Viltu reka hjólaleigu í Reykjavík?

Reykjavíkurborg auglýsir eftir hugmyndum að rekstri á hjólaleigum í Reykjavík. Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa í forvali eftir áhugasömum aðilum til að koma á fót og reka hjólaleigu í Reykjavík.  Aðkoma borgarinnar verður fyrst og fremst fólgin í að skapa aðstöðu og leggja til borgarland, en sérhæfðum aðilum látið eftir að sjá um uppsetningu og allan rekstur.

Tilgangur hjólaleiga er að veita fólki aðgang að hjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna og styðja þannig við markmið um vistvænar samgöngur. Þjónustan mun gagnast almennum borgurum, innlendum og erlendum ferðamönnum og starfsmönnum fyrirtækja.
Þeir sem vilja taka þátt í forvali og koma til greina sem þátttakendur í mögulegu útboði eru beðnir um að senda tölvupóst á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sea@reykjavik.is í síðasta lagi 8. apríl.
Auk upplýsinga um þátttakanda, hvort heldur einstakling eða lögaðila, er óskað eftir lýsingu á hvernig viðkomandi sér reksturinn fyrir sér.
Sérstaklega er óskað eftir lýsingu á eftirfarandi þáttum:
 • Hugmyndir um fjölda hjóla og leigustöðva
 • Lýsing á tæknilegum lausnum sem boðið er upp á.
 • Hugmyndum að staðsetning stöðva á borgarlandi, ef það er hluti af hugmyndinni.

Nánari upplýsingar: Hugmyndaleit – forval: Hjólaleiga í Reykjavík

Fréttamenn á Barnamenningarhátíð

Býr í þér fréttamaður?

Reykjavíkurborg og KrakkaRÚV bjóða tíu ungmennum úr 8. – 10. bekk að gerast fréttamenn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 19. – 24. apríl.

Miðlun

KrakkaRÚV býður upp á námskeið þar sem farið er yfir fréttaskrif, framsögn, viðtalstækni, internetið og tækni. Margir reynsluboltar innanhúss miðla af reynslu sinni. Námskeiðið er haldið 12. apríl frá 15:00 – 18:00 og og 14. apríl kl. 15:00 – 18:00.

Segðu frá

Hópurinn fær svo tækifæri í kjölfarið til að fjalla um hátíðina í máli og myndum og munu fréttirnar birtast á KrakkaRÚV, RÚV.is og í Krakkafréttum.

Hægt er að sækja um á krakkaruv.is.

Stóra upplestrarkeppnin í Laugardal og Háaleiti

Stóru upplestrarkeppninni í Laugardal og Háaleiti lauk fyrir páska í skemmtilegum úrslitum.   Sigurvegarar í keppninni í þessu hverfi voru þau Ragnar Björn Ingvarsson úr Laugalækjarskóla sem fékk fyrstu verðlaun, Dögg Magnúsdóttir í Fossvogsskóla sem hreppti önnur verðlaun og Ísabella Tara Antonsdóttir úr Háaleitisskóla sem varð í þriðja sæti.

lesarar_og_varamenn_laugard_og_haaleiti

Gæsluvallarhús við Rauðalæk til leigu

Reykjavíkurborg býður dagforeldrum að taka á leigu gæsluvallarhúsið við Rauðalæk.  Húsið sem er 55,7 fermetra gæsluvallarhús hefur verið nýtt af dagforeldrum síðustu ár en núverandi leigutaki mun losa húsnæðið 1. júní og er húsnæðið til leigu frá þeim tíma.  Húsnæðið verður eingöngu leigt þeim sem hyggst nýta húsnæðið til daggæslu barna að uppfylltum skilyrðum Leikskóla Reykjavíkur.

Væntanlegum leigutaka er heimil afnot lóðar, en þó er kveðið á um það í drögum að leigusamningi að útisvæði og leiktæki gæsluvallarins skuli vera opin almenningi á starfstíma daggæslunnar sem og utan hans en án ábyrgðar leigutaka.

Sækja verður um fyrir kl. 10.30 fimmtudaginn 31. mars 2016.
Nánari upplýsingar í auglýsingu: Gæsluvallarhús við Rauðalæk 21A til leigu
ljosmynd_gaesluvollur_vid_raudalaek

Opinn fundur um inntöku nýnema í framhaldsskóla

SAMFOK býður 10. bekkingum á höfuðborgarsvæðinu og foreldrum þeirra til fundar um inntöku nýnema í framhaldsskóla í haust. Fulltrúar allra framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu hafa tilkynnt þátttöku í pallborði svo hér er einstakt tækifæri til að ræða málin og spyrja um það sem á ykkur brennur. Fundurinn verður í Menntaskólanum í Hamrahlíð fimmtudaginn 31. mars. kl. 19.30-22.00

Fundarstjóri verður Brynhildur Sigurðardóttir skólastjóri í Garðaskóla. Flutt verða stutt erindi og síðan verður gefinn rúmur tími til umræðna, fulltrúar allra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu hafa boðað komu sína í pallborð.

