Mottukeppnin haldin í síðasta sinn

Tilkynning frá Krabbameinsfélaginu:
Þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir, Mottumars er að bresta á.
Nú dregur þó til tíðinda, því mottukeppnin sjálf er nú haldin í sjöunda og síðasta sinn. Ekki missa af tækifærinu til að rækta karlmennskuna og láta mottuna blómstra.
Þú og yfir 14 þúsund aðrir mottumenn og konur hafið tekið þátt í þessu skemmtilega og mikilvæga verkefni Krabbameinsfélagsins síðan 2010. Við erum ykkur að eilífu þakklát fyrir stuðninginn og skemmtunina. Og allar motturnar auðvitað.
Verið viðbúin. Leggið rakvélunum og dragið fram skeggsnyrtinn. Við opnum fyrir skráningar 27. febrúar á mottumars.is.
Föstudaginn 11. mars 2016 hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn, konur og karla, til að halda upp á Mottudaginn með því að leyfa karlmennskunni að skína sem aldrei fyrr!

Neyðarlínan 20 ára

Neyðarlínan fagnaði 20 ára afmæli þann 11. febrúar síðastliðinn og efndi hún ásamt samstarfsaðilum til dagskrár í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð í Reykjavík um leið og haldið er uppá hinn árlega einn-einn-tveir dag. Ólöf Nordal innanríkisráðherra setti dagskrána með ávarpi og sagði það hafa verið heillaspor þegar ákveðið var fyrir 20 árum að koma á þessu samræmda neyðarnúmeri sem nánast hvert mannsbarn þekkti.

Skyndihjálparmaður Rauða krossins var útnefndur eins og gert hefur verið undanfarin ár og er þá leitast við að veita viðurkenningu þeim sem með snarræði og kunnáttu hefur jafnvel bjargað mannslífi. Í ár hlaut þá útnefningu stúlka á áttunda ári, Karen Sæberg Guðmundsdóttir, fyrir að hafa sýnt snarræði þegar móðir hennar leið út af í heitum potti og hún hélt höfði hennar uppúr vatninu á meðan hún sendi yngri dreng sem með þeim var til að kalla eftir aðstoð.

Einnig voru veitt verðlaun í eldvarnargetrauninni 2015 en þau hlutu skólabörn víða um land fyrir að tala fyrir eldvörum á heimilum sínum og er það Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem veitir þær viðurkenningar.

Í ávarpi sínu minntist innanríkisráðherra á önnur verkefni Neyðarlínunnar, svo sem að annast rekstur neyðarfjarskiptakerfisins Tetra og hvernig félagið hefði þannig lagt fram sinn skerf til að byggja upp þessi nauðsynlegu fjarskipti um land allt í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Einnig nefndi ráðherra að í gær hefðu forráðamenn Neyðarlínunnar og fjarskiptasjóðs skrifað undir viljayfirlýsing um að Neyðarlínan taki að sér að byggja upp síðari áfanga við hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum. Með því er bæði tryggður aðgangur almennings að neyðarnúmerinu einn-einn-tveir og um leið tryggð virkni öryggisfjarskipta Tetra kerfisins og vöktunarbúnaðar Vaktstöðvar siglinga. Sagði ráðherra þetta gott dæmi um enn eitt verkefnið í farsælu samstarfi fjarskiptasjóðs og Neyðarlínunnar.

rcvdaffaHeimild: innanrikisraduneyti.is

Nýjar leiðbeiningar um varnir gegn Zika-veiru

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nýjar leiðbeiningar um varnir gegn Zíkaveiru í ljósi nýrra upplýsinga um að veiran geti smitast manna á milli með kynmökum.

Algengasta smitleiðin er enn talin vera með moskítóflugum en þar sem veiran hefur fundist í sæði í allt að 3–4 vikur eftir sýkingu þá eru karlmenn hvattir til að nota smokka í 4 vikur eftir ferðalag til landa í Mið- og Suður-Ameríku þar sem útbreiðsla Zíkaveiru hefur verið hvað mest.

Þungaðar konur eru áfram hvattar til að ferðast ekki til þessara landa nema brýna nauðsyn beri en allir ferðamenn á þessum svæðum eru hvattir til að nota varnir gegn stungu moskítóflugna, sjá hér áður birta frétt frá 25.01.2016 um varnir gegn moskítóflugum.