verður tvisvar í viku til Budapest, á miðvikudögum og sunnudögum, allt árið um kring.

Wizz Air er sem áður segir ungverskt flugfélag og stærsta lággjaldaflugvélagið í Mið- og Austur-Evrópu. Félagið hóf flug á milli Gdansk og Keflavíkurflugvallar í júní í fyrra, fyrst tvisvar í viku en fjölgaði ferðum fljótlega upp í þrjár. Nú bætist annar áfangastaðurinn við og sá þriðji, Varsjá, í maí. Það er því ljóst að félagið bindur miklar vonir við Ísland sem áfangastað.

wizzair

Almenningssvæði í Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg óskar eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að taka almenningssvæði í borginni í fóstur og gæða þau meira lífi. Þetta er hluti af verkefninu Torg í biðstöðu sem snýst um að endurskilgreina svæði í borginni sem ekki eru fastmótuð til framtíðar.

Í ár er einkum leitað eftir verkefnum sem lífga svæði við með auknu mannlífi, en það gætu verið markaðir, leikir eða annað sem dregur fleiri borgarbúa út undir bert loft. Hóparnir sem taka að sér verkefni finna tímabundnar og skemmtilegar lausnir á sínu svæði og kanna möguleika þeirra með tilraunum.
Biðsvæðunum er úthlutað til hópa og einstaklinga. Verkefnin eiga að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin til framtíðar. Þau standa að jafnaði yfir frá maí til september ár hvert og er þeim ætlað að skapa skemmtilegri torg í lifandi borg.
Eftirfarandi eru dæmi um svæði sem hægt er að sækja um, en einnig er frjálst að sækja um önnur svæði:
 • Bernhöftstorfa.
 • Fógetagarður.
 • Óðinstorg.
 • Vitatorg.
 • Rými við og/eða á göngugötum í miðborginni.
Umsækjendur eru einnig hvattir til þess að sækja um önnur svæði sem ekki eru á listanum eða minni tímabundin verkefni. Í sumum tilvikum verður hópum falið að vinna með önnur torg en þeir sóttu um.
Hægt er að sækja um til 7. apríl 2016 og valið verður úr umsækjendum fyrir 18. apríl. Gert er ráð fyrir því að verkefnin verði tilbúin fyrir miðjan maí. Umsóknir skal merkja „umsókn um biðsvæði“ og senda á Hildi Gunnlaugsdóttur,  netfang hildurg@reykjavik.is.
Nánari upplýsingar um verkefnið Torg í biðstöðu má finna á vefsíðunni reykjavik.is/bidsvaedi.