Dagskrá:
Ávarp: Birgitta Bára Hassenstein formaður SAMFOK
Erindi: Birta Björg Heiðarsdóttir, Guðjón Þór Jósefsson
og Þórdís Dóra Jakobsdóttir nemendur í Laugalækjarskóla
Oddný Hafberg aðstoðarskólameistari Kvennaskólans í Reykjavík
Lárus H Bjarnason rektor Menntaskólans við Hamrahl
Kristrún Birgisdóttir sérfræðingur á Menntamálastofnun

Kaffihlé og pallborðsumræður:
Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar
Birta Björg Heiðarsdóttir, Guðjón Þór Jósefsson og
Þórdís Dóra Jakobsdóttir nemendur í Laugalækjarskóla
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari Fjölbrautarskólans í Breiðholti
Helene H Pedersen, áfangastjóri bóknáms í Menntaskólanum í Kópavogi
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík
Ingi Bogi Bogason, aðstoðarskólameistari Borgarholtsskóla
Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands
Jón Eggert Bragason, skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautarskólans í Garðabæ
Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur á Menntamálastofnun
Lárus H Bjarnason, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð
Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund
Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautarskólans í Ármúla
Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík
Þorbjörn Rúnarsson, áfangastjóri Flensborgarskóla
Þór Pálsson, aðstoðarskólameistari Tækniskólans í Reykjavík

Ertu-kár-SMAFOK_plakat-25x412cm_framh-sk_03-4

U-17 stelpurnar gegn Serbíu

Stelpurnar í U17 landslið Íslands í knattspyrnu luku í dag leik í milliriðli EM en hann fór fram í Serbíu að þessu sinni.  Leikið var gegn heimastúlkum í dag sem höfðu öruggan sigur, 5 – 1.  Íslenska liðið hafnaði því í þriðja sæti riðilsins, á eftir Englendingum og Serbum en á undan Belgum.

Heimastúlkur byrjuðu af krafti og komust yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik.  Jafnræði var svo nokkuð í leiknum en tvo mörk Serba á 31. og 39. mínútu gerðu þetta að mjög brattri brekku fyrir okkar stúlkur og þriggja marka munur í leikhléi.

Serbar bættu við tveimur mörkum í seinni hálfleik áður en Agla María Albertsdóttir minnkaði muninn en þar við sat.

Sem fyrr segir þá hafa íslensku stelpurnar lokið keppni að þessu sinni en liðið vann Belga í fyrsta leik en tapaði gegn Englandi og Serbíu.  Þriðja sætið staðreynd en England hefur tryggt sér farseðil í úrslitakeppninni og Serbar eygja ennþá von um að komast með bestan árangur í öðru sæti riðlanna.

Heimild: ksi.is

Landsleikur í knattspyrnu við Grikki

A landslið karla í knattspyrnu leikur í dag, þriðjudag, vináttulandsleik við Grikki og hefst hann klukkan 17:30 að íslenskum tíma. Leikurinn er hluti af undirbúningi liðsins fyrir EM í Frakklandi en Ísland lék á dögunum við Dani og tapaði 2-1.

Ísland hefur einungis tvisvar mætt Grikkjum en það var í undankeppni HM 1994. Fyrri leikur liðanna fór 1-0 fyrir Grikki í Grikklandi og seinni leikurinn endaði einnig með 0-1 sigri Grikkja, á Laugardalsvelli.

Leikurinn hefst klukkan 17:30 og er hann í beinni á RÚV.

Sigurður Guðjónsson skipaður forstjóri

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað Sigurð Guðjónsson forstjóra Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafastofnunar hafs og vatna frá og með 1. apríl 2016. Um er að ræða nýja stofnun sem tekur til starfa þann 1. júlí 2016 við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Til að leggja mat á hæfni þeirra sem sóttu um starfið skipaði ráðherra þriggja manna nefnd sér til ráðgjafar. Í nefndinni áttu sæti Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri, Gunnar Stefánsson, prófessor og Kristján Andri Stefánsson, sendiherra. Nefndin mat tvo umsækjendur mjög vel hæfa og var Sigurður annar þeirra.

Sigurður lauk BSc. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og MSc. prófi frá Dalhousie háskólanum í Halifax árið 1983. Þá lauk hann doktorsprófi í fiskifræði frá Oregon State University. Hann hefur verið aðalhöfundur og meðhöfundur að yfir 20 ritrýndum vísindagreinum sem birst hafa í viðurkenndum erlendum tímaritum. Sigurður hefur mikla reynslu af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og hefur haldið fjölmarga fyrirlestra á ráðstefnum hér heima og erlendis. Sigurður hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri sem forstöðumaður Veiðimálastofnunar frá árinu 1997.

forstjoriHeimild: hafro.is

Bætt öryggi ferðamanna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi þann 23. mars síðastliðinn tillögur Stjórnstöðvar ferðamála um aðkallandi aðgerðir á árinu 2016 til að bæta öryggi ferðamanna og um leið almennings í landinu. Aðgerðirnar snúa að málefnasviðum á vettvangi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra og skulu þeir setja þær í forgang og beita sér fyrir því að stofnanir á þeirra málefnasviðum hliðri til eins og frekast er unnt til að tryggja framgang umræddra verkefna.

Tillögurnar sem samþykktar voru eru afrakstur markvissrar vinnu starfshóps undir forystu Stjórnstöðvar ferðmála. Markmið hópsins var að móta hnitmiðaðar tillögur sem myndu skila sem mestum árangri og hægt væri að framkvæma á árinu.  Að tillögugerðinni komu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, lögreglunni, Landsbjörgu, Vatnajökulsþjóðgarði, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Félagi leiðsögumanna, SAF og Ferðamálastofu.

 • Brýnar úrbætur á 24 ferðamannastöðum sem eru fjölsóttir og taldir varasamir.
 • Staðirnir eru: Arnarstapi, Dettifoss, Djúpalónssandur, Dyrhólaey, Geysir, Goðafoss, Grjótagjá og Stjóragjá, Gullfoss, Gunnuhver, Fjaðrárgljúfur, Jökulsárlón, Ketubjörg, Kolugljúfur, Krísuvíkurbjarg, Látrabjarg, Námaskarð/Leirhnjúkur, Reykjadalur, Reynisfjara, Seljalandsfoss, Seltún, Skógafoss, Sólheimajökull, Svínafellsjökull, Víti/Askja/Drekagil.

Aukin varsla á svæðum undir álagi til að auka öryggi

 • Tillagan gerir ráð fyrir að landvörðum verði fjölgað en þeir gegna lykilhlutverki við aðstoð, upplýsingagjöf og eftirlit vegna þekkingar þeirra á staðháttum.  Árið 2013 voru landvarðavikur á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar u.þ.b. ein landvarðavika fyrir hverja 1.000 ferðamenn en verða að óbreyttu, ef spár um fjölda erlendra ferðamanna nær fram að ganga, um ein vika fyrir hverja 1.780 ferðamenn. Ljóst er að miðað við spá um fjölgun ferðamanna verður að fjölga landvörðum og forgangsraða eftir hættusvæðum.
 • Tillögurnar fela í sér að landvörðum fjölgi þannig að það verði ein landvarðavika fyrir hverja 1.370 ferðamenn árið 2016. Alls er þannig gert ráð fyrir um 30% aukingu í landvörslu á svæðum í umsjón Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar.

Löggæsla

 • Yfir sumarmánuðina verður eftirlit lögreglu aukið á fjórum svæðum; á hálendinu, á Suðurlandi, á Norðurlandi Eystra og á Suð- Austurlandi. Þá verður löggæsla í uppsveitum Árnessýslu og á ferðaleiðinni Gullna hringnum aukin allt árið.

Öryggi á vegum

 • Lögð verður sérstök áhersla á að auka öryggi og vetrarþjónustu að fjölförnustu ferðamannastöðunum. Forgangsröðunin tekur mið af umferðarþunga, mati á hættu og fjölda útkalla vegna ferðamanna en markmiðið er að auka umferðaröryggi bæði á þjóðvegum og ferðamannaleiðum.

Bætt upplýsingagjöf og forvarnir

 • Markmiðið með góðri upplýsingagjöf, eftirliti og forvörnum er að hindra slys og óhöpp í stað þess að bregðast við þeim. Verkefnin sem um ræðir eru að styrkja hálendisvakt Landsbjargar, fjölga upplýsingaskjám SafeTravel, setja upp upplýsingaskjá í Leifsstöð, efla fræðslu og kynningarstarf á vegum Landsbjargar (SaveTravel), endurbæta og halda áfram að prenta stýrisspjöld í bílaleigubíla.

 

Helstu dagsetningar í aðdraganda forsetakosninganna

Helstu dagsetningar í aðdraganda forsetakosninganna 25. júní 2016 eru þessar:

30. apríl  Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má hefjast innan lands og utan.
1. – 10. maí Yfirkjörstjórnir auglýsa hvar og hvenær þær taka við meðmælendalistum til staðfestingar á kosningabærni meðmælenda, sbr.. 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands.
 20. maí Framboðsfrestur rennur út um miðnætti. Framboðum skal skilað til innanríkisráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir.
 27. maí Innanríkisráðuneytið auglýsir í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir verða í kjöri eigi síðar en þennan dag eftir að hafa afhent Hæstarétti Íslands öll fram komin framboðsgögn.
 4. júní Atkvæðagreiðsla má hefjast í sjúkrahúsum, fangelsum, á dvalarheimilum aldraðra og fatlaðs fólks og í heimahúsum fyrir kjósendur vegna sjúkdóma, fötlunar og barnsburðar. Kjörstjórar á hverjum stað auglýsa sérstaklega hvar og hvenær atkvæðagreiðsla fer fram.
4. júní Viðmiðunardagur kjörskrár. Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, 4. júní. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.
 13. júní Innanríkisráðuneytið auglýsir, eigi síðar en þennan dag, framlagningu kjörskráa í Ríkisútvarpi og dagblöðum.
 15. júní Sveitarstjórnir skulu leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis á skrifstofu sinni eða á öðrum hentugum stað eigi síðar en þennan dag. Kjörskrá skal liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags.*
 25. júní  Kjördagur**

* Kjörskrár skulu liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Sveitarstjórnir taka við athugasemdum við kjörskrár og gera má leiðréttingar á þeim fram á kjördag.

** Kjörfundur hefst á tímabilinu kl. 9 árdegis til kl. 12 á hádegi og skal slitið eigi síðar en kl. 22.

dbcc7a268be81b7c

Heimild: kosning.is

Forsetakosningar á Íslandi

Sjötti forseti Íslands verður kosinn þann 25. júní næstkomandi. Þrettán hafa þegar boðið sig fram til forseta en þeir eru:


1944-1952

Sveinn Björnsson var fyrst kjörinn forseti Íslands á Alþingi 1944. Var hann þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu tvisvar, árið 1945 og aftur 1949.

 1952-1968

Ásgeir Ásgeirsson var fyrst kjörinn forseti 1952 og hlaut þá 32.924 atkvæði eða 46,7% greiddra atkvæða. Mótframbjóðendur hans voru Bjarni Jónsson, sem hlaut 31.045 atkvæði eða 44,1% og Gísli Sveinsson sem hlaut 4.255 atkvæði eða 6,0% greiddra atkvæða. Auðir og ógildir seðlar voru 2.223 talsins eða 3,2%.

Ásgeir var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1956, 1960 og 1964.

1968-1980 

Kristján Eldjárn var fyrst kjörinn forseti 1968 og hlaut hann 67.544 atkvæði eða 65% greiddra atkvæða. Mótframbjóðandi hans var Gunnar Thoroddsen sem hlaut 35.428 atkvæði eða 34,1%. Auðir og ógildir seðlar voru 918 talsins eða 0,9%.

Kristján var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976.

1980-1996

Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti 1980 með 43.611 atkvæðum eða 33,6% greiddra atkvæða. Mótframbjóðendur hennar voru þeir Guðlaugur Þorvaldsson, sem hlaut 41.700 atkvæði eða 32,2%, Albert Guðmundsson sem hlaut 25.599 atkvæði eða 19,8% og Pétur J. Thorsteinsson sem hlaut 18.139 atkvæði eða 14,0%. Auðir og ógildir seðlar voru 546 talsins eða 0,4%.

Vigdís var endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984 en 1988 kom fram mótframboð gegn henni. Í kosningum þá hlaut Vigdís 117.292 atkvæði eða 92,7% greiddra atkvæða en mótframbjóðandi hennar, Sigrún Þorsteinsdóttir hlaut 6.712 atkvæði eða 5,3%. Auðir og ógildir seðlar voru 2.531 talsins eða 2,0%.

Vigdís var endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1992.


1996-2016

Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti árið 1996 með 68.370 atkvæðum eða 40,86% greiddra atkvæða. Mótframbjóðendur hans voru Pétur Kr. Hafstein sem hlaut 48.863 atkvæði eða 29,20%, Guðrún Agnarsdóttir sem hlaut 43.478 atkvæði eða 26,04% og Ástþór Magnússon sem hlaut 4.422 atkvæði eða 2,64%. Auðir seðlar og ógildir voru 2.101 eða 1,26%.

Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 2000 en 2004 kom fram mótframboð. Í þeim kosningum hlaut Ólafur Ragnar 90.662 atkvæði eða 67,5% greiddra atkvæða, Baldur Ágústsson hlaut 13.250 atkvæði eða 12,5% og Ástþór Magnússon Wium hlaut 2.001 atkvæði eða 1,5%. Auðir seðlar og ógildir voru 28.461 eða 21,2%. Árið 2008 var Ólafur Ragnar Grímsson endurkjörinn án atkvæðagreiðslu þar sem enginn annar gaf kost á sér til embættisins. Í forsetakosningum árið 2012 var Ólafur Ragnar kjörinn forseti með 84.036 atkvæðum eða 52,8% gildra atkvæða. Aðrir hlutu atkvæði sem hér segir: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir 2.867 atkvæði (1,8% gildra atkvæða), Ari Trausti Guðmundsson 13.764 atkvæði (8,6%), Hannes Bjarnason 1.556 atkvæði (1,0%), Herdís Þorgeirsdóttir 4.189 atkvæði (2,6%) og Þóra Arnórsdóttir 52.795 atkvæði (33,2%). Auðir og ógildir kjörseðlar voru 4.044.

7b2644ccca659aa8

Heimild: forseti.is

Auglýsing um framboð og kjör forseta Íslands

Kjör forseta Íslands skal fara fram laugardaginn 25. júní 2016. Kjörtímabil forseta Íslands rennur út 31. júlí 2016.

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag.

Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna, en mest 3000, er skiptist þannig eftir landsfjórðungum:

Úr Sunnlendingafjórðungi (þ.e. Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósarhreppur, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur og Borgarbyggð sunnan Hvítár) séu minnst 1.215 meðmælendur, en mest 2.430.

Úr Vestfirðingafjórðungi (þ.e. Borgarbyggð vestan Hvítár, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Húnaþing vestra vestan Hrútafjarðar) séu minnst 62 meðmælendur, en mest 124.

Úr Norðlendingafjórðungi (þ.e. Húnaþing vestra norðan Hrútafjarðar, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Akrahreppur, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing vestan Reykjaheiðar og Tjörneshreppur) séu minnst 163 meðmælendur, en mest 326.

Úr Austfirðingafjórðungi (þ.e. Norðurþing austan Reykjaheiðar, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður) séu minnst 60 meðmælendur, en mest 120.

Sumarstörf í Reykjavik

Umsóknarfrestur um margvísleg sumarstörf hjá Reykjavíkurborg rennur út þann 29.mars næstkomandi.  Markmiðið er að bjóða ungmennum 17 ára og eldri, almenn sumarstörf og afleysingastörf hjá stofnunum borgarinnar. Sumarstörfin hjá borginni eru fjölbreytt og snerta daglegt líf borgarbúa með ýmsum hætti.

Sumarstörf hjá borginni eru fyrir þá sem eru 17 ára og eldri en þó er misjafnt eftir störfum hvaða aldurstakmörk gilda. Sem dæmi þurfa umsækjendur að hafa náð 20 ára aldri til að vera ráðnir í störf leiðbeinenda á sumarnámskeiðum eða við öryggisstörf.
Hjá Vinnuskóla Reykjavíkur er lágmarksaldur leiðbeinenda 22 ár en liðsmanna og aðstoðarleiðbeinenda 20 ár.
Ráðningatími í sumarstörf er 4 – 12 vikur og þau ungmenni sem eiga lögheimili í Reykjavík hafa forgang í störf borgarinnar.
Umsókn um starf  jafngildir ekki ráðningarsamningi. Byrjað verður að vinna með umsóknir eftir að umsóknarfrestur rennur út. Ungmenni frá 17 ára og eldri eru hvattir til að sækja um sumarstörf hjá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg er einn stærsti vinnustaður landsins, með yfir átta þúsund starfsmenn.

Átak til að stytta bið sjúklinga eftir aðgerðum að hefjast

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra undirritaði í gær samninga við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Áformað er að verja 1663 m.kr. til þessa verkefnis á árunum 2016 – 2018, þar af um helming fjárins á þessu ári.

Árið 2016 verður ráðist í að stytta til muna bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum: „Við stígum hér enn eitt stórt skref sem miðar að því að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. „Nú tökumst við á við biðlistana með það að markmiði að hámarksbið eftir aðgerð verði ekki lengri en 90 dagar.“

Bið sjúklinga eftir aðgerðum lengdist verulega í fyrravetur meðan á verkföllum heilbrigðisstarfsfólks stóð. Á grundvelli upplýsinga frá Embætti landlæknis um fjölgun á biðlistum lagði heilbrigðisráðherra fyrir ríkisstjórn áætlun um aðgerðir til úrbóta. Byggt var á tillögum landlæknis þar sem horft var til biðtíma og áhættu sem leiðir af bið eftir aðgerð. Niðurstaðan varð sú að ráðast í aðgerðir til að stytta bið eftir augasteinsaðgerðum, gerviliðaaðgerðum á hné og á mjöðm og hjartaþræðingu.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu ráðherra og miðast þau áform við að verja 1,663 milljónum króna á árunum 2016 – 2018 til að stytta bið eftir aðgerðum. Meiri  hluti fjárins verður nýttur á þessu ári. Markmiðið er að í lok átaksins þurfi sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Embætti landlæknis hefur verið falið að efla umgjörð um biðlista þannig að ávallt liggi fyrir upplýsingar um biðtíma og fjölda þeirra sem bíða, í stað þess að taka þessar upplýsingar saman á þriggja mánaða fresti.

Samningarnir eru við Landspítalann (LSH), Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk), Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVe) og fyrirtækið Sjónlag hf. Í þeim felst að sérstaklega hefur verið samið um fjármuni til að framkvæma tilteknar aðgerðir umfram það sem stofnanirnar höfðu ráðgert miðað við rekstrarfé af fjárlögum eins og hér segir:

Liðskiptaaðgerðum fjölgað um 530

Á grundvelli fjárlaga áætla LSH, SAk og HVe að framkvæma 1.010 liðskiptaaðgerðir (hné og mjaðmir) á þessu ári. Með átakinu bætast við 530 aðgerðir (52% aukning). Nú bíða 1.336 sjúklingar eftir liðskiptaaðgerð.

Augasteinsaðgerðum fjölgað um 2.890

Á grundvelli fastra fjárveitinga til stofnana ríkisins er áætlað að framkvæma 1.020 augasteinsaðgerðir á LSH og SAk, auk 800 aðgerða á ári samkvæmt samningum við einkaaðila. Með átakinu sem samningarnir taka til bætast við 2.890 aðgerðir (159% aukning). Samkvæmt nýjustu upplýsingum bíða nú 3.839 eftir augasteinsaðgerð.

Hjartaþræðingum fjölgað um 50

Á grundvelli fjárlaga er áætlað að framkvæma 1.725 hjartaþræðingar á Landspítala en með átakinu verður þeim fjölgað um 50 (3% aukning). Landspítalanum hefur tekist að stytta verulega bið eftir hjartaþræðingu á síðustu misserum. Í október 2014 biðu 274 eftir aðgerð,  171 í október 2015, en á biðlista í janúar sl. voru 92 einstaklingar. Ljóst er að með þessu átaki mun á þessu ári takast að tryggja öllum sjúklingum sem bíða eftir hjartaþræðingu aðgerð innan þriggja mánaða.

Eftirfylgni með samningunum

Heilbrigðisstofnanirnar sem taka þátt í átakinu skuldbinda sig jafnframt til að ná sem bestum árangri við að stytta biðtíma eftir öllum aðgerðum sem þær framkvæma. Áskilið er að framkvæmd aðgerða sem heyra undir átakið leiði ekki til þess að bið eftir öðrum valkvæðum aðgerðum lengist. Og þurfa aðilar sem taka þátt í átakinu að skila mánaðarlegri greinargerð um framvindu átaksins.

Velferðarráðuneytið mun greiða reglubundið fyrir þær aðgerðir sem samningarnir taka til í samræmi við tímasetta áætlun um framkvæmd þeirra. Náist ekki að framkvæma áætlaðan fjölda aðgerða lækka greiðslur sem því nemur. Ef fyrirséð er að samningsaðilar nái ekki að framkvæma umsaminn fjölda aðgerða á árinu getur ráðuneytið endurúthlutað fjármunum svo unnt sé að ná markmiðum átaksins.

Á meðfylgjandi mynd frá undirritun samninganna má sjá ásamt heilbrigðisráðherra Pál Matthíasson, forstjóra Landspítala, Guðjón Brjánsson, forstjóra HVe, Bjarna Jónasson forstjóra SAk  og Kristin Ólafsson, framkvæmdastjóra Sjónlags.

jm7cfq2cHeimild: velferdarraduneyti.is.

Átta sækja um embætti landgræðslustjóra

Átta umsækjendur eru um embætti landgræðslustjóra, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar þann 5. mars síðastliðinn. Umsóknarfrestur er liðinn og mun valnefnd meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra sem skipar í stöðuna til fimm ára að ráðningarferli loknu.

Umsækjendur eru:

 • Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands
 • Árni Bragason, forstjóri NordGen
 • Benedikt Arnórsson, bóndi
 • Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstöðumaður sviðs miðlunar og grunngerðar hjá Landmælingum Íslands
 • Guðmundur Stefánsson, sviðsstjóri á landverndarsviði hjá Landgræðslu ríkisins
 • Rannveig Anna Guicharnaud, jarðvegsfræðingur hjá Resource and Climate Consultancy
 • Rodrigo Ademar Martinez Catala, Environmental Educator hjá Camping La Belvedere
 • Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins

 

Viðvörun frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra

Veðurstofa Íslands vill vekja athygli á að spáð er mjög slæmu veðri um allt land á morgun, laugardaginn 12. mars.

Í kvöld og nótt nálgast mjög kröpp og djúp lægð landið sunnan úr hafi.  Lægðinni fylgir suðaustanhvassviðri eða -stormur með talsverðri slyddu eða rigningu í nótt og fyrramálið, einkum suðaustanlands. Síðan snýst í suðvestanstorm eða -rok með éljagangi, jafnvel ofsaveðri norðvestan til.

Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega á morgun.

Sumarstörf hjá Reykjavíkurborg

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sumarstörf hjá Reykjavíkurborg og nú geta ungmenni sótt um störf til og með 29.mars næstkomandi.  Markmiðið er að bjóða ungmennum 17 ára og eldri, almenn sumarstörf og afleysingastörf hjá stofnunum borgarinnar.

Sumarstörfin hjá borginni eru margvísleg og snerta daglegt líf borgarbúa með ýmsum hætti. Störfin eru laus til umsóknar fyrir alla 17 ára og eldri.
Almennt þurfa  umsækjendur að hafa náð 20 ára aldri til að vera ráðnir í störf leiðbeinenda á sumarnámskeiðum eða við öryggisstörf. Hjá Vinnuskóla Reykjavíkur er lágmarksaldur leiðbeinenda 22 ár en liðsmanna og aðstoðarleiðbeinenda 20 ár.
Ráðningatími er 4 – 12 vikur og þau ungmenni sem eiga lögheimili í Reykjavík hafa forgang í störf hjá Reykjavíkurborg.
Umsókn um starf  jafngildir ekki ráðningarsamningi. Byrjað verður að vinna með umsóknir eftir að umsóknarfrestur rennur.
Reykjavíkurborg er einn stærsti vinnustaður landsins, með hátt í átta þúsund starfsmenn.

Nýjar reglur um auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi

Við endurskoðun reglnanna var fylgt leiðbeinandi reglum Umboðsmanns barna og Talsmanns neytenda um að vernda eigi börn fyrir auglýsingum og annarri markaðssókn í grunnskólum og leikskólum. Jafnframt er séð til þess að stjórnendur, skólaráð og foreldrar fái aukið svigrúm til að móta áherslur um mótttöku gjafa utan skólatíma sem tengjast fræðslu og forvörnum.
Í nýjum reglum er greitt fyrir kynningum á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga sem hluta af námi þeirra. Slíkar kynningar eru heimilar á starfstíma skóla- og frístundar og kveðið á um að fyrirkomulag þeirra skuli ákveðið í samstarfi stjórnenda, foreldra og nemenda við hverfisráð, íþróttafélög og félagasamtök í viðkomandi hverfi. Upplýsingum um tímasetningar og kostnað vegna slíkra tilboða skal beina til foreldra en ekki barna og ungmenna.
Einnig eru aðgreindar reglur um gjafir til starfsstaða annars vegar og gjafir til barna til einkaeignar, hins vegar. Hvað varðar gjafir til starfsstaða þá er meginviðbótin sú að þiggja má gjafir hafi þær fræðslu- eða forvarnargildi, með því skilyrði að börn, starfsstaðir eða gjafir séu ekki merkt kostunaraðila.
Dreifing á gjöfum til barna til einkaeignar er óheimil í skipulögðu skóla- og frístundastarfi, þar með talið vettvangsferðum. Stjórnendur geta þó sem fyrr lánað húsnæði til úthlutunar gjafa til barna utan skólatíma og kveðið er á um að slíkt geti verið í samstarfi við foreldrafélag, foreldraráð eða skólaráð.
Að síðustu eru í reglunum ákvæði um rafræna miðlun og útsendingar í gegnum skólakerfið Mentor.
Reglurnar taka gildi 15. apríl nk.

Ríkisstjórnin styrkir komu San Francisco ballettsins

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun að veita Hörpu styrk að upphæð fimm milljónir króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til að standa straum af komu San Francisco ballettsins hingað til lands.

Fyrirhugað er að San Francisco ballettinn, ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, haldi fimm sýningar í Eldborgarsal Hörpu á komandi sumri. Koma ballettsins hingað til lands, með því umfangsmikla sýningahaldi sem fyrirhugað er, mun án efa teljast til hápunkta í menningarstarfseminni hér á landi á árinu.

Ríkisstjórnin styrkir Handverk og hönnun

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum þann 1. mars síðastliðinn, að tillögu forsætisráðherra og mennta og menningarmálaráðherra, að veita 6 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til verkefnisins ,,Handverk og hönnun“ með það að markmiði að stuðla að eflingu handverks og listiðnaðar hér á landi.

,,Handverk og hönnun“ var í upphafi verkefni sem hrint var af stað af forsætisráðuneytinu árið 1994 en síðar rekið sem samstarfsverkefni forsætisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, og fjármagnað af þeim. Árið 2007 var ,,Handverk og hönnun“ gert að sjálfseignarstofnun og mennta- og menningarmálaráðuneyti falið að gera samning við hana um ráðstöfun rekstrarframlags, sem greiðast skyldi af fjárlögum hvers árs.

Markmið gildandi samnings er að stuðla að eflingu handverks og listiðnaðar, auka gæðavitund með ráðgjöf og upplýsingagjöf; auka skilning á menningarlegu, listrænu og hagnýtu gildi handverks og listiðnaðar með fjölbreyttri kynningarstarfsemi; og kynna íslenskt handverk og íslenskan listiðnað.

,,Handverk og hönnun“ hefur frá upphafi sinnt markaðs- og kynningarstarfi, námskeiða- og sýningahaldi, fræðslu og ráðgjöf og þjónar tugum ef ekki hundruðum smárra fyrirtækja eða einyrkja sem margir eru á landsbyggðinni og konur þar í meirihluta.

Styrkir til verkefna á sviði menningarmála

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur úthlutað styrkjum til verkefna er stuðla að faglegri uppbyggingu á sviði menningarmála.

Í auglýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytis 9. október 2015 var tilgreint að úthlutað yrði til verkefna á sviði listgreina, menningararfs og uppbyggingar landsmótsstaða. Ráðuneytið tók til meðferðar 102 umsóknir þar sem sótt var um styrki alls að fjárhæð 366.866.300 kr.

Alls eru veittir 29 styrkir að þessu sinni, samtals að fjárhæð 38.800.000 kr.

Eftirfarandi  umsækjendur og verkefni hlutu styrki fyrir árið 2016:

Á sviði lista og menningar:     Kr.
Afrika-Lole, áhugamannafélag Fest Afrika Reykjavik 2016    200.000
Bandalag íslenskra leikfélaga Rekstur þjónustumiðstöðvar 6.000.000
Félag leikskálda og handritshöfunda Höfundasmiðja    400.000
List án landamæra List án landamæra 2016 1.500.000
Listahátíðin Hringrás Hringrás Listahátíð – Cycle Music and Art Festival    700.000
Lókal, leiklistarhátíð ehf. Lókal, leiklistarhátíð 2016 3.000.000
Málnefnd um íslenskt táknmál Barnamenningarhátíð á degi íslenska táknmálsins    400.000
Mýrin – félag um barnabókmenntahátíð Alþjóðleg barnabókmenntahátíð í Reykjavík    400.000
Samtök um Danshús Dansverkstæði 2.000.000
Sólheimar, sjálfbært samfélag Menningarveisla Sólheima 2016    200.000
Sviðslistasamband Íslands Rekstrarstyrkur 6.500.000
Upptakturinn, Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. og Íslenska óperan Upptakturinn – Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna.    300.000
Á sviði menningararfs:    
Bandalag íslenskra skáta Flokkun, skráning og skönnun muna og mynda úr sögu skátahreyfingarinnar 1.000.000
Félag norrænna forvarða – Ísland Rekstrarstyrkur    500.000
FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnamanna Rekstrarstyrkur 1.000.000
Heimilisiðnaðarfélag Íslands Rekstrarstyrkur 4.000.000
Íslandsdeild ICOM Rekstarstyrkur 1.000.000
Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi Uppbygging starfsemi    300.000
Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi Menningarminjar í hættu    750.000
ReykjavíkurAkademína ses. –

Sesselja G. Magnúsdóttir

Rannsókn á bókasafni Dagsbrúnar sem bókmenningu    300.000
Snorrastofa í Reykholti Forn trúarbrögð Norðursins 3.000.000
Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræðinga Rekstrarstyrkur 1.200.000
Wift á íslandi, félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi Gagnasafn íslenskra kvenna í kvikmyndagerð    350.000
Þjóðbúningaráð Rekstrarstyrkur    500.000
Á sviði uppbyggingar landsmótsstaða:    
Bandalag íslenskra skáta Framkvæmdir á Úlfljótsvatni vegna Landsmóts skáta 2016 og World Scout Moot 2017 8.000.000
Golfklúbbur Akureyrar Uppbygging fyrir Íslandsmótið í höggleik 2016 á Jaðri ásamt endurbótum á golfskála 4.000.000
Ísafjarðarbær Uppbygging vegna landsmóts UMFÍ 50+ 4.000.000
Landssamband hestamannafélaga Framkvæmdir vegna Landsmóts hestamanna 2016 á Hólum í Hjaltadal 5.000.000
Skógarmenn KFUM Uppbygging landsmótssvæðis í Vatnaskógi 3.300.000

Bætt öryggi ferðamanna

Stjórn Stjórnstöðvar ferðamála kom saman til fundar á miðvikudag í þessari viku.  Á fundinum voru ræddar tillögur vinnuhóps á vegum Stjórnstöðvar að bættu öryggi ferðamanna og almennings í landinu, sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum.

Um er að ræða tillögur að aðgerðum á árinu 2016. Verkefnið í heild er afar umfangsmikið og ljóst að framkvæmd þess verður skipt í nokkra hluta, en vinnuhópurinn leggur til að verkefnum verði forgangsraðað. Samhliða er unnið að heildstæðri langtímaáætlun.

Tillögurnar, sem snúa meðal annars að löggæslu, upplýsingamálum og öryggi á ferðamannastöðum og vegum fara nú til viðkomandi ráðuneyta til umfjöllunar. Í framhaldinu verða þær lagðar fyrir ríkisstjórn til samþykktar.

Að vinnunni komu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Lögreglunni, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Félagi leiðsögumanna og Stjórnstöð ferðamála.